Segulbandasögur Þorvaldur Gylfason skrifar 15. desember 2016 07:00 Litlu munaði að Richard Nixon Bandaríkjaforseta tækist að bíta þá af sér sem höfðu grun um aðild manna hans að innbrotinu í skrifstofur Demókrataflokksins í Watergate-byggingunni í Washington, D.C., 17. júní 1972. Nixon gersigraði andstæðing sinn úr röðum demókrata, öldungadeildarþingmanninn George McGovern, í forsetakosningum þá um haustið. Innbrotið í Watergate nokkrum mánuðum fyrr var bersýnilega framið til að komast yfir gögn um andstæðinginn. Böndin bárust að mönnum Nixons. Hversu nærri forsetanum og mönnum hans stóðu innbrotsþjófarnir fimm? Það lá ekki fyrir í upphafi. Eina blaðið sem þorði að taka málið upp af myndugleik var staðarblaðið Washington Post og það einkum fyrir hugdirfsku tveggja ungra blaðamanna, Bobs Woodward og Carls Bernstein, sem fengu ritstjórann í lið með sér. New York Times þorði ekki að snerta málið fyrr en eftir dúk og disk. Uppljóstrari innan úr stjórnsýslunni („Deep Throat“ var hann nefndur) fóðraði blaðamennina á upplýsingum og hélt þeim við efnið. Hann steig fram úr leynum 30 árum síðar og reyndist þá vera Mark Felt, staðgengill og um skamma hríð eftirmaður J. Edgars Hoover, yfirmanns alríkislögreglunnar FBI. Fréttaflutningur beit ekki á forsetann. Það mátti þingið í Washington eiga að það setti málið í rannsókn á sínum vegum. Málið komst á skrið þegar John Dean, lögfræðingur Hvíta hússins, greindi frá því við yfirheyrslu í þinginu að upptökutæki væru til staðar á skrifstofu forsetans.Segulbönd sem sönnunargögn Upphófst nú stríð um böndin. Forsetinn neitaði í fyrstu að afhenda þau. Hæstiréttur úrskurðaði að forsetanum bæri að láta böndin af hendi. Forsetinn afhenti þá útskrift af böndunum en í hana vantaði rösklega 18 mínútur sem einkaritari forsetans kvaðst bera ábyrgð á; hún sagðist óvart hafa þurrkað þennan kafla út við vinnu sína þótt sýnt væri að mikla leikfimi hefði þurft til þess. Dramað vatt upp á sig. Um síðir neyddist Nixon til að viðurkenna að hann hefði haldið hluta hljóðritanna frá sérstökum saksóknara sem fjallaði um málið og var forsetinn þá orðinn ber að því að hindra framgang réttvísinnar. Taflinu var lokið. Nixon sagði af sér 9. ágúst 1974 til að komast hjá brottvikningu úr embætti. Ferill og endalok Watergate-málsins vitna um að Bandaríkjamenn eru jafnir fyrir lögum þegar mikið liggur við og einnig að ákvæði stjórnarskrárinnar um valdmörk og mótvægi eru virkur bókstafur. Þingið gerði skyldu sína, það gerði einnig réttarkerfið, og forsetinn vék úr embætti þegar hann varð uppvís að lögbroti.Heim til þín, Ísland Víkur nú sögunni hingað heim. Snemma var vitað um upptöku símtals seðlabankastjóra og forsætisráðherra 6. október 2008 þar sem þeir ræddu sín á milli um risalán Seðlabankans til Kaupþings. Seðlabankinn hefur staðfastlega neitað að afhenda upptökuna eða útskrift af henni. Jafnvel fjárlaganefnd Alþingis var neitað um aðgang að upptökunni. Þá gerist það átta árum síðar að Kastljós RÚV birtir mynd af hluta útskriftar símtalsins, útskriftar sem var notuð við yfirheyrslu Sérstaks saksóknara 2012 yfir embættismanni Seðlabankans. Embætti Sérstaks saksóknara hélt efni símtalsins leyndu fyrir almenningi þar til skýrslu um yfirheyrsluna var að því er virðist lekið þaðan út til Kastljóssmanna. Í útskrift símtalsins kemur fram að seðlabankastjórinn lýsir þeirri ákvörðun bankans að lána Kaupþingi 500 milljónir evra með þessum orðum: „Í dag getum við skrapað saman 500 milljónir evra og erum þá náttúrulega komnir inn að beini.“ Bankastjórinn lýsti því jafnframt yfir í hinu hljóðritaða símtali, skv. skýrslu sem tekin var af fyrr nefndum embættismanni Seðlabankans sem var viðstaddur símtalið, að lánið væri tapað. Eitt er að veita áhættusamt lán af almannafé sem tapast. Annað er að veita lán vitandi að það muni tapast eins og kom á daginn. Seðlabanka er líkt og ríkisviðskiptabanka óheimilt ráðstafa fé – almannafé! – með svo gáleysislegum hætti, og gildir þá væntanlega einu hvort veð var tekið fyrir láninu enda hefði slíkt lán án veðs verið skýlaust lögbrot.Eftirlitshlutverk bankaráðsins Ætla mætti að bankaráð Seðlabankans hafi fjallað um þau atvik í bankanum sem uppljóstrun Kastljóss um efni símtalsins dýra virðist afhjúpa, en það hefur þó hvergi komið fram opinberlega. Í lögum um Seðlabankann (28. gr.) segir svo: „Bankaráð hefur eftirlit með því að Seðlabanki Íslands starfi í samræmi við lög sem um starfsemina gilda.“ Nú vill svo til að fundargerðir bankaráðs Seðlabanka Íslands eru ekki opinber gögn og því eru þær ekki aðgengilegar á vefsetri bankans. Mér kemur í hug fv. þingmaður, vinur minn, sem var nýhættur á þingi og bað um að fá að sjá fundargerð um nefndarfund sem hann sat. Skrifstofa Alþingis synjaði honum um aðgang að fundargerðinni. Hvernig væri nú að lyfta lokinu? – og birta fundargerðir bankaráðs Seðlabanka Íslands t.d. tíu ár aftur í tímann svo að fólkið í landinu megi sjá hvernig bankaráðið hefur rækt eftirlitshlutverk sitt. Vonandi flytur einhver bankaráðsmaðurinn tillögu um það á næsta fundi ráðsins. Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Alþingi Þorvaldur Gylfason Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun Svartir föstudagar í boði íslenskra stjórnvalda Haukur Guðmundsson Skoðun
Litlu munaði að Richard Nixon Bandaríkjaforseta tækist að bíta þá af sér sem höfðu grun um aðild manna hans að innbrotinu í skrifstofur Demókrataflokksins í Watergate-byggingunni í Washington, D.C., 17. júní 1972. Nixon gersigraði andstæðing sinn úr röðum demókrata, öldungadeildarþingmanninn George McGovern, í forsetakosningum þá um haustið. Innbrotið í Watergate nokkrum mánuðum fyrr var bersýnilega framið til að komast yfir gögn um andstæðinginn. Böndin bárust að mönnum Nixons. Hversu nærri forsetanum og mönnum hans stóðu innbrotsþjófarnir fimm? Það lá ekki fyrir í upphafi. Eina blaðið sem þorði að taka málið upp af myndugleik var staðarblaðið Washington Post og það einkum fyrir hugdirfsku tveggja ungra blaðamanna, Bobs Woodward og Carls Bernstein, sem fengu ritstjórann í lið með sér. New York Times þorði ekki að snerta málið fyrr en eftir dúk og disk. Uppljóstrari innan úr stjórnsýslunni („Deep Throat“ var hann nefndur) fóðraði blaðamennina á upplýsingum og hélt þeim við efnið. Hann steig fram úr leynum 30 árum síðar og reyndist þá vera Mark Felt, staðgengill og um skamma hríð eftirmaður J. Edgars Hoover, yfirmanns alríkislögreglunnar FBI. Fréttaflutningur beit ekki á forsetann. Það mátti þingið í Washington eiga að það setti málið í rannsókn á sínum vegum. Málið komst á skrið þegar John Dean, lögfræðingur Hvíta hússins, greindi frá því við yfirheyrslu í þinginu að upptökutæki væru til staðar á skrifstofu forsetans.Segulbönd sem sönnunargögn Upphófst nú stríð um böndin. Forsetinn neitaði í fyrstu að afhenda þau. Hæstiréttur úrskurðaði að forsetanum bæri að láta böndin af hendi. Forsetinn afhenti þá útskrift af böndunum en í hana vantaði rösklega 18 mínútur sem einkaritari forsetans kvaðst bera ábyrgð á; hún sagðist óvart hafa þurrkað þennan kafla út við vinnu sína þótt sýnt væri að mikla leikfimi hefði þurft til þess. Dramað vatt upp á sig. Um síðir neyddist Nixon til að viðurkenna að hann hefði haldið hluta hljóðritanna frá sérstökum saksóknara sem fjallaði um málið og var forsetinn þá orðinn ber að því að hindra framgang réttvísinnar. Taflinu var lokið. Nixon sagði af sér 9. ágúst 1974 til að komast hjá brottvikningu úr embætti. Ferill og endalok Watergate-málsins vitna um að Bandaríkjamenn eru jafnir fyrir lögum þegar mikið liggur við og einnig að ákvæði stjórnarskrárinnar um valdmörk og mótvægi eru virkur bókstafur. Þingið gerði skyldu sína, það gerði einnig réttarkerfið, og forsetinn vék úr embætti þegar hann varð uppvís að lögbroti.Heim til þín, Ísland Víkur nú sögunni hingað heim. Snemma var vitað um upptöku símtals seðlabankastjóra og forsætisráðherra 6. október 2008 þar sem þeir ræddu sín á milli um risalán Seðlabankans til Kaupþings. Seðlabankinn hefur staðfastlega neitað að afhenda upptökuna eða útskrift af henni. Jafnvel fjárlaganefnd Alþingis var neitað um aðgang að upptökunni. Þá gerist það átta árum síðar að Kastljós RÚV birtir mynd af hluta útskriftar símtalsins, útskriftar sem var notuð við yfirheyrslu Sérstaks saksóknara 2012 yfir embættismanni Seðlabankans. Embætti Sérstaks saksóknara hélt efni símtalsins leyndu fyrir almenningi þar til skýrslu um yfirheyrsluna var að því er virðist lekið þaðan út til Kastljóssmanna. Í útskrift símtalsins kemur fram að seðlabankastjórinn lýsir þeirri ákvörðun bankans að lána Kaupþingi 500 milljónir evra með þessum orðum: „Í dag getum við skrapað saman 500 milljónir evra og erum þá náttúrulega komnir inn að beini.“ Bankastjórinn lýsti því jafnframt yfir í hinu hljóðritaða símtali, skv. skýrslu sem tekin var af fyrr nefndum embættismanni Seðlabankans sem var viðstaddur símtalið, að lánið væri tapað. Eitt er að veita áhættusamt lán af almannafé sem tapast. Annað er að veita lán vitandi að það muni tapast eins og kom á daginn. Seðlabanka er líkt og ríkisviðskiptabanka óheimilt ráðstafa fé – almannafé! – með svo gáleysislegum hætti, og gildir þá væntanlega einu hvort veð var tekið fyrir láninu enda hefði slíkt lán án veðs verið skýlaust lögbrot.Eftirlitshlutverk bankaráðsins Ætla mætti að bankaráð Seðlabankans hafi fjallað um þau atvik í bankanum sem uppljóstrun Kastljóss um efni símtalsins dýra virðist afhjúpa, en það hefur þó hvergi komið fram opinberlega. Í lögum um Seðlabankann (28. gr.) segir svo: „Bankaráð hefur eftirlit með því að Seðlabanki Íslands starfi í samræmi við lög sem um starfsemina gilda.“ Nú vill svo til að fundargerðir bankaráðs Seðlabanka Íslands eru ekki opinber gögn og því eru þær ekki aðgengilegar á vefsetri bankans. Mér kemur í hug fv. þingmaður, vinur minn, sem var nýhættur á þingi og bað um að fá að sjá fundargerð um nefndarfund sem hann sat. Skrifstofa Alþingis synjaði honum um aðgang að fundargerðinni. Hvernig væri nú að lyfta lokinu? – og birta fundargerðir bankaráðs Seðlabanka Íslands t.d. tíu ár aftur í tímann svo að fólkið í landinu megi sjá hvernig bankaráðið hefur rækt eftirlitshlutverk sitt. Vonandi flytur einhver bankaráðsmaðurinn tillögu um það á næsta fundi ráðsins. Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.