Lögfestið þakið Þorbjörn Þórðarson skrifar 6. september 2016 00:00 Sjúklingar sem glíma við alvarlega sjúkdóma eins og krabbamein og þurfa á langvinnri og kostnaðarsamri meðferð að halda hafa ekkert þak á kostnað vegna eigin meðferðar í settum lögum heldur þurfa að reiða sig á reglugerð ráðherra sem breyta má hvenær sem er. Núverandi ríkisstjórn hefur barið sér á brjóst fyrir breytingar á lögum um sjúkratryggingar sem Alþingi samþykkti í júní og taka gildi 1. janúar næstkomandi. Þessum lögum er ætlað að setja þak á kostnaðarhlutdeild sjúklinga þannig að útgjöld sjúklinga vegna eigin meðferðar geti bara orðið tiltekið hámark á ársgrundvelli. Vandamálið er hins vegar að þakið er hvergi tilgreint í lögunum og kostnaðarhlutdeild sjúklinga verður áfram til staðar en hámark hennar verður ákveðið með reglugerð sem ráðherra setur. Á þessum vettvangi hefur áður verið vikið að því að ef heilbrigðisráðherra festir þakið í einni krónu gæti næsti ráðherra alltaf hækkað það. Þá á sjúklingurinn enga vörn í settum lögum. Þess vegna eru þessi lög ekki sú stefnubreyting sem heilbrigðisráðherra og aðrir fullyrða að þau séu. Stjórnarskráin leggur þá athafnaskyldu á ríkisvaldið að tryggja sjúklingum aðstoð vegna sjúkleika. Þessi regla kemur fram í 76. gr. stjórnarskrárinnar og kom inn með stjórnarskrárbreytingunum 1995 en um rétt manna til framfærsluaðstoðar hafa verið ákvæði í stjórnarskránni allt frá árinu 1874 þegar Íslendingar fengu fyrst stjórnarskrá. Í 76. gr. segir að öllum sem þess þurfa, skuli tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Umboðsmaður Alþingis hefur fjallað um hvað felist í réttinum til aðstoðar samkvæmt þessu stjórnarskrárákvæði og það beri að túlka rúmt. Í bréfi umboðsmanns til félags- og tryggingamálaráðherra og heilbrigðisráðherra frá 10. júní 2008 benti umboðsmaður á að ekki yrði hjá því litið að með stjórnarskrárákvæðinu væri sú skylda lögð á Alþingi að taka afstöðu til þess hvaða rétt menn skyldu eiga til félagslegrar aðstoðar af hálfu hins opinbera. Löggjafanum bæri því að sjá til þess að fyrir hendi væru skýrar reglur um inntak þeirrar aðstoðar sem einstaklingar ættu rétt á. Sjónarmið af svipuðum toga koma fram í dómum Hæstaréttar um skerðingu á atvinnufrelsi og eignarréttindum. Mæla þurfi fyrir um takmörk og umfang þeirrar réttindaskerðingar sem talin er nauðsynleg í settum lögum en ekki í reglugerðum ráðherra þegar þessi mannréttindi eru annars vegar. Að þessu sögðu skýtur það skökku við að ráðherra geti einn síns liðs mælt fyrir um takmörk og umfang þeirra réttinda sem sjúklingar njóta þegar kostnaður vegna meðferðar þeirra í heilbrigðiskerfinu er annars vegar. Ráðherra getur án atbeina löggjafans breytt þaki á kostnaðarhlutdeild sjúklinga. Sjúklingar standa berskjaldaðir gagnvart ákvörðunum ráðherrans og eiga ekki vörn í settum lögum. Þessu þarf að breyta. Það þarf að mæla fyrir um þakið í settum lögum frá Alþingi í samræmi við áskilnað stjórnarskrárinnar um aðstoð vegna sjúkleika og dómaframkvæmd Hæstaréttar þegar túlkun á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar er annars vegar.Leiðarinn birtist upphaflega í Fréttablaðinu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorbjörn Þórðarson Mest lesið Bob Marley og íslenskar kosningar Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Örvæntingarfullur maður sker út grasker Þórður Snær Júlíusson Skoðun Ég var barnið sem vildi ekki taka í höndina á kennaranum sínum Fida Abu Libdeh Skoðun Sjálfstæðisflokkur hækkar kostnað heimilanna Kristrún Frostadóttir Skoðun Gerum þetta að kosningamáli Ágúst Ólafur Ágústsson Skoðun Ölmusuhagkerfið Unnur Rán Reynisdóttir Skoðun Eru vaxtarmörkin vandinn? Dóra Björt Guðjónsdóttir Skoðun Stóri grænþvotturinn Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun Búum til „vandamál“ – leysum það með samræmdum prófum Árelía Eydís Guðmundsdóttir Skoðun Fyrirmyndarstjórn Viðreisnar og Samfylkingar á Reykjavíkurborg? Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun
Sjúklingar sem glíma við alvarlega sjúkdóma eins og krabbamein og þurfa á langvinnri og kostnaðarsamri meðferð að halda hafa ekkert þak á kostnað vegna eigin meðferðar í settum lögum heldur þurfa að reiða sig á reglugerð ráðherra sem breyta má hvenær sem er. Núverandi ríkisstjórn hefur barið sér á brjóst fyrir breytingar á lögum um sjúkratryggingar sem Alþingi samþykkti í júní og taka gildi 1. janúar næstkomandi. Þessum lögum er ætlað að setja þak á kostnaðarhlutdeild sjúklinga þannig að útgjöld sjúklinga vegna eigin meðferðar geti bara orðið tiltekið hámark á ársgrundvelli. Vandamálið er hins vegar að þakið er hvergi tilgreint í lögunum og kostnaðarhlutdeild sjúklinga verður áfram til staðar en hámark hennar verður ákveðið með reglugerð sem ráðherra setur. Á þessum vettvangi hefur áður verið vikið að því að ef heilbrigðisráðherra festir þakið í einni krónu gæti næsti ráðherra alltaf hækkað það. Þá á sjúklingurinn enga vörn í settum lögum. Þess vegna eru þessi lög ekki sú stefnubreyting sem heilbrigðisráðherra og aðrir fullyrða að þau séu. Stjórnarskráin leggur þá athafnaskyldu á ríkisvaldið að tryggja sjúklingum aðstoð vegna sjúkleika. Þessi regla kemur fram í 76. gr. stjórnarskrárinnar og kom inn með stjórnarskrárbreytingunum 1995 en um rétt manna til framfærsluaðstoðar hafa verið ákvæði í stjórnarskránni allt frá árinu 1874 þegar Íslendingar fengu fyrst stjórnarskrá. Í 76. gr. segir að öllum sem þess þurfa, skuli tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Umboðsmaður Alþingis hefur fjallað um hvað felist í réttinum til aðstoðar samkvæmt þessu stjórnarskrárákvæði og það beri að túlka rúmt. Í bréfi umboðsmanns til félags- og tryggingamálaráðherra og heilbrigðisráðherra frá 10. júní 2008 benti umboðsmaður á að ekki yrði hjá því litið að með stjórnarskrárákvæðinu væri sú skylda lögð á Alþingi að taka afstöðu til þess hvaða rétt menn skyldu eiga til félagslegrar aðstoðar af hálfu hins opinbera. Löggjafanum bæri því að sjá til þess að fyrir hendi væru skýrar reglur um inntak þeirrar aðstoðar sem einstaklingar ættu rétt á. Sjónarmið af svipuðum toga koma fram í dómum Hæstaréttar um skerðingu á atvinnufrelsi og eignarréttindum. Mæla þurfi fyrir um takmörk og umfang þeirrar réttindaskerðingar sem talin er nauðsynleg í settum lögum en ekki í reglugerðum ráðherra þegar þessi mannréttindi eru annars vegar. Að þessu sögðu skýtur það skökku við að ráðherra geti einn síns liðs mælt fyrir um takmörk og umfang þeirra réttinda sem sjúklingar njóta þegar kostnaður vegna meðferðar þeirra í heilbrigðiskerfinu er annars vegar. Ráðherra getur án atbeina löggjafans breytt þaki á kostnaðarhlutdeild sjúklinga. Sjúklingar standa berskjaldaðir gagnvart ákvörðunum ráðherrans og eiga ekki vörn í settum lögum. Þessu þarf að breyta. Það þarf að mæla fyrir um þakið í settum lögum frá Alþingi í samræmi við áskilnað stjórnarskrárinnar um aðstoð vegna sjúkleika og dómaframkvæmd Hæstaréttar þegar túlkun á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar er annars vegar.Leiðarinn birtist upphaflega í Fréttablaðinu.