Forsendan sem trompar allt Þorbjörn Þórðarson skrifar 27. október 2016 07:00 Það er erfitt að vera kjósandi því margir stjórnmálamenn umgangast sannleikann af léttúð. Þess vegna þarf fólk að reiða sig á eitthvað annað en loforð. Það þarf að treysta innsæi sínu og dómgreind og tækjum sem við höfum til að mæla árangur. Fæstir hafa nægan tíma til að setja sig svo vel inn í stefnumál flokkanna að þeir geti tekið heildstæða vel upplýsta ákvörðun. Lýðræði er hins vegar besta fyrirkomulagið sem við höfum og það er ekki sjálfgefið. Við eigum að vera þakklát fyrir atkvæðisréttinn. Það er ekki valkostur að sitja heima og ekki heldur að skila auðu, þótt það sé skárra en sniðganga. Best er að hver og einn láti ekki áreiti í nærumhverfi hafa áhrif og taki sínar eigin ákvarðanir byggðar á eigin upplýsingum og brjóstviti. Það er gríðarlega mikilvægt að menn láti ekki vini sína eða fjölskyldumeðlimi hafa áhrif á hvað þeir ætla að kjósa. Og að spyrja hvað fólk kýs er á jaðri þess að vera jafn taktlaust og að ræða mismunandi áherslur trúarbragða í fermingarveislu. Hvaða mælikvarða eigum við að leggja til grundvallar þegar við gerum upp hug okkar? Kjósendur verðlauna ekki árangur en eitt af því sem við getum stuðst við þegar við metum gæði lífs á Íslandi er viðurkennd tölfræði um hvar Ísland stendur í samfélagi þjóðanna. Við erum fjórða besta land í heimi samkvæmt Social Progress Index, vísitölu sem mælir gæði innviða. Gini-stuðullinn sem mælir jöfnuð er núna 0,25 á Íslandi sem er þriðji mesti jöfnuður ríkis meðal OECD-ríkjanna. Hamingjustuðullinn er 9,6 stig af 10 sem skilar Íslandi í annað sætið innan OECD. Skipta þessar tölur máli? Flest venjulegt fólk verður syfjað þegar það heyrir setningar eins og „ábyrg stefna í ríkisfjármálum“. Ástæðan er sú að fólk á bara fullt í fangi með sitt daglega líf og hefur ómögulega tíma til að setja sig inn í hugtök eins og frumjöfnuð, slaka og ruðningsáhrif. Þetta eru líka hagfræðihugtök sem skapa gjá í opinberri umræðu milli sérfræðinganna sem tala á bransatungumáli sín á milli annars vegar og venjulegs fólks hins vegar. Að þessu sögðu er samt mikilvægt að hafa hugfast að ríkisfjármálin eru upphaf og endir alls. Kjósendur verða að hafa á bak við eyrað að stærsta velferðarmálið er góður rekstur ríkisins því þá er hægt að verja fé til verkefna til að hjálpa þeim sem þurfa á því að halda. Stjórnarskráin okkar leggur þær skyldur á herðar ríkisvaldsins að tryggja öllum aðstoð. Staðan hjá ríkissjóði er viðkvæm núna en á síðustu árum, bæði hjá núverandi og síðustu ríkisstjórn, hefur tíma og aflsmunum verið varið í að bæta þessa stöðu svo stjórnvöld geti í fyllingu tímans aukið útgjöld til brýnna velferðarmála og heilbrigðiskerfisins og efnt skyldur sínar samkvæmt stjórnarskránni. 86.500 manns eru búin að krefjast þess á endurreisn.is svo stjórnmálamennirnir hafa ekki val. Að þessu sögðu er gríðarlega mikilvægt að hver og einn taki sínar eigin ákvarðanir, treysti eigin dómgreind og láti ekki þennan leiðara hafa áhrif á sig.Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorbjörn Þórðarson Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óstjórn í húsnæðismálum Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun
Það er erfitt að vera kjósandi því margir stjórnmálamenn umgangast sannleikann af léttúð. Þess vegna þarf fólk að reiða sig á eitthvað annað en loforð. Það þarf að treysta innsæi sínu og dómgreind og tækjum sem við höfum til að mæla árangur. Fæstir hafa nægan tíma til að setja sig svo vel inn í stefnumál flokkanna að þeir geti tekið heildstæða vel upplýsta ákvörðun. Lýðræði er hins vegar besta fyrirkomulagið sem við höfum og það er ekki sjálfgefið. Við eigum að vera þakklát fyrir atkvæðisréttinn. Það er ekki valkostur að sitja heima og ekki heldur að skila auðu, þótt það sé skárra en sniðganga. Best er að hver og einn láti ekki áreiti í nærumhverfi hafa áhrif og taki sínar eigin ákvarðanir byggðar á eigin upplýsingum og brjóstviti. Það er gríðarlega mikilvægt að menn láti ekki vini sína eða fjölskyldumeðlimi hafa áhrif á hvað þeir ætla að kjósa. Og að spyrja hvað fólk kýs er á jaðri þess að vera jafn taktlaust og að ræða mismunandi áherslur trúarbragða í fermingarveislu. Hvaða mælikvarða eigum við að leggja til grundvallar þegar við gerum upp hug okkar? Kjósendur verðlauna ekki árangur en eitt af því sem við getum stuðst við þegar við metum gæði lífs á Íslandi er viðurkennd tölfræði um hvar Ísland stendur í samfélagi þjóðanna. Við erum fjórða besta land í heimi samkvæmt Social Progress Index, vísitölu sem mælir gæði innviða. Gini-stuðullinn sem mælir jöfnuð er núna 0,25 á Íslandi sem er þriðji mesti jöfnuður ríkis meðal OECD-ríkjanna. Hamingjustuðullinn er 9,6 stig af 10 sem skilar Íslandi í annað sætið innan OECD. Skipta þessar tölur máli? Flest venjulegt fólk verður syfjað þegar það heyrir setningar eins og „ábyrg stefna í ríkisfjármálum“. Ástæðan er sú að fólk á bara fullt í fangi með sitt daglega líf og hefur ómögulega tíma til að setja sig inn í hugtök eins og frumjöfnuð, slaka og ruðningsáhrif. Þetta eru líka hagfræðihugtök sem skapa gjá í opinberri umræðu milli sérfræðinganna sem tala á bransatungumáli sín á milli annars vegar og venjulegs fólks hins vegar. Að þessu sögðu er samt mikilvægt að hafa hugfast að ríkisfjármálin eru upphaf og endir alls. Kjósendur verða að hafa á bak við eyrað að stærsta velferðarmálið er góður rekstur ríkisins því þá er hægt að verja fé til verkefna til að hjálpa þeim sem þurfa á því að halda. Stjórnarskráin okkar leggur þær skyldur á herðar ríkisvaldsins að tryggja öllum aðstoð. Staðan hjá ríkissjóði er viðkvæm núna en á síðustu árum, bæði hjá núverandi og síðustu ríkisstjórn, hefur tíma og aflsmunum verið varið í að bæta þessa stöðu svo stjórnvöld geti í fyllingu tímans aukið útgjöld til brýnna velferðarmála og heilbrigðiskerfisins og efnt skyldur sínar samkvæmt stjórnarskránni. 86.500 manns eru búin að krefjast þess á endurreisn.is svo stjórnmálamennirnir hafa ekki val. Að þessu sögðu er gríðarlega mikilvægt að hver og einn taki sínar eigin ákvarðanir, treysti eigin dómgreind og láti ekki þennan leiðara hafa áhrif á sig.Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.