Gagnrýni

Fegurðin grimma

Tómas Valgeirsson skrifar
Neon Demon er gullfallega kvikmynduð og truflandi hryllingssaga sem dáleiðir í sinni geðveiki og skilur margt eftir sig.
Neon Demon er gullfallega kvikmynduð og truflandi hryllingssaga sem dáleiðir í sinni geðveiki og skilur margt eftir sig.
Neon Demon

Leikstjóri og handritshöfundur: Nicolas Winding Refn

Framleiðendur: Lene Børglum, Nicolas Winding Refn

Aðalhlutverk: Elle Fanning, Jena Malone, Bella Heathcote



Danski leikstjórinn Nicolas Winding Refn er sjaldnast þekktur fyrir að fara fínt í hlutina eða með hefðbundnum hætti. Hann hefur sýnt og staðfest með myndum eins og Valhalla Rising, Drive og Only God Forgives hvað hann fer faglega að því að móta draumakennd andrúmsloft, hneyksla með áköfu ofbeldi og ekki síður kljúfa áhorfendum í tvo hópa. Skiljanlega. 



Þessa seinastnefndu er varla hægt að kalla auðmelta kvikmynd og The Neon Demon ennþá síður. Sagan í grófum dráttum segir frá hinni 16 ára Jesse sem flytur til Los Angeles með þá drauma um að gerast módel. Jesse býr yfir miklum sakleysissjarma og heillar hún hvern á eftir öðrum. Samkeppnin og öfundsýki annarra er þó ekki lengi að berja að dyrum og bráðlega kynnist Jesse því að í þessum átakanlega bransa snýst hugarfarið annað hvort um það að éta eða vera étinn.

Myndinni er bæði stillt upp sem eins konar grimmu ævintýri og óforskammaðri skilaboðaögu um útlitsdýrkun og spillingu sakleysis. Refn notar tískugeirann sem áhrifaríkan stökkpall til þess að stúdera girnd, hégóma, fegurð og hrylling, innri djöfla og ytri og margs konar táknmyndir. Prakkarinn í honum skín þó mikið í gegn og nær að örva, ögra, stöku sinnum dáleiða og kitla hinar allra svörtustu hláturtaugar.

The Neon Demon er ekki beinlínis aðgengileg, en meiriháttar rugluð er hún, djörf og sérstök. Í augum margra jaðar úrvinnslan pottþétt við hrein og bein tilgerðarlegheit. Hvort sem manni líkar það annars betur eða verr er ljóst að Refn hefur mikið að segja með þessu martraðarkennda innliti sínu í útlitsbransann. Annars er erfitt að neita því hversu óútreiknanleg og bítandi framvindan í myndinni er, eða hvað Refn hefur sterkt auga fyrir römmum sem skera sig úr og gætu staðið sem sjálfstæð listaverk. Að auki eru alnokkrar mátulega truflandi senur sem ekki eru líklegar til að yfirgefa heilabúið í bráð.

Refn er allur í ýktri og draumakenndri stílíseringu og spilar með myndmál, andrúmsloft og hugmyndir frekar en að binda sig við ákveðnar handritsreglur. Kvikmyndataka, lýsing, litanotkun og almenn umgjörð er sérlega grípandi og innsiglar öfluga tónlistin frá Cliff Martinez þessa stemningu leikstjórans og gefur verkinu góðan púls. Leikkonurnar koma einnig glæsilega út í heldur krefjandi hlutverkum og aldrei er leiðinlegt að hafa einn reiðan Keanu Reeves á svæðinu.

The Neon Demon er mynd sem þarf fyrst og fremst að upplifa frekar en að botna samstundis í. Hún veitir engin einföld svör og bjóða rammarnir upp á ýmsar klikkaðar túlkanir og umræður. Hún er erfið, súr, vægðalaus og á köflum næstum því yfirgengilega yfirdrifin, en á sama tíma vekur hún mann til umhugsunar og kemur sínum skilaboðum á framfæri á frumlegan, einkennandi hátt. Ég verð hissa ef myndin verður ekki talin vera költ-klassík eftir áratug eða svo.

Niðurstaða: Svo sannarlega ekki allra en úthugsuð, beitt, gullfallega kvikmynduð og truflandi hryllingssaga sem dáleiðir í sinni geðveiki og skilur margt eftir sig. Ein af umræðuverðustu myndum ársins, engin spurning.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×