Bakþankar

Ekki segja neinum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Í fyrradag, á erkimánudegi hins spánnýja árs 2017, fögnuðum við móðurbróðir minn hvort sínum áfanganum. Hann hélt upp á 70 ár af lífaldri og ég hélt upp á 11 ár af tíðablæðingum. Hipp, hipp og þrefalt húrra fyrir okkur, Himmi frændi.

Mér var þó ekki fögnuður í huga þennan tiltekna morgun fyrir 11 árum. Í fyrsta lagi vætlaði nú allt í einu blóð úr klofinu á mér og í öðru lagi áttaði ég mig á því hvað það felst mikið djöfulsins pukur í því að vera kona. Pukur, laumuspil og baktjaldamakk.

Það er nefnilega enn þá svolítið eins og starfsemi kvenlíkamans sé einhvers konar dulúðugt og bleiksatínbróderað leyndarmál sem enginn má tala um. Allt sem angar ekki af ilmvatni verður að fela. Ég fékk fyrsta dömubindið í hendurnar og það mikilvægasta í heiminum var að passa að strákarnir í bekknum sæju ekki að ég héldi á því í saman­krepptum lófanum á leiðinni á klósettið. Og þetta pauf og þessi þöggun litar tilveru mína enn þá alveg óhugnanlega sterkt.

Í leikskóla var mér kennt að segja „pjalla“ en ekki „píka“ vegna þess að „píka“, hlutlaust heiti yfir kynfæri mín, var dónalegt orð. Fram á unglingsárin hélt ég að fæðingar gengju fyrir sig eins og í bíómyndum – þrifalega og snurðulaust – vegna þess að enginn sagði mér annað. Fyrsta þrívíddarmyndin af snípnum var ekki gerð fyrr en árið 2009 vegna þess að meira að segja læknavísindin þorðu ekki að hrófla við leyndarmálinu.

Nú hef ég farið á túr í 11 ár og á þessum 11 árum hefur blessunarlega margt breyst. Ekki alveg nóg samt. Við verðum að hætta að tala undir rós. Við verðum að kalla hlutina sínum réttu nöfnum. Við verðum að byrja að segja almennilega frá.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.






×