Gagnrýni

Kvinnan fróma, klædd með sóma

Jónas Sen skrifar
Fólk úr Caput, ásamt Hönnu Sturludóttur. Myndi var ekki tónleikunum sem hér um ræðir.
Fólk úr Caput, ásamt Hönnu Sturludóttur. Myndi var ekki tónleikunum sem hér um ræðir. Valli
 Tónlist

Caput hópurinn flutti verk eftir Jónas Tómasson, Sigurð Árna Jónsson, Áskel Másson og Niels Rosing-Schow á Myrkum músíkdögum.

Stjórnandi: Guðni Franzson. Einleikari: Helene Navasse.

Norðurljós í Hörpu

Laugardaginn 28. janúar



Átta hægir dansar handa Láru eftir Jónas Tómasson, sem fluttir voru á tónleikum Caput hópsins á Myrkum músíkdögum, vöktu spurningar. Fyrir það fyrsta var tónlistin einn samfelldur kafli og erfitt að greina hvenær einn dansinn endaði og sá næsti tók við. Í öðru lagi var fráleitt að um dans væri að ræða, því takturinn í tónlistinni var svo torkennilegur að hann var í rauninni ekki til staðar.

Nú getur nútímadans auðvitað verið nokkurn veginn hvað sem er og vissulega hægt að dansa við taktlausa tónlist, en þá finnst manni að eitthvað grípandi þurfi að vera við hana. Það sem hér var boðið upp á var hins vegar flatt og leiðinlegt, gersneytt öllum innblæstri.

Verkið samanstóð af löngum, samhengislausum tónum sem mynduðu einstaklega fráhrindandi hljóma. Það var engin stígandi, engin framvinda, enginn fókus. Ég hef heyrt glæsileg tónverk eftir Jónas; hann getur gert betur en þetta.

Flashlight eftir Niels Rosing-Schow kom ekki heldur vel út. Þar var eins konar einleikur, sem var í höndunum á Helene Navasse, en hún lék á bassaflautu. Einnig komu rafhljóð við sögu, og svo var meðleikurinn í höndunum á Caput hópnum.

Mestmegnis grundvallaðist tónlistin á hröðum nótum og fínlegri áferð, sem náði aldrei að virka lokkandi. Grunnhugmyndirnar voru fyrst og fremst klisjur, og því risti heildarmyndin ekki djúpt. Einleikurinn var auk þess lítt krassandi, aðallega fálmkenndar tónahendingar sem höfðu ekkert að segja.

Annað á dagskránni var tilkomumeira. Shades eftir Áskel Másson var að hluta til byggt á þjóðlaginu við textann „Kvinnan fróma, klædd með sóma“. Úr því vann tónskáldið stórbrotinn vef fjölbreytilegra litbrigða sem einkenndust af kröftugri framsetningu. Form verksins var nokkurs konar frásögn með spennuþrunginni uppbyggingu og sterkum hápunkti og niðurstöðu. Það var ánægjulegt áheyrnar.

Referral Stampede eftir Sigurð Árna Jónsson var líka flott. Tónahugmyndirnar voru að vísu ekki sérlega skemmtilegar og minntu mjög á akademíska samtímatónlist frá áttunda áratuginum, en úrvinnslan var snörp og fókuseruð. Framvindan var því ávallt athyglisverð.

Caput hópurinn spilaði vel í alla staði, leikurinn var nákvæmur og samtaka. Dagskráin hefði aftur á móti þurft talsvert meiri yfirlegu.



Niðurstaða: Misjöfn dagskrá en flutningurinn var góður.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 4. febrúar 2017






Fleiri fréttir

Sjá meira


×