Tónlist

Emmsjé Gauti: „Mér líður eins og Mr. Potato head“

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Emmsjé Gauti hefur aldrei risið hærra en núna í sumar.
Emmsjé Gauti hefur aldrei risið hærra en núna í sumar. Vísir/Esther Þorvalds
Á stuttum fimm árum hefur rapparinn Gauti Þeyr Másson unnið sig upp frá því að vera ærslafullur Breiðhyltingur með stóra drauma yfir í það að ná vinsældum um land allt sem ein skærasta poppstjarna landsins. Ef hann er ekki á milli tannanna á fólki fyrir hegðun sína utan eða innan radars fjölmiðlanna þá óma lög hans í útvarpi, sjónvarpi eða í farsímum barna og unglinga í gegnum Youtube. Þegar sjö ára börn eru byrjuð að syngja lögin þín, þá veistu að það verður ekki aftur snúið.

Þangað komst Gauti loksins síðasta sumar eftir púl og svita þegar hann gaf út lagið Strákarnir. Fram að því var hann óræð stærð. Margir þekktu nafnið en gátu fram að því ekkert endilega tengt andlit eða tóna við. Eftir yfir 400 þúsund áhorf á Youtube er öldin önnur.

Hér fyrir neðan má sjá myndbandið Strákarnir en því var leikstýrt af Magnúsi Leifssyni.

Slagarasúpa

Eftir það fylgdi hver slagarinn á fætur öðrum. Hann gerði Ómar Ragnarsson að þekktri stærð á ný hjá yngri kynslóðum með því að nefna lag í höfuðið á honum, næst fylgdi lagið Djammæli sem er poppaður partýóður og fyrir stuttu skaust lagið Silfurskotta yfir 100 þúsund spilanamarkið á Spotify.

Þannig æxlaðist það að þegar þriðja breiðskífa Emmsjé Gauta sá loks útgáfu um miðjan síðasta mánuð voru þar þegar að finna fjóra slagara. Á plötunni eru í heild 13 lög og óhætt að spá fleiri lögum þar vinsældum á komandi mánuðum. Við veðjum á lögin Reykjavík, Storm og Loftstein hvað það varðar.

Nú á Gauti 6 daga eftir af söfnun sinni á Karolinafund þar sem hann safnar fyrir vínýlútgáfu plötu sinnar. Lögin verða pressuð á tvöfaldan hvítan vínyl og hægt verður að fá ýmis góðgæti með.

Emmsjé Gauti gaf út nýtt myndband fyrir helgi við nýjasta slagara sinn Silfurskotta sem hann flytur ásamt Aron Can. Myndbandinu var leikstýrt af Baldvin Vernharðssyni en það má sjá hér fyrir neðan.

Dugnaður skiptir mestu máli

Velgengnina hefur Gauti náð að skapa sér sjálfur með hjálp góðra vina en hann hefur lengst af verið sinn eigin útgefandi og framleiðandi.

„Ég gaf út fyrstu plötuna mína með útgefanda en svo með því að skoða málin örlítið komst ég að því að með listamenn af minni stærðargráðu er langt best að gera þetta sjálfur,“ segir Gauti. „Fyrsta platan mín seldist vel en ég sá aldrei krónu fyrir hana. Það tók mig svona tvo daga að byggja dreifingarnet ásamt félaga mínum Arnari Bjartmarz og koma að koma okkur í samband við þá sem þurfti. Það erfiðasta er að prenta vínýlplötur og þá fer maður bara þessa leið og selur plöturnar áður en maður prentar þær.“

Gauti segir að dugnaður skipti öllu máli í tónlistarbransanum. Hann hefur alfarið séð um sína eigin markaðssetningu á netinu og eyðir gjarnan heilmiklum tíma í að sinna henni. Ein sem Gauti hefur farið er að fullvinna lög og myndbönd áður en minnst er á þau á netinu. Fullunnin vara virðist hafa sterkari áhrif á netnotendur en sífelldar áminningar á ókláruð verk.

Útgáfutónleikar Emmsjé Gauta voru með afar sérstöku sniði þar sem hann lét byggja svið á mitt gólf Nasa. Þannig voru áheyrendur í allar áttir við sviðið og fyrir vikið myndaðist mikil klúbbastemmning.Vísir/Esther Þorvalds
Átti upphaflega að vera mixteip

„Í byrjun árs 2014 byrjaði ég að vinna í mixteipi. Planið var þá að gera frekar fljótgerða plötu til þess að sleppa út. Upp úr því fóru að koma lög sem ég varð svolítið skotinn í. Þá tímdi ég ekki að eyða kröftum mínum í hálfklárað verkefni. Þegar ég var að vinna Strákarnir datt ég inn á einhvern stíl í því lagi sem er öðruvísi raddbeiting en ég hafði tamið mér. Þá breyttust margir hlutir inn í höfðinu á mér hvað ég vildi gera. Þá fór ég að endurskapa plötuna alveg frá grunni þó svo að hún hafi verið langt komin.“

Gauti segir ljómann við það að gera mixteip vera þann að þá gefst aukið frelsi til þess að gera alls konar hluti sem ganga yfirleitt ekki upp á plötum

„Með mixteipi ertu ekki að gefa út opinbera útgáfu. Sum mixteip rata ekki einu sinni inn á Spotify. Þar er þá hægt að endurgera takta eftir aðra. Þó svo aðrir túlki þetta sem plötur þá er munurinn sá að listamaður myndi kannski henda mörgum af þeim lögum sem rata inn á mixteip ef hann væri að gera plötu.“

Hversu mikilvægt er fyrir þér að gefa út á disk og vínýl?

„Ég held að ég kæmist alveg upp með það að gera það ekki. Ég gæti alveg eins starfað bara á netinu. En ég er gaur sem á mörg hundruð geisladiska. Ég fór alltaf út í plötubúð um leið og ég átti tvö þúsund kall og safnaði diskum. Hlustaði á það í búðinni áður en ég keypti og svona. Ætli þetta sé ekki gamli perrinn í sjálfum mér að vilja eiga sjálfan sig á disk eða vínýl. Það eiga svo fáir geislaspilara í dag enda hafa plöturnar selst jafnvel betur ef eitthvað er. Mér finnst vera svo mikill partur af því að vera listamaður að leyfa sjónræna og áþreifanlega hlutanum að öðlast sitt líf líka.“

Ekki bara plata, heldur heimur

Gauti bendir á að áþreifanlegar útgáfur séu góð fjárfesting fyrir framtíðina. Komi sá tími að hann detti út af playlistum á netinu eða úr útvarpsspilun verður alltaf hægt að finna eintök einhvers staðar á mörkuðum. Gauti prentar textana með og með nýju plötunni fylgja plaggat og límmiðar.

„Mig langaði til þess að Vagg&Velta yrði ekki bara plata, heldur líka heimur. Fatalína, tónleikaröð og upplifun. Ég held að ég hafi eytt 10 dögum í Instagram síðu sem enginn hefur nennt að skoða. Þetta telur allt til. Það er ekkert nauðsynlegt að gera lyklakippur eða derhúfur en það er nauðsynlegt að vera duglegur til þess að ná að harka á íslenskum markaði sem er svo grjótharður og kaldur. Ef einhver sér derhúfu út í bæ þá er það í leiðinni auglýsing fyrir tónlistina mína.“

Vagg og Velta instagram síðuna má sjá hér.

Stal frasanum frá Loga Pedro

Frasinn Vagg&Velta er íslensk þýðing á Rock´n Roll og sagan af því hvernig platan öðlaðist nafn er ansi skondinn.

„Ég var einhvern tímann að spila á tattúfestivali og fékk mér flúr á meðan ég var að syngja lag. Logi Pedro hafði látið flúra sig með orðunum Vagg&Velta. Mér datt ekkert í hug nema að stuða hann svo ég fékk mér sama flúr. Svo þegar ég hitti Loga fannst honum þetta svo kúl að úr varð smá crew sem hét Vagg&Velta. Út frá því skýrði ég lag Vagg&Velta og ég tók þetta eiginlega bara yfir. Ég spurði samt Loga fyrst  hvort það væri í lagi að ég kallaði plötuna þetta en honum fannst það bara kúl.“

Emmsjé Gauti segist fíla sig sem hljómsveit sem sé þó ekki hljómsveit. Hann vinnur með hinum og þessum. Til dæmis gerir Logi Pedro eitt lag á nýju plötunni. Oft þegar Gauti spilar á tónleikum eru það strákarnir úr Agent Fresco sem spila undir. Einnig er ekki óalgengt að Unnsteinn Manúel og fleiri komi fram með honum á sviði.

Á plötunni eru margir gestir en þar má nefna Unnstein Manúel, Bent, Gísla Pálma og Úlf Úlf.

„Mér líður eins og Mr. Potato Head. Ég get alltaf verið að raða nýjum hlutum á gamlan gaur. Ég vinn mest með tveimur strákum sem heita Ingi og Jói. Þeir eru ástæðan fyrir því að ég sánda eins og ég sánda. Þeir kalla sig ReddLights en heita Glacier Mafia þegar þeir eru með Gísla Pálma. Þeir hljóðblanda til dæmis allt sem ég geri.“

Hér fyrir neðan má sjá tónleikaupptöku af Emmsjé Gauta flytja lagið Djammæli ásamt liðsmönnum Agent Fresco og Unnsteini Manúel Stefánssyni.

Á tæp 10% eftir að söfnuninni

Gauti segist þegar byrjaður að leiða hugann að næstu plötu. Hann segir það mikilvægt fyrir sig að þróa sig áfram sem listamaður og helst vilji hann taka að sér verkefni sem kemur aðdáendum sínum á óvart.

„Kannski geri ég bara eitthvað sem Sinfóníusveitinni næst.“

Þegar þetta er skrifað er Gauti þegar búinn að safna 89% fyrir vínýlútgáfunni af Vagg&Veltu. Það eru sex dagar eftir og eins og alltaf virkar Karolinafund þannig að aðeins er greitt út til verkefnisins ef söfnunin nær settu marki sem að þessu sinni eru 3000 evrur. Hægt er að panta sér eintak af plötunni með því að styðja söfnunina hér.

Áhugasömum er bent á að Gauti býður meðal annars upp á einkapartý á skútu fyrir þá sem geta reitt fram litlar 466 þúsund krónur. Partýið verður takmarkað við 26 manns, boðið verður upp á veitingar og tónleika.


Tengdar fréttir

Rappið tekur yfir

Auðvelt er að færa rök fyrir því að íslenskt rapp sé á blómaskeiði. Hér er farið stuttlega yfir söguna og stöðuna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.