Fastir pennar

Brjótum upp hringinn

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Snemma í barnæsku er okkur kennt að neysla mjólkur sé nauðsynleg til að viðhalda tannheilsu og styrkleika beina. D-vítamínið og kalkið í mjólkinni þjónar þessu hlutverki. Við mennirnir erum hins vegar eina tegundin sem lifir á jörðinni sem heldur áfram að neyta mjólkur eftir fyrstu mánuðina í lífi sínu.

Gæði mjólkur fyrir heilsu eru stórlega ofmetin og margir fara í gegnum lífið án þess að neyta mjólkurafurða í miklum mæli. Mjólkin er hins vegar ein kalkríkasta fæða sem völ er á og það er erfitt fyrir manneskjuna að verða sér úti um aðrar kalkríkar vörur á lágu verði. Þessi staðreynd og sterk markaðssetning landbúnaðarins er svo ástæða þess að mjólkurafurðir eru jafn útbreiddar og raun ber vitni.

Við sem samfélag þurfum að fara að svara því hvers konar fyrirkomulag við viljum hafa á framleiðslu og sölu mjólkurafurða hér á landi enda er ljóst að núverandi kerfi er löngu gengið sér til húðar. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála felldi nýlega úr gildi ákvörðun Samkeppniseftirlitsins og lækkaði sekt MS um 440 milljónir króna. Í málinu var meðal annars tekist á um hvort samningsákvæði um að selja tiltekið magn af hrámjólk á lægra verði en almennt bauðst hefði fallið undir þá vernd sem 71. gr. búvörulaga tryggði afurðastöðvum Mjólkursamsölunnar. Áfrýjunarnefndin klofnaði í úrskurði sínum og Jóhannes Karl Sveinsson, formaður nefndarinnar, skilaði sératkvæði. Þar segir meðal annars: „Ég tel svo ekki vera og rétt lögskýring leiði til þess að 71. gr. undanþiggi einungis verkaskiptinguna sjálfa ákvæðum samkeppnislaga. Ekki sé í þeirri grein nein heimild til að markaðsráðandi aðili taki höndum saman við aðra á markaði til að mismuna í verði á ómissandi hráefni.“

Þetta er það sem MS gerði. Fyrirtækið mismunaði kaupendum á hrámjólk. Sú staðreynd stendur þrátt fyrir niðurstöðu áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Þessi mismunun MS var bara talin lögmæt af meirihluta áfrýjunarnefndarinnar. Dómstólar munu svara því hvort meirihlutinn hafði rétt fyrir sér.

Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins frá 5. ágúst 2010 var á það bent að íslenskur mjólkurmarkaður hefði „mörg einkenni samráðshrings“ sem á heilbrigðum samkeppnismarkaði bryti í bága við 10. gr. samkeppnislaga. Það er út af fyrir sig afrek að fyrirtæki eins og Arna í Bolungarvík þrífist í samkeppnisumhverfi mjólkuriðnaðarins. Það hefur fyrirtækinu tekist með mjög fjölbreyttu vöruframboði og nýjungum, meðal annars grískri jógúrt með alls kyns bragðtegundum sem keppinauturinn hefur ekki átt svar við til þessa. Vörur Örnu njóta líka vinsælda því mörgum neytendum er misboðið og þeir hafa tekið ákvörðun um að sniðganga vörur MS. Af þessu hafa verið sagðar margar fréttir á síðustu árum. Við þurfum hins vegar fleiri fyrirtæki eins og Örnu í Bolungarvík. Til þess að það gerist þarf að breyta búvörulögum.

Það þarf að brjóta upp þennan samráðshring sem mjólkuriðnaðurinn á Íslandi er. Vonandi hefur ný ríkisstjórn og nýtt löggjafarþing hugrekki til þess að taka það löngu tímabæra skref neytendum á Íslandi til hagsbóta.

Leiðarinn birtist fyrst í Fréttablaðinu.






×