Körfubolti

Finnur Freyr: Nýr leikmaður kynntur á laugardag

Smári Jökull Jónsson skrifar
Finnur Freyr Stefánsson þjálfari KR sagðist vera ánægður með sigurinn gegn Haukum í Dominos-deildinni í kvöld og þá sérstaklega í ljósi þeirra breytinga sem áttu sér stað þegar Cedrick Bowen var sendur heim.

„Mér fannst við alveg getað spilað töluvert betur en það voru góðir leikkaflar í öðrum leikhluta og svo núna í lokin sem færðu okkur þennan sigur. Miðað við að liðið var ekki að spila af fullum krafti þá er ég ánægður með að fá sigur,“ sagði Finnur Freyr við Vísi eftir leik.

KR var fimm stigum yfir í hálfleik en eftir leikhlé hrökk sóknarleikurinn í baklás og liðið skoraði aðeins 14 stig á fyrstu 15 mínútum síðari hálfleiks.

„Mér fannst bara vanta smá takt í menn. Við vorum að gera ágætis hluti og skapa ýmislegt en það vantaði upp á tímasetningar og smá meiri grimmd undir körfunni. Þegar það small þá fannst mér við vera að fá fínar körfur. Það vantaði drápseðlið í okkur.“

Eins og kom fram fyrr í dag þá sendu KR-ingar Cedrick Bowen heim en hann þótti ekki standa undir vandræðum.

„Við erum búnir að vera að skoða okkar mál. Cedrick er góður strákur og mjög fínn í ákveðnum hlutum í körfubolta en við töldum það að okkur vantaði strák sem er betri í fleiri þáttum leiksins. Leikmann sem getur styrkt okkur varnarlega og frákastalega og í þessum leikfræðilegu þáttum sem Cedrick hefur ekki reynsluna til að vera góður í.“

„Sá leikmaður kemur á laugardaginn og verður kynntur til leiks þá. Hann er búinn að spila í Evrópu í fjögur tímabil núna. Þetta er reynslumeiri strákur sem er nær eldri leikmönnunum í aldri og hefur verið í titilbaráttu þar sem hann hefur verið að spila. Hann kann það sem við höfum verið að gera. Hann er miðherji sem getur leyst báðar stóru stöðurnar,“ sagði Finnur Freyr að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×