Viðskipti innlent

Skotsilfur Markaðarins: Skákaði Herdísi og Ragnheiður Elín vildi í stjórn ISAVIA

Ritstjórn Markaðarins skrifar
Margir biðu spenntir eftir skýrslunni sem varpaði ljósi á þátt Hauck & Aufhäuser í kaupunum á Búnaðarbanka Íslands 2003 sem Kjartan Bjarni Björgvinsson kynnti í vikunni. Finnur Þór Vilhjálmsson, starfsmaður hjá embætti héraðssaksóknara, hefur aðstoðað Kjartan í rannsóknarnefndinni en hann er fyrrverandi lögfræðingur hjá Umboðsmanni Alþingis. Rannsókninni sem skýrslan er byggð á var einmitt hrint af stað eftir að Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, fékk ný gögn í hendurnar um söluna.

Tíð stjórnarskipti

Það kom ýmsum á óvart að Svanhildi Nönnu Vigfúsdóttur tókst að skáka Herdísi Fjeldsted og verða kjörin stjórnarformaður VÍS eftir aðalfund félagsins fyrr í þessum mánuði. Þrír nýir stjórnarmenn tóku sæti í stjórn félagsins og þá er Svanhildur fjórði stjórnarformaður VÍS á aðeins tveimur árum. Fjárfestirinn Hallbjörn Karlsson, sem hafði verið stjórnarformaður um skeið, hætti í stjórn félagsins í mars 2015 og við formennsku tók Guðrún Þorgeirsdóttir. Hún stoppaði ekki lengi og var Herdís kjörin stjórnarformaður VÍS í nóvember sama ár.



Ragnheiður Elín Árnadóttir, fyrrverandi iðnaðarráðherra.
Náði ekki inn í stjórn

Það áttu margir von á því að Ragnheiður Elín Árnadóttir, fyrrverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, myndi komast inn í stjórn Isavia á aðalfundi félagsins í síðustu viku. Heyrst hafði að Ragnhildur sæktist eftir sæti en allt kom fyrir ekki. Hún er reynslubolti á sviði ferðaþjónustu enda fór hún með þann málaflokk í síðustu ríkisstjórn. Ólafur Þór Ólafsson, sveitarstjórnarmaður í Sandgerði, Helga Sigrún Harðardóttir, kosningastjóri Bjartrar framtíðar, og Margrét Guðmundsdóttir, stjórnarformaður N1, eru nýir stjórnarmenn ríkisfyrirtækisins.

Skotsilfrið er óvægin innsýn inn í bakherbergi viðskipta og atvinnulífs á landinu. Pistillinn birtist í Markaðnum í Fréttablaðinu á miðvikudögum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×