Lífið

Heppinn að vera vel giftur

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Birgir er fimmtugur í dag og á skemmtilega daga í vændum.
Birgir er fimmtugur í dag og á skemmtilega daga í vændum. Vísir/GVA
„Ég er mest hissa á að þetta skuli vera að gerast svona fljótt en það er bara skemmtilegt að fá að ná þessum aldri,“ segir Birgir Pálsson, lífefna-og tölvunarfræðingur um fimmtugsafmælið sem er í dag.

Hann býr á Akranesi en skilgreinir sig sem Reykvíking, enda þó hann sé fæddur á Ísafirði og uppalinn í Belgíu til fimm ára aldurs.

Birgir starfar líka í Reykjavík. Var lengi hjá Íslenskri erfðagreiningu og nú í hugbúnaðarfyrirtæki sem er afsprengi af tölvudeildinni þar, það heitir Wuxi-NextCode. Skyldi vera gaman að vinna þar?

„Já, þetta er spennandi fyrirtæki sem er með starfsemi hér í Reykjavík, í Boston og Sjanghæ.  Byggir á hugbúnaði sem þróaður var hjá DeCode til að vinna með erfðagögn úr rannsóknarstofum,  meðal annars til að finna hvaða erfðabreytileikar liggja til grundvallar ýmsum sjúkdómum og þróa lyf. 

Þetta er svið sem er að springa út því það er orðið miklu ódýrara að raðgreina erfðaefni en áður, það sem fyrr tók margar stofnanir áratugi að gera tekur nú nokkra klukkutíma á einni rannsóknastofu. Ég er í verkefnastjórn og oft á símafundum í tölvunni því ég er í samskiptum við viðskiptavini úti um víðan heim.“

En hvernig skyldi Birgir ætla að halda upp á afmælið?

„Ja, ef ég vissi það nú! En ég svo er heppinn að vera vel giftur og veit að Regína Ásvaldsdóttir, kona mín, er búin að undirbúa eitthvað skemmtilegt. Ég flýg í morgunsárið í óvissuferð til Kaupmannahafnar með umslag sem ég á að opna á Kastrupflugvelli, þar eru upplýsingar um hvernig ég á að haga mér í framhaldinu. En Regína verður komin á undan mér þar sem hún er búin að vera í vinnuferð í Danmörku.

Svo er ég með pakka í töskunni frá dætrum okkar sem ég má ekki opna fyrr en ég er kominn út.

Um næstu helgi fer ég svo til Berlínar með vinahópi sem hefur farið árlega í borgarferðir. „Þar er skipulagt prógram og skemmtun í fjóra daga en við Regína verðum þrjár nætur í viðbót og förum ásamt öðrum hjónum á golfhótel fyrir utan Berlín. Þannig að það eru skemmtilegir dagar framundan.“



Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 16. september 2016.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.