Körfubolti

Atkinson aftur til Njarðvíkur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jeremy Atkinson í leik með Njarðvík.
Jeremy Atkinson í leik með Njarðvík. Vísir
Njarðvík hefur leitað aftur til Jeremy Atkinson um að leysa miðherjavandræði liðsins. Þetta herma heimildir Víkurfrétta.

Atkinson spilaði með Njarðvík á síðari hluta síðasta tímabils eftir að Njarðvík hafði sagt upp þeim bandaríska leikmanni sem hóf tímabilið í Ljónagryfjunni.

Það sama gerðist nú en miðherjinn Corbin Jackson þótti ekki standa undir væntingum og var honum sagt upp í lok síðasta mánaðar.

Atkinson spilaði nítján leiki með Njarðvík á síðasta tímabili og fór með liðinu alla leið í undanúrslit, þar sem liðið tapaði fyrir verðandi Íslandsmeisturum KR í oddaleik.

Atkinson var með 19,6 stig að meðaltali í leik, 10 fráköst og 3,3 stoðsendingar. Fyrir er annar Bandaríkjamaður í liði Njarðvíkur, bakvörðurinn Stefan Bonneau.

Fram kemur á vef Víkurfrétta að von sé á Atkinson í næstu viku en Njarðvík féll úr leik í Maltbikarnum í gær eftir tap fyrir Keflavík í 32-liða úrslitum keppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×