Hugarfarsbylting Kristín Þorsteinsdóttir skrifar 17. september 2016 07:00 Prófkjör Sjálfstæðisflokksins hafa verið til umræðu og einkum hefur verið bent á þá staðreynd að frambærilegar konur hafi víða borið skarðan hlut frá borði. Þannig röðuðust til að mynda engar konur í efstu sæti í kjördæmi formannsins, og annars staðar náðu áberandi þingkonur ekki þeim árangri sem þær vonuðust eftir. Þetta geta varla verið góð tíðindi fyrir Sjálfstæðismenn enda eðlilegast að í framvarðarsveit stjórnmálaflokka sé fólk af báðum kynjum og með sem fjölbreyttastan bakgrunn. Formaður flokksins hefur enda látið sig málið varða og jafnvel boðað aðgerðir til að leiðrétta þennan augljósa halla. Auðvitað hefur margvíslegur árangur náðst í jafnréttisbaráttunni undanfarna áratugi. Þar hafa margar konur ritað nafn sitt gylltu letri í söguna: frá Bríeti Bjarnhéðinsdóttur til Jóhönnu Sigurðardóttur. Hér var nýlega kvenkyns forsætisráðherra, auk þess sem kynjahlutföll á Alþingi hafa verið allt að því jöfn síðustu kjörtímabil. Enginn kippir sér lengur upp við að konur gegni veigamiklum embættum. Margt bendir hins vegar til að erfiðara sé að skola út gamla hugarfarið en tölur frá opinberum stofnunum gefa til kynna. Enn er launamunur kynjanna slíkur að konur vinna að jafnaði einn mánuð „kauplaust“ á ári hverju. Á dögunum hvarf eini kvenkyns forstjórinn í Kauphöllinni úr starfi. Varla er staðreyndin sú að skortur sé á hæfum konum í slíkar stöður? Líklegri skýring er sú að enn sé nokkuð í land í jafnréttisbaráttunni. Konur eiga það til að fá verri útreið en karlmenn á opinberum vettvangi. Meðferðin sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Steinunn Valdís Óskarsdóttir þurftu að þola í aðdraganda þess að þær hættu afskiptum af stjórnmálum er lifandi vitnisburður um það. Margir karlmenn sem voru í sambærilegri stöðu sitja enn á þingi og gegna háum embættum. Stundum er eins og „strákarnir“ reisi skjaldborg hver um annan. Þetta er heldur ekki séríslenskt fyrirbrigði. Í vikunni var sagt frá því að kvenkyns starfsmenn Hvíta hússins hefðu tekið höndum saman með skipulögðum hætti til að tryggja að tekið yrði réttmætt tillit til tillagna þeirra og framlags við fundarborðið. Margar konur kannast við þetta vandamál á eigin skinni. Engum hefur heldur dulist að Hillary Clinton virðist þurfa að þola mun meiri skoðun en andstæðingur hennar, Donald Trump, í aðdraganda forsetakjörs. Hún verður fyrir árásum vegna heilsufars síns og meðferðar á tölvupósti. Stöðugt er gefið í skyn að hana skorti siðferðisþrek. Á meðan siglir Trump með sína furðulegu viðskiptasögu tiltölulega lygnan sjó. Ekki er gott að sjá í fljótu bragði hvers vegna karlar og konur búa við þennan aðstöðumun. Þar skiptir hugarfarið, hjá báðum kynjum, sennilega mestu máli. Kannski þurfa konur alls staðar að taka starfskonur Hvíta hússins sér til fyrirmyndar. Samtakamáttur þeirra bar árangur gagnvart Obama forseta. Hví ekki víðar?Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Donald Trump Kristín Þorsteinsdóttir Mest lesið Örvæntingarfullur maður sker út grasker Þórður Snær Júlíusson Skoðun Bob Marley og íslenskar kosningar Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Ég var barnið sem vildi ekki taka í höndina á kennaranum sínum Fida Abu Libdeh Skoðun Sjálfstæðisflokkur hækkar kostnað heimilanna Kristrún Frostadóttir Skoðun Gerum þetta að kosningamáli Ágúst Ólafur Ágústsson Skoðun Ölmusuhagkerfið Unnur Rán Reynisdóttir Skoðun Eru vaxtarmörkin vandinn? Dóra Björt Guðjónsdóttir Skoðun Stóri grænþvotturinn Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun Búum til „vandamál“ – leysum það með samræmdum prófum Árelía Eydís Guðmundsdóttir Skoðun Fyrirmyndarstjórn Viðreisnar og Samfylkingar á Reykjavíkurborg? Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun
Prófkjör Sjálfstæðisflokksins hafa verið til umræðu og einkum hefur verið bent á þá staðreynd að frambærilegar konur hafi víða borið skarðan hlut frá borði. Þannig röðuðust til að mynda engar konur í efstu sæti í kjördæmi formannsins, og annars staðar náðu áberandi þingkonur ekki þeim árangri sem þær vonuðust eftir. Þetta geta varla verið góð tíðindi fyrir Sjálfstæðismenn enda eðlilegast að í framvarðarsveit stjórnmálaflokka sé fólk af báðum kynjum og með sem fjölbreyttastan bakgrunn. Formaður flokksins hefur enda látið sig málið varða og jafnvel boðað aðgerðir til að leiðrétta þennan augljósa halla. Auðvitað hefur margvíslegur árangur náðst í jafnréttisbaráttunni undanfarna áratugi. Þar hafa margar konur ritað nafn sitt gylltu letri í söguna: frá Bríeti Bjarnhéðinsdóttur til Jóhönnu Sigurðardóttur. Hér var nýlega kvenkyns forsætisráðherra, auk þess sem kynjahlutföll á Alþingi hafa verið allt að því jöfn síðustu kjörtímabil. Enginn kippir sér lengur upp við að konur gegni veigamiklum embættum. Margt bendir hins vegar til að erfiðara sé að skola út gamla hugarfarið en tölur frá opinberum stofnunum gefa til kynna. Enn er launamunur kynjanna slíkur að konur vinna að jafnaði einn mánuð „kauplaust“ á ári hverju. Á dögunum hvarf eini kvenkyns forstjórinn í Kauphöllinni úr starfi. Varla er staðreyndin sú að skortur sé á hæfum konum í slíkar stöður? Líklegri skýring er sú að enn sé nokkuð í land í jafnréttisbaráttunni. Konur eiga það til að fá verri útreið en karlmenn á opinberum vettvangi. Meðferðin sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Steinunn Valdís Óskarsdóttir þurftu að þola í aðdraganda þess að þær hættu afskiptum af stjórnmálum er lifandi vitnisburður um það. Margir karlmenn sem voru í sambærilegri stöðu sitja enn á þingi og gegna háum embættum. Stundum er eins og „strákarnir“ reisi skjaldborg hver um annan. Þetta er heldur ekki séríslenskt fyrirbrigði. Í vikunni var sagt frá því að kvenkyns starfsmenn Hvíta hússins hefðu tekið höndum saman með skipulögðum hætti til að tryggja að tekið yrði réttmætt tillit til tillagna þeirra og framlags við fundarborðið. Margar konur kannast við þetta vandamál á eigin skinni. Engum hefur heldur dulist að Hillary Clinton virðist þurfa að þola mun meiri skoðun en andstæðingur hennar, Donald Trump, í aðdraganda forsetakjörs. Hún verður fyrir árásum vegna heilsufars síns og meðferðar á tölvupósti. Stöðugt er gefið í skyn að hana skorti siðferðisþrek. Á meðan siglir Trump með sína furðulegu viðskiptasögu tiltölulega lygnan sjó. Ekki er gott að sjá í fljótu bragði hvers vegna karlar og konur búa við þennan aðstöðumun. Þar skiptir hugarfarið, hjá báðum kynjum, sennilega mestu máli. Kannski þurfa konur alls staðar að taka starfskonur Hvíta hússins sér til fyrirmyndar. Samtakamáttur þeirra bar árangur gagnvart Obama forseta. Hví ekki víðar?Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.