Kötturinn og greifinn hans Þórlindur Kjartansson skrifar 7. apríl 2017 07:00 Það blés ekki byrlega fyrir kattargreyinu sem fátæki malarsonurinn fékk í arf eftir föður sinn. Hinn nýi eigandi var svo sárafátækur að það fyrsta sem honum datt í hug var að slátra kvikindinu og búa til úr skinninu hanska. Eins og nærri má geta leist kettinum sjálfum engan veginn á þessar hugmyndir. Og þar sem kötturinn var ekki þeirrar gerðar sem tekur örlögum sínum af æðru- og aðgerðarleysi þá tókst honum af miklum sannfæringarþunga að telja sinn nýja eiganda af þessum áformum.Kisi fær stígvél Það segir eflaust eitthvað um vitsmuni malarasonarins að hann virðist engin fjárhagsleg tækifæri hafa séð í því að halda lífi í ketti sem bjó yfir þeim undraverða eiginleika að kunna að tala mannamál. Kisi þurfti líka að hafa eitthvað vitrænt að segja. Og malarasonurinn var ekki aðeins blindur á augljós viðskiptatækifæri; hann var líka sérlega kærulaus í fjármálum. Ekki nóg með að hann samþykkti að þyrma kattargreyinu heldur féllst hann líka á að fara út í umtalsverða fjárfestingu í óljósum tilgangi að áeggjan kattarins, því nærri má geta að það hafi kostað skildinginn að láta sérsníða á dýrið stígvél. En það varð malarasyninum til gæfu að örlög hans voru upp frá því ekki á hans eigin valdi, heldur kattarins. Stígvélaði kötturinn reynist traustsins verður og rúmlega það. Um leið og hann var kominn í stígvélin tók hann til við að framkvæma áætlun sína. Hann byrjaði á því að koma sér rækilega í mjúkinn hjá ríkjandi stjórnvöldum með því að færa konungi ýmiss konar fágætar gjafir og afhendir þær með tilheyrandi fagurgala, smjaðri og skrúðmælgi; og tilkynnti hátíðlega í hvert sinn að gjafirnar væru frá hinum dularfulla greifa af Karabas. Konungur lætur sér vel líka örlæti hins framandi erlenda auðmanns og verður stöðugt forvitnari um hann. Kötturinn sætir svo lagi þegar konungurinn er úti að aka vagni sínum og platar hann til þess að lána hinum grunlausa malarasyni höfðingleg klæði úr sínum eigin fataskáp eftir að hafa falið larfana af eiganda sínum. Svo hefur kötturinn í hótunum við alþýðufólkið í sveitinni og pínir það til þess að halda því fram við konunginn að eigandi og stjórnarherra hinnar fögru sveitar sem hann ríður um sé einmitt hinn örláti greifi sem konungurinn þekkir aðeins af afspurn. Þar sem kostgæfnisathugun konungsins takmarkast við að yfirheyra þetta sama alþýðufólk þá telur hann fullvíst að greifinn af Karabas sé sannarlega sá mikli efnamaður og höfðingi sem sendiboði hans, kötturinn, hafði svo fjálglega lýst.Skrúðklæði handa greifanum Þannig gerist það að þegar stjórnvöld hitta malarasoninn í fyrsta sinn þá stendur hann frammi fyrir þeim skrúðklæddur á kostnað konungsins, og með köttinn kunnuglega sér við hlið. Eins og gjarnan er siður slyngra ráðgjafa þá gætti stígvélaði kötturinn þess í hvívetna að malarasonurinn hefði aldrei minnstu hugmynd um hina flóknu og úthugsuðu fléttu. Malarasyninum hæfileikalitla má þó telja til tekna að hann virðist hafa búið yfir þeim bráðnauðsynlega eiginleika stjórnmálamannsins að sannfærast samstundis um að dýrðarmyndin sem ráðgjafinn dró upp af honum væri sönn. Konungurinn verður vitaskuld mjög uppnuminn yfir hinum glæsilega greifa af Karabas og sér í hendi sér að það hljóti að vera mikil viðurkenning fyrir sig og þjóð sína að svo forframaður og dularfullur alþjóðlegur athafnamaður sýni landinu slíkan áhuga. Til þess að tryggja að tækifærið renni nú ekki úr greipum sér þá gerir konungurinn umsvifalaust þá tillögu að greifinn gangi að eiga dóttur sína, prinsessuna, og taki án tafar við hálfu konungsríkinu. Svo segir sagan að kötturinn hafi fengið að launum að fá að vera ráðgjafi konungs og fengið stöku sinnum að skjótast út á músaveiðar.Konungsríki kattarins Það hlýtur margt að hafa verið hvíslað í ríkinu eftir að konungurinn ákvað að gefa dóttur sína og hálft ríkið dularfullum greifa frá framandi landi sem enginn hafði áður heyrt um. Kannski hefur einhverjum fundist þessi náungi vera kunnuglegur að sjá. Ef til vill fannst sumum að honum svipaði töluvert til bláfátæks alþýðumanns sem hvarf sporlaust á svipuðum tíma og greifinn birtist skyndilega. Vera má að sögusagnir hafi verið á kreiki um að greifinn sjálfur væri bara ómerkilegt handbendi hinna raunverulegu valdhafa. Það gæti jafnvel verið að einhverjir hafi haldið því fram fullum fetum að heilinn á bak við þetta allt saman væri köttur greifans. En svona sögur hafa örugglega verið afskrifaðar og þeir sem trúðu þeim taldir vera truflaðir á geðsmunum eða helþjakaðir af öfund og vænisýki. Þeir sem lesið hafa ævintýrið um stígvélaða köttinn vita hins vegar mætavel að hinn svokallaði greifi hafði enga burði til þess að stjórna hálfu konungdæmi. Ekki getur annað verið en kötturinn hafi sjálfur haldið um alla valdaþræði af sinni aðdáunarverðu list.Ævintýrin enn gerast Það var ekki fyrr en miklu síðar sem sannleikurinn kom í ljós. Og þá var orðið alltof seint að vinda ofan af því sem löngu var liðið. Vissulega mátti hneykslast á trúgirni konungsins. En margir hafa líkast til huggað sig við að svona sögur yrðu slíkt víti til varnaðar að aldrei aftur féllu yfirvöld svo kylliflöt fyrir innantómri glæsimennsku framandi stórgreifa. En það vita slyngir klækjakettir að flestir konungar kjósa að trúa því sem best kemur þeim sjálfum og að alltaf er hægt að skapa úr litlu eða engu nýja og glæsilega greifa sem njóta slíkrar frægðar, virðingar og trausts að engum nema rugludöllum dettur í hug að draga í efa myndugleik þeirra og fögur fyrirheit. Hvernig fór með hinn helminginn af konungdæminu—þann sem ekki var gefinn greifanum af Karabas—fylgdi ekki sögunni um stígvélaða köttinn. En það er auðvitað allt önnur saga og annað ævintýri; og kannski eru þau fleiri—og kannski gerast þau enn. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Birtist í Fréttablaðinu Salan á Búnaðarbankanum Þórlindur Kjartansson Mest lesið ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Að kjósa með nútíma hugsunarhætti Ragnhildur Katla Jónsdóttir Skoðun BRCA Elín Íris Fanndal Jónasdóttir Skoðun Eitt heimili, ein fjölskylda og ein heilsa Pétur Heimisson Skoðun Svartir föstudagar í boði íslenskra stjórnvalda Haukur Guðmundsson Skoðun Íslenskufræðingurinn Sigmundur Davíð Hákon Darri Egilsson Skoðun Þegar náttúruvinir hitta frambjóðendur. Hjálpartæki kjósandans Stefán Jón Hafstein Skoðun Það er verið að ljúga að okkur Hildur Þórðardóttir Skoðun Dýrkeyptur aðgangur Stella Guðmundsdóttir Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun
Það blés ekki byrlega fyrir kattargreyinu sem fátæki malarsonurinn fékk í arf eftir föður sinn. Hinn nýi eigandi var svo sárafátækur að það fyrsta sem honum datt í hug var að slátra kvikindinu og búa til úr skinninu hanska. Eins og nærri má geta leist kettinum sjálfum engan veginn á þessar hugmyndir. Og þar sem kötturinn var ekki þeirrar gerðar sem tekur örlögum sínum af æðru- og aðgerðarleysi þá tókst honum af miklum sannfæringarþunga að telja sinn nýja eiganda af þessum áformum.Kisi fær stígvél Það segir eflaust eitthvað um vitsmuni malarasonarins að hann virðist engin fjárhagsleg tækifæri hafa séð í því að halda lífi í ketti sem bjó yfir þeim undraverða eiginleika að kunna að tala mannamál. Kisi þurfti líka að hafa eitthvað vitrænt að segja. Og malarasonurinn var ekki aðeins blindur á augljós viðskiptatækifæri; hann var líka sérlega kærulaus í fjármálum. Ekki nóg með að hann samþykkti að þyrma kattargreyinu heldur féllst hann líka á að fara út í umtalsverða fjárfestingu í óljósum tilgangi að áeggjan kattarins, því nærri má geta að það hafi kostað skildinginn að láta sérsníða á dýrið stígvél. En það varð malarasyninum til gæfu að örlög hans voru upp frá því ekki á hans eigin valdi, heldur kattarins. Stígvélaði kötturinn reynist traustsins verður og rúmlega það. Um leið og hann var kominn í stígvélin tók hann til við að framkvæma áætlun sína. Hann byrjaði á því að koma sér rækilega í mjúkinn hjá ríkjandi stjórnvöldum með því að færa konungi ýmiss konar fágætar gjafir og afhendir þær með tilheyrandi fagurgala, smjaðri og skrúðmælgi; og tilkynnti hátíðlega í hvert sinn að gjafirnar væru frá hinum dularfulla greifa af Karabas. Konungur lætur sér vel líka örlæti hins framandi erlenda auðmanns og verður stöðugt forvitnari um hann. Kötturinn sætir svo lagi þegar konungurinn er úti að aka vagni sínum og platar hann til þess að lána hinum grunlausa malarasyni höfðingleg klæði úr sínum eigin fataskáp eftir að hafa falið larfana af eiganda sínum. Svo hefur kötturinn í hótunum við alþýðufólkið í sveitinni og pínir það til þess að halda því fram við konunginn að eigandi og stjórnarherra hinnar fögru sveitar sem hann ríður um sé einmitt hinn örláti greifi sem konungurinn þekkir aðeins af afspurn. Þar sem kostgæfnisathugun konungsins takmarkast við að yfirheyra þetta sama alþýðufólk þá telur hann fullvíst að greifinn af Karabas sé sannarlega sá mikli efnamaður og höfðingi sem sendiboði hans, kötturinn, hafði svo fjálglega lýst.Skrúðklæði handa greifanum Þannig gerist það að þegar stjórnvöld hitta malarasoninn í fyrsta sinn þá stendur hann frammi fyrir þeim skrúðklæddur á kostnað konungsins, og með köttinn kunnuglega sér við hlið. Eins og gjarnan er siður slyngra ráðgjafa þá gætti stígvélaði kötturinn þess í hvívetna að malarasonurinn hefði aldrei minnstu hugmynd um hina flóknu og úthugsuðu fléttu. Malarasyninum hæfileikalitla má þó telja til tekna að hann virðist hafa búið yfir þeim bráðnauðsynlega eiginleika stjórnmálamannsins að sannfærast samstundis um að dýrðarmyndin sem ráðgjafinn dró upp af honum væri sönn. Konungurinn verður vitaskuld mjög uppnuminn yfir hinum glæsilega greifa af Karabas og sér í hendi sér að það hljóti að vera mikil viðurkenning fyrir sig og þjóð sína að svo forframaður og dularfullur alþjóðlegur athafnamaður sýni landinu slíkan áhuga. Til þess að tryggja að tækifærið renni nú ekki úr greipum sér þá gerir konungurinn umsvifalaust þá tillögu að greifinn gangi að eiga dóttur sína, prinsessuna, og taki án tafar við hálfu konungsríkinu. Svo segir sagan að kötturinn hafi fengið að launum að fá að vera ráðgjafi konungs og fengið stöku sinnum að skjótast út á músaveiðar.Konungsríki kattarins Það hlýtur margt að hafa verið hvíslað í ríkinu eftir að konungurinn ákvað að gefa dóttur sína og hálft ríkið dularfullum greifa frá framandi landi sem enginn hafði áður heyrt um. Kannski hefur einhverjum fundist þessi náungi vera kunnuglegur að sjá. Ef til vill fannst sumum að honum svipaði töluvert til bláfátæks alþýðumanns sem hvarf sporlaust á svipuðum tíma og greifinn birtist skyndilega. Vera má að sögusagnir hafi verið á kreiki um að greifinn sjálfur væri bara ómerkilegt handbendi hinna raunverulegu valdhafa. Það gæti jafnvel verið að einhverjir hafi haldið því fram fullum fetum að heilinn á bak við þetta allt saman væri köttur greifans. En svona sögur hafa örugglega verið afskrifaðar og þeir sem trúðu þeim taldir vera truflaðir á geðsmunum eða helþjakaðir af öfund og vænisýki. Þeir sem lesið hafa ævintýrið um stígvélaða köttinn vita hins vegar mætavel að hinn svokallaði greifi hafði enga burði til þess að stjórna hálfu konungdæmi. Ekki getur annað verið en kötturinn hafi sjálfur haldið um alla valdaþræði af sinni aðdáunarverðu list.Ævintýrin enn gerast Það var ekki fyrr en miklu síðar sem sannleikurinn kom í ljós. Og þá var orðið alltof seint að vinda ofan af því sem löngu var liðið. Vissulega mátti hneykslast á trúgirni konungsins. En margir hafa líkast til huggað sig við að svona sögur yrðu slíkt víti til varnaðar að aldrei aftur féllu yfirvöld svo kylliflöt fyrir innantómri glæsimennsku framandi stórgreifa. En það vita slyngir klækjakettir að flestir konungar kjósa að trúa því sem best kemur þeim sjálfum og að alltaf er hægt að skapa úr litlu eða engu nýja og glæsilega greifa sem njóta slíkrar frægðar, virðingar og trausts að engum nema rugludöllum dettur í hug að draga í efa myndugleik þeirra og fögur fyrirheit. Hvernig fór með hinn helminginn af konungdæminu—þann sem ekki var gefinn greifanum af Karabas—fylgdi ekki sögunni um stígvélaða köttinn. En það er auðvitað allt önnur saga og annað ævintýri; og kannski eru þau fleiri—og kannski gerast þau enn.