Bílar

Lægsta bensínverð í Bandaríkjunum í 12 ár

Finnur Thorlacius skrifar
Þeir gleðjast margir ökumennirnir vestur í Bandaríkjunum þessa dagana en bensínverð hefur ekki verið lægra þar í landi í 12 ár. Það er American Automobile Association (AAA) sem greinir frá þessu. Meðalverð bensíns í landinu er nú 2,21 dollari á hvert gallon. Það samsvarar 71,4 krónum.

Það er næstum því þrisvar sinnum lægra verð en fá má á bensínstöðvum á Íslandi í dag. Bensínverð er misjafnt milli fylkja og svæða innan Bandaríkjanna og á 25% af bensínstöðvum Bandaríkjanna er verðið undir 2 dollurum. Lægsta bensínverðið er í Suður Karolínuríki, eða 1,88 dollarar, eða 60,8 krónur. Það er vel undir þriðjungi verðsins hér á landi. Hæst er verðið í Kaliforníuríki, eða 2,85 dollarar og 2,82 á Hawaii.

Ástæða lágs verð á bensíni í Bandaríkjunum má helst skýra út með mikilli birgðasöfnun og eru birgðir nú 13% meiri en á sama tíma í fyrra. Olíuverð í heildsölu er nú um 45 dollarar á tunnu. Við því er búist að olíuverðið muni áfram haldast lágt út sumarið.

Akstur meðal Bandaríkjamanna hefur verið í hæstu hæðum í sumar vegna þessa lága verð á bensíni. Þeir sem áhyggjur hafa af útblástursmengun vegna þessa hafa bent á þá óæskilegu þróun í bílasölu undanfarið að Bandaríkjamenn hafa í meira mæli sótt í eyðslufreka bíla, ekki síst stóra pallbíla og jeppa. Á meðan hafa umhverfisvænir bílar, svo sem rafmagnsbílar og tvinnbílar ekki selst vel.






×