Heiman og heim Magnús Guðmundsson skrifar 5. desember 2016 07:00 Það er margt sem veldur okkur streitu og eykur almennt álag í lífinu. Nýr skóli, ný vinna, flutningar og fjölmargt fleira sem felur í sér röskun á félagslegu umhverfi okkar. Hlutir sem kalla á að við þurfum að kynnast nýju fólki og endurskapa okkur eilítið inn í nýtt umhverfi og nýjar aðstæður. Auðvitað reyna allir að bera sig vel og segja að þetta sé allt svo skemmtilegt og yndislegt en þessu fylgir álag. Þetta veldur meira að segja álagi fyrir þá sem velja að skipta um skóla, vinnu eða að flytja. Hvað þá fyrir manneskju sem er nauðbeygð til þess að takast á við slíkt, og það vikulega. Salbjörg Ósk Atladóttir þarf að flytja vikulega. Hæstiréttur úrskurðaði um það í liðinni viku. Aðstæður Salbjargar Óskar eru um margt sérstakar, hún er einhverf og með aðrar undirliggjandi fatlanir og þarf mikla aðstoð í daglegu lífi, en að baki henni stendur ástrík og samheldin fjölskylda. Það leynir sér ekki. Salbjörg Ósk fær þá aðstoð sem hún þarf á að halda heima við aðra hverja viku en hina vikuna hefur hún þurft að flytja á stofnun því mánaðarlegur kvóti borgarinnar á launagreiðslum fyrir starfsfólk klárast á hálfum mánuði. Faðir hennar hefur reyndar bent á að kostnaður borgarinnar við pláss á sambýli sé sambærilegur við persónulega aðstoð í eigin íbúð. En allt kom fyrir ekki og Salbjörg Ósk hefur því verið í föstum ferðum að heiman og heim umfram það sem getur talist nokkurri manneskju gott. Í þessari stöðu er hægt að dvelja við úrskurð Hæstaréttar eða regluverkið sem varð til þess að mál Salbjargar Óskar endaði þar með þeim dapurlega hætti sem raun ber vitni. Það er hægt að velta því fyrir sér hvort þessi niðurstaða gangi ekki augljóslega gegn sjálfsögðum mannréttindum þessarar ungu konu. Rétti hennar til friðhelgi einkalífs, heimilis, fjölskyldu og síðast en ekki síst hinum sjálfsagða rétti að hafa eitthvað að segja um heimili sitt, líf og aðstæður. Það er líka hægt að gefa sér það að úrskurður Hæstaréttar hafi verið réttur og í samræmi við lög og reglur sem gilda um viðkomandi mál. En það er ekki hægt að sætta sig við þessa niðurstöðu. Það er ekki hægt að sætta sig við kerfi sem kennir sig við velferð en endar í átökum fyrir Hæstarétti við skjólstæðing sem vill búa heima hjá sér og fjölskyldu sinni fremur en á sambýli eða stofnun, með fullri virðingu fyrir öllum valkostum. Ilmur Kristjánsdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar, tjáir sig ekki um einstök mál en leggur áherslu á að ríkið þurfi að lögfesta NPA (notendastýrða persónulega aðstoð) til þess að Salbjörg geti búið heima. Það er sem sagt ríkinu en ekki velferðarráði borgarinnar að kenna að svona er komið fyrir Salbjörgu Ósk. Velferðarráð þarf að átta sig á að það er hlutverk þess að verja velferð skjólstæðinga sinna mun fremur en að verja hagsmuni gallaðs kerfis. Það ágæta fólk sem stjórnar kerfum á borð við þetta þarf að breyta starfsháttum sínum í þá veru að það sé fremur reiðubúið til að laga kerfið að notendum þess, mannréttindum þeirra og vellíðan, fremur en að verja það fyrir Hæstarétti með tilheyrandi kostnaði og meðfylgjandi smán.Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 5. desember. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Magnús Guðmundsson Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Svartir föstudagar í boði íslenskra stjórnvalda Haukur Guðmundsson Skoðun
Það er margt sem veldur okkur streitu og eykur almennt álag í lífinu. Nýr skóli, ný vinna, flutningar og fjölmargt fleira sem felur í sér röskun á félagslegu umhverfi okkar. Hlutir sem kalla á að við þurfum að kynnast nýju fólki og endurskapa okkur eilítið inn í nýtt umhverfi og nýjar aðstæður. Auðvitað reyna allir að bera sig vel og segja að þetta sé allt svo skemmtilegt og yndislegt en þessu fylgir álag. Þetta veldur meira að segja álagi fyrir þá sem velja að skipta um skóla, vinnu eða að flytja. Hvað þá fyrir manneskju sem er nauðbeygð til þess að takast á við slíkt, og það vikulega. Salbjörg Ósk Atladóttir þarf að flytja vikulega. Hæstiréttur úrskurðaði um það í liðinni viku. Aðstæður Salbjargar Óskar eru um margt sérstakar, hún er einhverf og með aðrar undirliggjandi fatlanir og þarf mikla aðstoð í daglegu lífi, en að baki henni stendur ástrík og samheldin fjölskylda. Það leynir sér ekki. Salbjörg Ósk fær þá aðstoð sem hún þarf á að halda heima við aðra hverja viku en hina vikuna hefur hún þurft að flytja á stofnun því mánaðarlegur kvóti borgarinnar á launagreiðslum fyrir starfsfólk klárast á hálfum mánuði. Faðir hennar hefur reyndar bent á að kostnaður borgarinnar við pláss á sambýli sé sambærilegur við persónulega aðstoð í eigin íbúð. En allt kom fyrir ekki og Salbjörg Ósk hefur því verið í föstum ferðum að heiman og heim umfram það sem getur talist nokkurri manneskju gott. Í þessari stöðu er hægt að dvelja við úrskurð Hæstaréttar eða regluverkið sem varð til þess að mál Salbjargar Óskar endaði þar með þeim dapurlega hætti sem raun ber vitni. Það er hægt að velta því fyrir sér hvort þessi niðurstaða gangi ekki augljóslega gegn sjálfsögðum mannréttindum þessarar ungu konu. Rétti hennar til friðhelgi einkalífs, heimilis, fjölskyldu og síðast en ekki síst hinum sjálfsagða rétti að hafa eitthvað að segja um heimili sitt, líf og aðstæður. Það er líka hægt að gefa sér það að úrskurður Hæstaréttar hafi verið réttur og í samræmi við lög og reglur sem gilda um viðkomandi mál. En það er ekki hægt að sætta sig við þessa niðurstöðu. Það er ekki hægt að sætta sig við kerfi sem kennir sig við velferð en endar í átökum fyrir Hæstarétti við skjólstæðing sem vill búa heima hjá sér og fjölskyldu sinni fremur en á sambýli eða stofnun, með fullri virðingu fyrir öllum valkostum. Ilmur Kristjánsdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar, tjáir sig ekki um einstök mál en leggur áherslu á að ríkið þurfi að lögfesta NPA (notendastýrða persónulega aðstoð) til þess að Salbjörg geti búið heima. Það er sem sagt ríkinu en ekki velferðarráði borgarinnar að kenna að svona er komið fyrir Salbjörgu Ósk. Velferðarráð þarf að átta sig á að það er hlutverk þess að verja velferð skjólstæðinga sinna mun fremur en að verja hagsmuni gallaðs kerfis. Það ágæta fólk sem stjórnar kerfum á borð við þetta þarf að breyta starfsháttum sínum í þá veru að það sé fremur reiðubúið til að laga kerfið að notendum þess, mannréttindum þeirra og vellíðan, fremur en að verja það fyrir Hæstarétti með tilheyrandi kostnaði og meðfylgjandi smán.Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 5. desember.