Bílar

Hyundai/Kia framúr Lada í sölu bíla í Rússlandi

Finnur Thorlacius skrifar
Hyundai bíll í Rússlandi.
Hyundai bíll í Rússlandi.
AvtoVAZ bílasmiðurinn rússneski sem framleiðir Lada bíla hefur löngum verið söluhæsti bílaframleiðandi í Rússlandi. Nú er þó svo komið að S-kóreski bílaframleiðandinn Hyundai, sem einnig á stóran hlut í Kia, hefur tekið framúr AvtoVAZ sem sá söluhæsti. Á fyrstu 5 mánuðum þessa árs hefur Hyundai og Kia selt samtals 109.319 bíla en AvtoVAZ 102.124.

Sala bíla er reyndar mjög dræm í Rússlandi og hefur minnkað um helming frá árinu 2012. Á fyrstu 5 mánuðunum hefur bílasala fallið um 15% frá fyrra ári. Kia er söluhærra merki en Hyundai í Rússlandi nú og seldi Kia 56.986 bíla á þessum 5 mánuðum, en Hyundai 52.333. Í fyrra minnkaði bílasala í Rússlandi um 36% en sala Hyundai og Kia minnkaði aðeins um 10% og 16%.

Tvöfaldað markaðshlutdeild frá 2012

Hefur markaðshlutdeild þeirra tvöfaldast frá árinu 2012 og er nú um 20% í Rússlandi. Renault á stóran hlut í AvtoVAZ og fjárfesti fyrir 125 milljarða í fyrirtækinu árið 2008 og ætlaði með því að gera það sama með AvtoVAZ og því hefur lukkast svo vel með Dacia merkið í Rúmeníu.

Það hefur hinsvegar ekki gengið eftir og hefur Renault niðurskrifað þessa fjárfestingu sína um 70%. Hyundai og Kia ætla að halda áfram að kynna nýja bíla í Rússlandi og auka markaðshlutdeild sína meira þar og í leiðinni að undirbúa jarðveginn ef ske kynni að bílasala þar í landi færi að braggast aftur.

Nýta sér niðursveiflu

Þetta yrði ekki fyrsta skipti sem Hyundai og Kia hafi nýtt sér að auka markaðshlutdeild sína á mörkuðum sem eru í niðursveiflu en það gerðu fyrirtækin einmitt þegar bílasala í Bandaríkjunum var í mikilli lægð eftir efnahagshrunið árið 2008 og á næstu árum jókst mjög markaðshlutdeild þeirra verulega vestra.

Hyundai og Kia hefur tekist að halda verði á bílum sínum lágu í Rússlandi og hefur starfað með innlendum framleiðendum við framleiðslu íhluta á bílum þar. Á meðan hefur Volkswagen flutt inn dýrari íhluti frá heimamarkaði og því neyðst til að hækka verð á bílum sínum meira en hjá Hyundai og Kia. 






×