Körfubolti

Stigalaus leikur Riley var það síðasta sem hann gerði fyrir Þór

Tómas Þór Þórðarso skrifar
Jalen Riley hitti ekki einu sinni úr þessu skoti í gær.
Jalen Riley hitti ekki einu sinni úr þessu skoti í gær. vísir/anton brink
Jalen Ross Riley, bandarískur leikmaður Þórs Akureyrar í Dominos-deild karla í körfubolta, var í gærkvöldi sagt upp störfum hjá liðinu og nýr Kani fenginn í staðinn.

Riley kvaddi á versta mögulega máta en bakvörðurinn sem nýliðarnir treystu á að skora fyrir sig setti ekki eitt einasta stig í 97-86 tapi gegn Íslandsmeisturum KR í DHL-höllinni í gærkvöldi.

Hann spilaði 16 mínútur og tók sjö skot en hitti ekki úr einu einasta. Það var svo tilkynnt á heimasíðu Þórs eftir leik að samningi hans hefði verið sagt upp. Riley spilaði 33 mínútur að meðaltali í leikjunum sex sem búnir eru og skoraði 18,2 stig að meðaltali í leik.

Í hans stað sömdu Þórsarar við George Beamon sem er framherji en ekki bakvörður eins og Riley. Hann er 187 cm á hæð og 80 kg, að því fram kemur á heimasíðu Þórs. Hann spilaði síðast með Manhattan Jaspers þar sem hann skoraði að meðaltali 19 stig í leik og tók sjö fráköst.

Beamon verður klár í slaginn þegar nafnar Þórs úr Þorlákshöfn kíkja í heimsókn í næstu viku.

Þór Akureyri er í tíunda sæti Dominos-deildar karla með fjögur stig eftir sex leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×