Gagnrýni

 Í tímavél aftur um 2000 ár

Jónas Sen skrifar
Epicycle diskur
Epicycle diskur
Geisladiskur

Gyða Valtýsdóttir: Epicycle

Smekkleysa



Mikið væri nú gaman ef hægt væri að ferðast aftur í tímann og heyra tónlist eins og hún hljómaði hjá Forngrikkjum sem voru svo þróaðir í músíkinni. En þó tímavélar séu ekki til, fékk ég nýlega í hendurnar grip sem fór engu að síður með mig í tímaferðalag. Þetta var geisladiskur Gyðu Valtýsdóttur, sem er hámenntaður sellóleikari. Hann spannar ákaflega vítt svið.

Þarna eru þekkt verk eftir Schumann, Messiaen, Crumb og Schubert, en svo er líka farið miklu lengra. Á diskinum er að finna elsta skráða tónverk sögunnar, hina svokölluðu Grafskrift Seikilosar. Hún er um 2000 ára gömul og samanstendur af söngtexta og þeirra tíma nótum.

Eins og grafskriftin birtist manni í nútíma nótnaletri, þá er hún átta taktar og er talið upp að sex í hverjum þeirra. Það er töluvert, meira en bara einhver hending. Lagið er frábært hér, Gyða leikur undir eigin söng sem er fínlegur en fullur af innlifun. Einnig koma sekkjapípur, flautur, rafmagnsgítar og slagverk við sögu. Það er flott, sköpuð er tímalaus stemning sem er svo lokkandi að maður hreinlega hverfur inn í aðra veröld.



Annað ótrúlega seiðandi verk er Ancient Mode II sem er eftir tónskáldið Harry Partch (1901-1974). Þetta er hugleiðing um fornan tónstiga sem líkt og áðurnefnt lag er ættaður frá Forngrikkjum. Gyða spilar af andakt á sellóið, en undir hljómar óljóst marimba, slagverk og kíþara heyrist mér, sem er strengjahljóðfæri, einskonar forfaðir gítarsins. Útkoman er sjaldheyrður unaður.

Langflest annað á diskinum er býsna þekkt úr heimi klassískrar tónlistar. En umgjörðin er allt öðru vísi en maður á að venjast. Segja má að hvert lag sé rímix, persónuleg túlkun Gyðu sem er afar frjálsleg. Því miður heppnast það nokkuð misjafnlega.

Hægi kaflinn í Es-dúr píanótríóinu op. 100 eftir Schubert kemur t.d. ekki vel út. Hans eigin útgáfa, fyrir píanó, selló og fiðlu er svo fögur að útsetning Gyðu bliknar í samanburðinum. Gyða setur rafgítar í forgrunninn sem er hjáróma og trommaður hergöngutaktur er hreint út sagt kjánalegur.

Lofsöngur um eilífð Jesú úr Kvartett um endalok tímans eftir Messiaen er ekki heldur viðunandi. Kaflinn er upphaflega fyrir selló og píanó, en á diskinum er spilað á rafgítar í stað píanósins. Af hverju í ósköpunum? Það vantar fyllingu píanósins í rafgítarinn, hljómurinn er holur og óekta.

Ákveðinn nýaldarkeimur er á diskinum sem hentar lögunum misvel. Sönglag Schumanns er t.d. ekki gott. Þó það sé vissulega draumkennt í upprunalegri gerð, er sú stemning ýkt út í það óendanlega svo útkoman er hálfgerð skrumskæling. Svipaða sögu er að segja um eitt af Visions fugitives eftir Prokofiev. Þetta er mikil synd. En annað er betra, eins og t.d. God-Music eftir Crumb og Ave Generosa eftir Hilde­gard Von Bingen. Það er transtónlist í sjálfu sér sem rímar við andrúmsloftið á geisladiskinum. Og lögin sem minnst var á í upphafi eru óneitanlega mögnuð.

Niðurstaða: Heildarútkoman er ójöfn, sumt er framúrskarandi, en annað alls ekki.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 21. desember 2016






Fleiri fréttir

Sjá meira


×