Lífið

Pabbi Eika: „Mjög fáir trúðu því að hann gæti haft snjóbretti að atvinnu“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Myndbandið er allt tekið á Íslandi og leikur Eiki listir sínar í stórfenglegri náttúru.
Myndbandið er allt tekið á Íslandi og leikur Eiki listir sínar í stórfenglegri náttúru. Vísir
„Mjög fáir trúðu því að hann gæti haft snjóbretti að atvinnu. Það hafði enginn gert áður á Íslandi,“ segir Helgi Jóhannsson, faðir snjóbrettakappans Eika Helgasonar í glænýju myndbandi þar sem Eiki sést renna sér á sinn einstaka hátt.

Í næstu viku kemur út heimildarmynd um líf Eika og er myndbandið hér að neðan hluti af kynningarefni þess. Myndbandið er alfarið tekið upp hér á landi og hefst á því að Helgi fer stuttlega yfir ævi Eika.

„Ég reyndi að koma honum í fótbolta en það var bara alls ekki fyrir hann. Þegar ég gat dregið Eika á völlinn sá hann bara fyrir sér snjóbrettapark og hvernig væri hægt að renna sér,“ segir Helgi.

Eiki og bróðir hans Halldór hafa getið sér gott orð á undanförnum árum fyrir snjóbrettafimi sína og er það nú þeirra aðalstarf. Faðir þeirra segir að Eiki hafi aldrei ætlað sér neitt annað en að verða snjóbrettamaður að atvinnu.

„Hann vissi alltaf hvað hann vildi og sýndi öllum að það er hægt að gera hvað sem er ef maður bara trú á sjálfum sér.“

Heimildarmyndin, Ísland Born, er líkt og áður sagði væntanleg í næstu viku en þar er blaðamanninum Stan Leveille fylgt eftir þar sem hann reynir að átta sig á því hvernig Eiki fór frá því að vera bóndastrákur yfir í að verða heimsfrægur snjóbrettakappi.


Tengdar fréttir

Halldór og Eiki stofna snjóbrettafyrirtæki

Halldór Helgason keppir á X Games í annað sinn um helgina. Snjóbrettaíþróttin er hans aðalstarf en hann og Eiríkur bróðir hans hafa stofnað fyrirtækið Lobster og hanna snjóbretti undir því nafni.

Eiki keppir á X-Games

Snjóbrettakappinn Eiríkur Helgason tekur þátt í X-Games Real Snow myndbandakeppninni í ár, sem sýnd er af ESPN.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×