Lífið

Kínversk sundkona rýfur þögnina um blæðingar íþróttakvenna

Birta Svavarsdóttir skrifar
Fu Yuanhui hefur vakið mikla athygli fyrir ummæli sín um blæðingar.
Fu Yuanhui hefur vakið mikla athygli fyrir ummæli sín um blæðingar. Getty
Kínverska sundkonan Fu Yuanhui hefur fengið mikla athygli og lof fyrir að ræða opinskátt um blæðingar íþróttakvenna á Ólympíuleikunum.

Í viðtali sem tekið var við hana seinastliðinn sunnudag, eftir að lið hennar lenti í 4. sæti í 4x100 m fjórsundi, sagði hún, „Ég held að ég hafi ekki staðið mitt neitt sérstaklega vel í dag. Mér finnst ég hafa brugðist liðsfélögum mínum.“

Aðspurð um það hvort henni væri nokkuð illt í maganum sagði hún frá því að hún hefði byrjað á blæðingum daginn áður, „þess vegna var ég óvenjulega þreytt, en það er samt engin afsökun.“

Fu Yuanhui á verðlaunapalli.Getty
Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa, en aðdáendur Fu hafa farið mikinn á samfélagsmiðlum í kjölfar viðtalsins.

„Ég dáist virkilega að Fu Yuanhui fyrir að synda á meðan hún var á blæðingum. Þetta getur haft áhrif á konur, sérstaklega ef þær fá slæma tíðaverki.“ er haft eftir einum aðdáanda hennar á vef BBC.

„Þetta er fullkomlega eðlilegt líffræðilegt fyrirbrigði, svo af hverju má ekki tala um það? Fu Yuanhui er frábær!“ sagði annar.

Sjá einnig: Einlæg viðbrögð kínverskrar sundkonu slá í gegn

Ummæli Fu hafa líka skapað aukna umræðu um notkun túrtappa í Kína, en aðeins um 2% kínverskra kvenna nota túrtappa. Þá kemur fram í sömu könnun að fjöldi kínverskra kvenna hafa ekki einu sinni heyrt um túrtappa og hafa ekki minnstu hugmynd um hvernig á að nota þá. 

Aðeins um 2% kínverskra kvenna nota túrtappa, samanborið við 42% bandarískra kvenna.Getty
Hægt er að lesa meira um málið á vef BBC.

Aukin umræða um tíðahring kvenna hefur einnig skapast á Íslandi undanfarið, þá sér í lagi á samfélagsmiðlum. Sem dæmi um það mætti nefna myllumerkið #túrvæðingin, sem notendur Twitter hafa notað til að deila upplifun sinni af blæðingum. Þá má einnig nefna Facebook-síðuna Rauði skatturinn sem beitir sér fyrir vitundarvakningu um blæðingar kvenna og aukin útgjöld þeim tengd.




Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.