Íslenski boltinn

Nýir bikarar á loft í Pepsi-deildunum um helgina: Karla- og kvennabikarinn alveg eins

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Klara Bjartmarz með gamla kvennabikarinn (t.v.) og nýja kvennabikarinn sem er alveg eins og sá sem karlarnir fá.
Klara Bjartmarz með gamla kvennabikarinn (t.v.) og nýja kvennabikarinn sem er alveg eins og sá sem karlarnir fá. vísir/ernir
Íslandsmótinu í Pepsi-deildum karla- og kvenna lýkur um helgina. Lokaumferðin hjá konunum fer fram á föstudaginn og karlarnir ljúka keppni á laugardaginn.

FH er nú þegar orðið Íslandsmeistari í Pepsi-deild karla en Stjarnan stendur best að vígi fyrir lokaumferðina í Pepsi-deild kvenna og er líklegast til að lyfta nýjum Íslandsbikar sem verður tekinn í gagnið á föstudaginn.

Nýr bikar fer einnig á loft í Pepsi-deild karla og verður það Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, sem lyftir þeim nýja. Nýju bikararnir eru alveg eins, ólíkt þeim sem hafa verið notaðir undanfarnar 19 leiktíðir.

Gamli karlabikarinn var pattaralegur og flottur en nýi karla- og kvenna eru alveg eins.vísir/þórdís
Þessi leið farin núna

„Þeir gömlu voru komnir til ára sinna. Annar var nú eiginlega hruninn og búið að líma saman og það sama má segja um hinn,“ segir Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, í samtali við Vísi.

Gömlu bikararnir, sem fóru síðast á loft í Hafnarfirði í karlaflokki og Kópavogi í kvennaflokki í fyrra, voru í notkun frá 1997-2015 en nú verða teknir í gagnið tveir nýir og afskaplega huggulegir bikarar sem eru alveg eins.

Klara segir það ekki það ekki hafa komið til greina að fjárfesta í neinu öðru en alveg eins bikurum þar sem KSÍ lagði út fyrir þeim nýju. Síðustu bikara fékk sambandið að gjöf.

„Ertu verri maður?“ segir Klara í léttum tón. „Það kom ekkert annað til greina fyrst við keyptum þetta sjálf. Það var allavega ákveðið að fara þessa leið núna en hvað verður gert í framtíðinni á eftir að koma í ljós,“ segir Klara Bjartmarz.

Bikararnir voru sérpantaðir af Ísspor fyrir KSÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×