Sport

Eygló varð áttunda í úrslitunum | Myndir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eygló eftir sundið í Ríó í nótt.
Eygló eftir sundið í Ríó í nótt. Vísir/Anton
Eygló Ósk Gústafsdóttir, sundkona úr SH og núverandi Íþróttamaður ársins, hafnaði í áttunda sæti í úrslitum 200 m baksunds á Ólympíuleikunum í Ríó í nótt.

Anton Brink, ljósmyndari Vísis og Fréttablaðsins, var á sundi Eyglóar Óskar í kvöld og náði þessum flottum myndum hér fyrir ofan.

Eygló Ósk synti á 2:09.44 mínútum í úrslitasundinu sem var ekki eins hratt og í undanúrslitunum þegar hún setti Íslands- og Norðurlandamet.

Afar óvænt úrslit voru í sundinu þar sem hin bandaríska Madeline Dirado bar sigur úr býtum á 2:05,99 eftir að hafa tekið fram úr „járnfrúnni“ Katinka Hosszú frá Ungverjalandi sem leiddi framan af. Hosszú synti á 2:06,05 mínútum en Hilary Caldwell vann brons á 2:07,54 mínútum.

Þetta voru önnur gullverðlaun Dirado á leikunum og fjórðu í heildina. Hosszú hafði unnið þrenn gullverðlaun í Ríó og reiknuðu flestir með sigri hennar í nótt.

Eygló Ósk byrjaði frábærlega og var í þriðja sæti eftir fyrsti 50 metrana. Hún gaf hinsvegar mikið eftir á síðustu 50 metrunum.

Íslenska sundfólkið hefur þar með lokið keppni á leikunum en Íslands náði fjórum sætum í undanúrslitum og tveimur sætum í úrslitasundum í Ríó sem er frábær og sögulegur árangur.

Eygló Ósk varð í nótt önnur íslenska konan og þriðji íslenski sundmaðurinn sem nær því að synda í úrslitum á Ólympíuleikum.

Hrafnhildur Lúthersdóttir synti til úrslita í 100 metra bringusundi á þessum leikum og endaði í sjötta sæti og þá komst Örn Arnarson í úrslit í 200 metra baksundi á ÓL í Sydney 2000 þar sem hann endaði í fjórða sæti.

Eygló Ósk varð í fjórtánda sæti í fyrri grein sinni á leikunum sem var 100 metra baksund. Eygló Ósk og Hrafnhildur Lúthersdóttir voru meðal fjórtán efstu í öllum sínum greinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×