Bakþankar

Innganga og útganga

Jóna Hrönn Bolladóttir skrifar
Ekkert jafnast á við undrið þegar barn fæðist. Í síðustu viku tók ég mér nokkurra daga sumarfrí til að heilsa dótturdóttur minni sem kom í heiminn dökkhærð og undurfríð.

Eitt af því sem ég er þakklátust fyrir í prestsstarfinu er að fá að vera með fólki þegar barn fæðist inn í heiminn og eins þegar ástvinur kveður. Ég var að hugsa það þessa viku sem ég var heima í fríi að það er margt líkt með heimili þar sem nýjum einstaklingi er heilsað og þar sem ástvinur hefur kvatt. Í báðum tilvikum vilja fjölskyldur og vinir vitja heimilisins og veita nærveru. Og það er drukkið kaffi og bornar fram veitingar, fólk færir blóm og gjafir og það eru rifjaðar upp minningar, hlegið og grátið. Og spurningin sem allir spyrja foreldra hins nýfædda eða nánasta ástvin hins látna er sú sama: Hvernig var nóttin? Gastu sofið? Náðir þú hvíld? Eins er minnt á aðrar grunnþarfir svo sem hreyfingu og góða næringu. Helst alltaf er svo einhver „á bak við eldavélina“ eins og eitt sinn var sagt og það er nú e.t.v. persónan sem gerir mesta gagnið.

Þegar lífi er heilsað og þegar líf er kvatt verður heimilið heilagt. Hvað þýðir það? Það merkir að heimilið er frátekið fyrir gleðina eða sorgina. Setningin sem borin er fram við hverja barnsskírn hefur vitjað mín með nýjum hætti þessa daga: „Drottinn varðveiti inngöngu þína og útgöngu héðan í frá og að eilífu.“

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. júní






×