Gagnrýni

Brothætt Björk sýndi allar sínar bestu hliðar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Björk á tónleikunum í Eldborg í gær.
Björk á tónleikunum í Eldborg í gær. vísir/getty
Ég hafði beðið eftir tónleikum Bjarkar Guðmundsdóttur í Eldborgarsal Hörpu í ár, eða alveg frá því að hún aflýsti tónleikum sínum á Iceland Airwaves í fyrra vegna radderfiðleika. Í sumar gerði ég svo tvær heiðarlegar tilraunir til að fá miða á aðra hvora tónleika hennar í London í september. Það tókst hins vegar ekki og var því miðinn á tónleikana í gær, sem voru hluti af dagskrá Airwaves í ár, kærkominn og væntingarnar að sjálfsögðu miklar í samræmi við hina löngu bið.

Fyrir hlé tók Björk fyrstu sex lögin af Vulnicura í þeirri röð sem þau koma fyrir á plötunni en Vulnicura er níunda sólóplata Bjarkar og kom út í fyrra. Hún hóf því tónleikana á upphafslaginu, Stonemilker. Vulnicura fjallar að mestu leyti um skilnað hennar og bandaríska myndlistarmannsins Matthew Barney. Björk og Barney voru saman í fjöldamörg ár og eiga eina dóttur en af textum plötunnar verður ekki annað ráðið en að skilnaðurinn hafi verið söngkonunni afar þungbær og mikil vonbrigði.

Björk ásamt strengjasveit og stjórnanda á sviðinu í Eldborg í gær.vísir/getty
Með þrjátíu manna strengjasveit á sviðinu

Textarnir eru einlægir og opinskáir og þegar platan kom út í fyrra var Björk meðal annars spurð að því í viðtölum hvernig það legðist í hana að flytja Vulnicura á tónleikum. Hún viðurkenndi þá að það gæti orðið henni erfitt og fyrsta lýsingarorðið sem kom upp í huga minn þegar hún söng fyrstu línurnar í Stonemilker á afar lágstemmdan hátt var „brothætt.“

Röddin var falleg en brothætt og konan sem stóð á sviðinu var um það bil að fara að opna hjarta sitt fyrir áhorfendum, en þó á bak við grímu, sem brotnaði ekki. Með Björk á sviðinu var þrjátíu manna strengjasveit sem sá um hljóðfæraleikinn undir stjórn Bjarna Frímanns Bjarnasonar en strengirnir juku trega og innileika söngkonunnar.  

Stonemilker er rólegt og því fór vel á lágstemmdum söng Bjarkar. Í laginu segir hún að það eina sem skipti máli sé hver sé með opið hjarta og hver hafi slegið allt út af borðinu. Hreyfingar hennar í lok lagsins minntu á þessar línur þar sem hún teygði sig fram og hallaði sér svo aftur, líkt og hún væri að opna hjarta sitt, í eldrauðum kjól.

Moments of clarity are so rare

I better document this

At last the view is fierce

All that matters is

 

Who is open chested

And who has coagulated

Who can share

And who has shut down the chances

Fyrri hluta tónleikana tók Björk sex lög af nýjustu plötu sinni, Vulnicura.vísir/getty
Gæsahúðin viðvarandi allt lagið

Eftir Stonemilker fór Björk í annað lagið af Vulnicura, Lionsong, sem er nokkuð kraftmeira en strax í næsta lagi var hún komin aftur á lágstemmdu og brothættu nóturnar í laginu History of Touches. Upphafslínurnar söng hún afar lágt en í laginu talar hún til ástmannsins og um samband þeirra sem er senn á enda.

 

I wake you up

In the middle of the night

To express my love for you

Stroke your skin and feel you

Naked I can feel all of you

At the same moment

 

I wake you up

In the night feeling

This is our last time together

 

Flutningurinn var tilfinningaríkur og gaf tóninn fyrir það sem koma skyldi í næstu tveimur lögum, Black Lake og Family. Black Lake er fjórða lagið á Vulnicura og nokkurs konar hryggjarstykki plötunnar en það er um tíu mínútna langt.

 

Það verður ekki annað sagt en að það hafi verið áhrifamikið að heyra og sjá Björk flytja Black Lake í gær. Gæsahúðin var nánast viðvarandi út allt lagið en flutningurinn hafði þannig ekki bara áhrif á áhorfendur heldur var augljóst að eitthvað bærðist innra með söngkonunni. Þannig virtist hún reið að sjá þegar hún flutti eftirfarandi línur, eins og eitthvað sæti enn í henni:

Family was always our sacred mutual mission

Which you abandoned

 

Það er erfitt að lýsa andrúmsloftinu í salnum þegar seinasti tónn lagsins var sleginn á strengi sveitarinnar en ef til vill segir það eitthvað að nokkrar sekúndur liðu áður en áhorfendur tóku við sér og klöppuðu fyrir rosalegum „performans“ Bjarkar.

Kjólinn sem Björk klæddist fyrir hlé hannaði David Ferreira.vísir/getty
„Heal me“

Þó að Black Lake sé hryggjarstykki Vulnicura hefur Björk sjálf sagt að lagið Family sé einhvers konar kjarni plötunnar. Í því spyr hún hvert hún eigi að snúa sér til þess að votta fjölskyldu sinni virðingu sína þar sem hún sé dáin, þessi þrenning föður, móður og barns.

 

Sviðið var myrkvað þegar Björk flutti þetta lag í gær. Það var því ekkert hægt að lesa út úr svip hennar en það eina sem sást í var gríman fyrir andlitinu, sem var sjálflýsandi, og skraut á skónum hennar, einnig sjálflýsandi.

 

Það var þó ekkert minna áhrifaríkt að hlýða á Family heldur en Black Lake. Flutningurinn var til að byrja með lágstemmdur en eftir því sem leið á lagið var gefið í. Hápunkturinn kom svo í blálokin þegar strengirnir þögnuðu og Björk bað um að verða heil á ný:

 

Heal me

Heal me

 

Seinasta lag fyrir hlé var sjötta lagið af Vulnicura, Notget. Það er taktfastara og meira stuð í því en lögunum þremur á undan enda lyftist brúnin á Björk sem var farin að brosa undir lok lagsins. Henni var vel fagnað þegar hún fór af sviðinu eftir að hafa grínast með að vonandi myndu sem flestir koma aftur í salinn að loknu hléi, eins og einhver léti sér detta í hug að fara af tónleikunum.

Höfuðfatið sem Björk bar eftir hlé er hannað af Gucci.vísir/getty
Lög af Vespertine, Selmasongs, Volta og Homogenic eftir hlé

Björk skipti auðvitað um kjól og grímu í hléi. Reyndar setti hún ekki á sig nýja grímu heldur einhvers konar höfuðfat, hannað af Gucci, sem minnti bæði á brúðarslör og marglyttu, eins furðulega og það hljómar. Það huldi andlit hennar vel, eins og sést á meðfylgjandi myndum.

 

Lögin sem Björk flutti eftir hlé voru flest af eldri plötum hennar en tvö lög af Vulnicura fengu að hljóma, Quicksand og Mouth Mantra. Hún byrjaði reyndar á laginu Aurora af Vespertine sem kom út árið 2001 og má segja að sé nokkurs konar systurplata Vulnicura þar sem mörg lögin fjölluðu um ástarsamband hennar og Barney sem þá var tiltölulega nýhafið.

 

Flutningurinn á Aurora var fumlaus og fallegur, líkt og flutningur annarra laga sem Björk tók eftir hléið. Þannig var gaman að heyra I’ve Seen it All af plötunni Selmasongs sem hefur að geyma tónlistina úr kvikmyndinni Dancer in the Dark en Björk fór með aðalhlutverkið í myndinni. Það var síðan klappað og hrópað þegar strengjasveitin spilaði upphafstónana í laginu Jóga af Homogenic en það er eitt vinsælasta lag Bjarkar.

 

Hún tók síðan lagið Vertabrae by Vertabrae af Volta, því næst lögin tvö af Vulnicura og lokalagið var Bachelorette af Homogenic sem er vissulega viðeigandi þegar kona er að fylgja eftir plötu sem fjallar að mestu leyti um skilnað.

Björk kemur fram á öðrum tónleikum í Eldborg á þriðjudag.vísir/getty
Fáir tónlistarmenn á pari við Björk í söng, sviðsframkomu og tónsmíðum

Áður en Björk renndi sér í uppklappslagið kynnti hún strengjasveitina en hljóðfæraleikararnir koma allir úr Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þá minntist Björk sérstaklega á að á sviðinu væru fjórir hljóðfæraleikarar sem höfðu tekið þátt í að hljóðrita Homogenic á sínum tíma. Hún bað þau um að standa upp og var vel klappað fyrir þeim sem og sveitinni allri. Björk kynnti síðan stjórnandann, Bjarna Frímann, og þakkaði honum fyrir en sneri sér svo að áhorfendum.

 

Eitt lag væri eftir og að það væri í lagi hennar vegna ef salurinn myndi syngja með og jafnvel standa upp og dansa. Allir risu á fætur og dönsuðu við teknólagið Pluto af Homogenic sem var auðvitað flutt í strengjaútsetningu. Fleiri urðu lögin ekki og saknaði ég persónulega lagsins Anchor Song af Debut í uppklappinu en Björk hefur gjarnan flutt það á íslensku, bæði á tónleikum hér heima og úti.

Það hefði verið frábært að heyra það í Eldborg í gær, ekki síst með alla Airwaves-útlendingana í salnum sem ég held að hefðu vel kunnað að meta að heyra skærustu stjörnu íslenskrar tónlistar flytja eitt lag á íslensku á tónleikum heima á Íslandi.

 

Að mínu mati náðu tónleikarnir ekki sama flugi eftir hlé og þeir höfðu gert fyrir hlé, þó að allt hafi verið fumlaust og fallegt eins og fram kom fyrr. Kannski er það vegna þess að ég hef séð Björk á fjölda tónleika og finnst í minningunni eins og ég hafi heyrt þessi gömlu lög hennar flutt betur. Kannski er það vegna þess að ég var bara í losti yfir því hversu trylltir tónleikarnir voru fyrir hlé.

Ég hafði aldrei heyrt lögin af Vulnicura fyrr á tónleikum og eins og ég gat um í byrjun hafði ég miklar væntingar. Tónleikarnir stóðust þær svo sannarlega, þrátt fyrir að missa dampinn eilítið eftir hlé, því það er einfaldlega þannig að þegar Björk sýnir allar sínar bestu hliðar eru fáir tónlistarmenn sem eru á pari við hana í söng, sviðsframkomu og tónsmíðum. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×