Lífið

Enn á kafi í litunum

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Aðalsteinn málar mikið yfir sumarið, þá er birtan svo góð.
Aðalsteinn málar mikið yfir sumarið, þá er birtan svo góð. Mynd/Auðunn Níelsson
„Ég hef ekkert að segja, blessuð vertu,“ fullyrðir Aðalsteinn Vestmann málari þegar ég bið hann um viðtal í tilefni af málverkasýningu hans í Galleríi Vest við Hagamel 67 í Reykjavík. „Það hlýtur nú að vera eftir langa ævi,“ malda ég í móinn. „Þetta er ekkert langt ennþá, 84 ár. Hitt veit ég að margir eru hættir að sulla með litina á þessum aldri en ég er á kafi í þeim ennþá.“

Aðalsteinn er Akureyringur – ólst upp í Hafnarstræti 3. „Þess vegna hættir mér til að sækja mótívin í innbæinn. Hef haldið tryggð við þær slóðir, það er algerlega óviðráðanlegt,“ útskýrir hann og segist alltaf vera að, sérstaklega yfir sumarið, því þá sé birtan svo góð. „Mér er alltaf hálf illa við rafmagnsbirtuna, ég veit ekki fyrir hvað. Þetta er sérviskan,“ segir hann.



Hann kveðst ekki muna hvenær hann byrjaði að mála. Það sé svo langt síðan.

„Ég fór í Handíðaskólann í gamla daga, bara til að fá einhverja undirstöðu í teikninguna, en lenti í kennaradeildinni og það varð til þess að ég var teiknikennari við Barnaskóla Akureyrar í 40 ár, þó það væri ekki meiningin. Ætlaði að hlaupa í skarðið einn vetur þegar teiknikennari hætti og í staðinn átti ég að fá að mála skólahúsið sumarið eftir, ég er sko húsamálari. En þessi eini vetur varð að að 40!“



Ein myndanna á sýningunni í Galleríi Vest.
Aðalsteinn hætti að mála með olíulitum fyrir mörgum árum. „Ég gaf vini mínum Erni Inga það sem ég átti eftir af litum og statífið líka. Nú nota ég bara akrýl eða vatn.“

Hann kveðst hafa sent átján málverk á sýninguna í Galleríi Vest, flest ný, það voru allar myndirnar sem hann átti – sem bendir til að hann selji vel. „Ja, einhvern veginn hverfa þær,“ segir hann kankvís.



Hann á margar sýningar að baki, einkum fyrir norðan. „Mér finnst samt ekki aðalatrið að sýna. Aðalatriðið er að lifa mig inn í þetta og njóta þess, þó ég sé ekki alltaf klár á því hvað ég er að gera – það gerir ekkert til, bara að manni líði vel. Heyrðu, hvað, voðalega er ég orðinn mælskur,“ segir hann svo, steinhissa á sjálfum sér.“

Sýningin verður opin um helgina og tvær næstu helgar frá klukkan 14 til 18.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 13. ágúst 2016.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.