Bakþankar

Fögnum fjölbreytileikanum

Frosti Logason skrifar
Fyrir mánuði síðan var ég vakinn til rækilegrar vitundar við lestur stöðufærslu hjá einum félaga mínum á Facebook. Aðilinn sem skrifaði færsluna lýsti því hvernig annars hefðbundin ferð á pizzastað hefði snúist upp í sorglega upplifun. Upplifun sem leiddi til þess að hann brotnaði gjörsamlega niður. Þetta kvöld má segja að ákveðið korn hafi fyllt mæli sem hægt og rólega hafði verið að fyllast.

Þessi félagi minn á 4 ára son sem er ekki alveg nákvæmlega eins og flest börn. Hann er með Downs-heilkenni. Þetta kvöld þurfti hann í enn eitt skiptið að heyra, í sömu vikunni, orðin mongó og mongólíti þegar starfsmenn veitingastaðarins voru að fíflast sín á milli hinum megin við afgreiðsluborðið. Þetta sló mig sérstaklega þegar ég hugsaði til þess hversu oft ég sjálfur hef fíflast með þessi orð í fullkomnu hugsunarleysi. Án þess að gera mér minnstu grein fyrir sárindunum sem þeim kunna að fylgja.

Í stöðufærslunni lýsti félagi minn því hvernig sonur hans hefði auðvitað ekki valið að fæðast með Downs-heilkenni, en hann væri glaðlyndur, hress, skemmtilegur og yndislegur strákur sem væri elskaður af fjölskyldu sinni og öllum sem honum kynntust. Sem segir sig auðvitað sjálft. Drengurinn er, eins og allir aðrir sem eru með Downs-heilkenni, manneskja af holdi og blóði sem skartar nákvæmlega sama tilfinningaskala og við gerum öll. Ég á ekki auðvelt með að setja mig í spor fólks með Downs-heilkenni eða aðstandenda þeirra. En ég veit að fordómar okkar hinna gera þeim ekki auðvelt fyrir. Hugsum áður en við tölum. Fögnum fjölbreytileikanum.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.






×