Bakþankar

MVP á Alþingi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Í bandarískum íþróttum er aldrei talað um besta leikmann hverrar deildar heldur þann mikilvægasta, eða MVP (e. Most valuable player). Auðvitað er alltaf um að ræða einn besta leikmanninn ef ekki þann besta í viðkomandi íþrótt en pælingin er meira hversu mikilvægur hann er liðinu og hvernig myndi því ganga án hans. Í aðdraganda kosninga fór ég að pæla í hver væri MVP á Alþingi eða Mikilvægasti Pólitíkusinn. Það er augljóslega Katrín Jakobsdóttir.

Katrín er sá stjórnmálamaður á Íslandi sem flestum líkar best við. Móðir og kjarnakona sem býr í blokk í Vesturbænum og berst fyrir sínum gildum. Án hennar væru Vinstri grænir ekki að stefna í ótrúlega kosningu.

Pælið aðeins í þessu. VG galt afhroð í síðustu kosningum líkt og Samfylkingin eftir frekar döpur fjögur ár við stjórnvölinn í landinu. Samfylkingin missti 17 prósent á milli kosninga frá 2009-2013 og VG 10 prósent. Nú eru þrjú ár liðin og vegna frekar glataðra leiðtoga Samfylkingarinnar er hún við það að þurrkast út á meðan VG, sem hefur varla látið heyra í sér í kosningabaráttunni, virðist ætla að fara í 16-17 prósent eftir að fá aðeins tíu prósent fyrir þremur árum. Þetta er Katrín.

VG er ásamt Sjálfstæðisflokknum að vinna þessa kosningabaráttu. Því minna sem VG hafði sig frammi því meira hækkaði fylgið í skoðanakönnunum á meðan aðrir gjömmuðu og geltu á hvorn annan. Svo þegar kom að því að auglýsa grimmt fór VG leið Demókrata í Bandaríkjunum og lét frægt fólk tala fyrir sig ásamt því að sýna skjámyndir af Katrínu Jakobsdóttur til að minna á að MVP er með þeim í liði. Snilldarbragð. Sigurvegari samfélagsmiðlanna er samt Sjálfstæðisflokkurinn. Kökubaksturinn var toppurinn þar.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.






×