Bílar

Blöndun lífeldsneytis kostaði 1,1 milljarð í fyrra

Finnur Thorlacius skrifar
Fjár­munir streyma úr landi, rík­is­sjóður tap­ar, bíl­eig­endur tapa og vega­kerfið fær ekki ­pen­ing­inn eins og af hefðbundnu eldsneyti.
Fjár­munir streyma úr landi, rík­is­sjóður tap­ar, bíl­eig­endur tapa og vega­kerfið fær ekki ­pen­ing­inn eins og af hefðbundnu eldsneyti.
Á kjör­tíma­bilinu 2009 til 2013 var tekin um það ákvörðun að rík­is­sjóður myndi styrkja inn­flutn­ing á svo­nefndu end­ur­nýj­an­legu elds­neyti á bíla sem unnið er úr mat­jurtum, þ.e. líf­elds­neyt­i á borð við líf­dísil og etanól. Það var gert með því að fella niður sér­staka elds­neyt­is­skatta af þessu eld­sneyti. Kolefn­is­gjald, almennt vöru­gjald, sér­stakt vöru­gjald og olíu­gjald. Þessi rík­is­styrkur er um 70 krónur á hvern lítra líf­elds­neyt­is.

Um leið voru settar sér­stakar kvaðir í lög sem þving­uðu selj­endur elds­neytis til slíkrar íblönd­un­ar. Þessi skattí­vilnun rennur úr landi í formi hærra inn­kaups­verðs og minna orku­inni­halds hins end­ur­nýj­an­lega elds­neytis og kemur því bíl­eig­endum ekki til góða í lægra elds­neyt­is­verði og ekki fer hún í end­ur­bætur á vega­kerfi lands­ins eins og sér­stökum bens­ínsköttum var upp­haf­lega ætl­að. Þegar ákveðið er að nota pen­inga skatt­greið­enda til að ná ákveðnum mark­miðum er ­mik­il­vægt að kannað sé hvaða leið er hag­kvæmust því oft­ast koma fleiri en ein leið til greina.

Fjármunir streyma úr landi og bíleigendur tapa

Í upplýsingum frá Fjár­mála- og efna­hags­ráð­uneytinu kemur fram að á síð­asta ári nam þessi skattaí­vilnun 1,1 millj­arði króna. Fjár­munir streyma úr landi, rík­is­sjóður tap­ar, bíl­eig­endur tapa, vega­kerfið fær ekki ­pen­ing­inn og miðað við að bílar eru aðeins með 4% af árlegum útblæstri CO2 er ávinn­ing­ur­inn fyrir umhverfið aug­ljós­lega hverf­and­i ­jafn­vel þótt menn trúi því að líf­elds­neytið dragi úr los­un, sem er þó umdeilt.

Hámarks­ár­angur með þess­ari íblöndun inn­flutts líf­elds­neytis er sam­dráttur í losun um 30 þús­und tonn CO2 á ári sem er um 0,2% af árlegum heild­ar­út­blæstri. Þá er miðað við þær gríð­ar­lega hag­stæðu for­sendur fyrir líf­elds­neytið að útblástur CO2 frá því sé eng­inn.

Framræst land 70% losunar CO2

Að þessum for­sendum gefnum er kostn­að­ur­inn við að draga úr útblæstri með íblöndun inn­flutts líf­elds­neytis um 35 þús­und krónur á hvert tonn CO2. Er þetta mik­ill eða lít­ill kostn­að­ur? Ein leið til að meta það er að bera hann saman við kostnað við aðrar leiðir að sama marki. Langstærsta upp­spretta gróð­ur­húsa­loft­teg­unda af manna völdum hér á landi er fram­ræst land. Fram­ræsta landið er talið með um 70% af árlegri los­un.

Hægt er að stöðva þessa miklu losun með end­ur­heimt vot­lendis en mik­ill meiri­hluti hins fram­ræsta lands er ekki nýtt sem rækt­ar­land í land­bún­aði. End­ur­heimt vot­lendis hefur auk þess fjöl­margar aðrar jákvæðar afleið­ingar á borð við aukið fugla­líf og jákvæð áhrif á vatns­bú­skap áa og vatna og þar með lífs­skil­yrði fiska. Ræktun mat­jurta til fram­leiðslu á líf­elds­neyti krefst þess hins vegar að land sé rutt undir nýja akra og þar með gengið á líf­rík­ið.

2000 sinnum dýrari aðferð

Í skýrsl­unni „End­ur­heimt vot­lendis“  sem umhverf­is­ráðu­neytið gaf úr fyrr á árinu er mat lagt á kostnað við end­ur­heimt vot­lendis og nið­ur­staðan sú að kostn­að­ur­inn sé 16 krónur á hvert tonn CO2. Það er með öðrum orðum ríf­lega 2000 sinnum dýr­ara að nota íblöndun líf­elds­neytis til að draga úr losun en með því að end­ur­heimta vot­lendi. Og þessi nið­ur­staða fæst með því að gefa sér­ gríð­ar­lega jákvæðar for­sendur fyrir árangrinum af íblönd­un­inni.

Það var löngu orðið ljóst að íblöndun inn­flutts líf­elds­neytis er sóun á skattfé almenn­ings. Nú liggur einnig fyrir að hægt væri að ná 2000 sinnum meiri árangri í sam­drætti gróð­ur­húsa­loft­teg­unda fyr­ir­ þetta fé með því að fara aðra leið þ.e. end­ur­heimta vot­lendi.






×