Bílar

Sá ódrepandi enn betri

Finnur Thorlacius skrifar
Hiluxinn að glíma við háar sandöldurnar í Namibíu.
Hiluxinn að glíma við háar sandöldurnar í Namibíu.
Reynsluakstur – Toyota Hilux



Það er ekki á hverjum degi sem bílablaðamenn eru boðaðir í reynsluakstur í Afríku en það átti við reynsluakstur nýrrar kynslóðar pallbílsins Toyota Hilux. Hann fór fram í Namibíu sem er land er liggur að Atlantshafinu og á landamæri að S-Afríku í suðri. Staðsetning prófunarinnar í Namibíu á að hluta til skýringu í því að bíllinn er framleiddur í Durban í nágrannaríkinu S-Afríku og það fyrir bæði Evrópumarkað og Afríku.

Að auki er Namibía alveg kjörið land til að prófa bíl eins og Hilux sem fær er um að glíma við þetta hrjóstruga og víða fjalllenda land. Það er talsvert ferðalag til Namibíu og tók það 28 klukkustundir frá Keflavík til Windhoek, höfuðborgar landsins, þar sem ævintýrið við prófanir hans hófst.

18 milljón eintök Hilux

Toyota Hilux hefur verið framleiddur frá árinu 1968 og á því stutt í fimmtugt. Þessi harðjaxl, sem ekki einu sinni Top Gear menn náðu að eyðileggja þrátt fyrir mikinn vilja, hefur verið framleiddur í 18 milljón eintökum frá upphafi og á það satt að segja við afar fáar bílgerðir og sýnir hversu vinsæll þessi bíll er um allan heim. Enda hefur hann ávallt verið talinn til allra duglegustu bíla og getur glímt við erfiðar aðstæður sem eru sannarlega víðar að finna en á Íslandi.

Hilux er að sjálfsögðu langsöluhæsti pallbíll í Evrópu og á það líka við um Ísland. Alls hafa 815.000 Hilux bílar verið seldir í álfunni frá upphafi. Greinarritari hafði fyrir tveimur árum notið þess að reynsluaka fyrri kynslóð Hilux yfir Sprengisand og þar sannaðist hversu frábær ferðafélagi þessi bíll er og hæfur á erfiðari leiðum. Því var spenningurinn mikill að sjá hvort Toyota gæti gert enn betur og víst er að það gerðu þeir einmitt með nýrri kynslóð.

Hreint ótrúleg geta í torfærum

Það kom oft fyrir í reynsluakstrinum í Namibíu að undirritaður hafði enga trú á því að bíllinn kæmist yfir hindranirnar sem framundan voru. Ávallt þurfti þó að endurskoða afstöðu sína því alltaf kraflaði Hiluxinn sig úr vandræðunum og stórkostlegum ófærunum. Sjaldan hefur sá sem þetta ritar verið eins hissa á getu bíls og oft áhyggjum hlaðinn af því að skemma hann en aldrei sá þó á þessum harðduglega þjarki. En talandi um þjark þá er aldeilis ekki svo að neinn hráan og grófgerðan bíl í útliti sé að ræða.

Hann er orðinn svo flottur að innan að enginn eftirbátur telst annarra “fínni” Toyota bíla sem ætlaðir eru við betri aðstæður. Því má segja að bíllinn sé eins og kamelljón, í sparifötunum á malbikinu en breytist í villidýr þegar færðin spillist. Jafnvígur á fjallaklifur, sandöldur og sléttlendiðÞá má víst telja að aldrei hefur undirritaður ekið eins mikið og oft á lága drifinu sem bíllinn áfram skartar, sem og með læst drifið. Veitti nú heldur ekki af við klifur upp allt að 2.000 metra há fjöllin í Namibíu. Hugsanlega tók þó öllu öðru fram að kynnast getu bílsins í stórvöxnum sandöldum Namibíu en þær eru ansi gljúpar og erfiðar yfirferðar vegna bratta. Þar var bíllinn í essinu sínu, líkt og með harðara undirlag undir fótum í fjallaklifrinu.

Á lengri leiðum á góðum malarvegum landsins sigldi svo Hiluxinn tignarlega á 140 km hraða löngum stundum og var fögur sýn að líta bílalestina fara á milli staða á mettíma. Margur bíleigandinn, ekki síst á Íslandi, hlýtur að vera guðslifandi feginn að enn fáist bílar byggðir á grind og á það blessunarlega við Hilux, sem og bróður hans Land Cruiser, en sífellt fækkandi aðra jeppa og pallbíla. Toyota er því trútt upprunanum og velur að útfæra bílinn áfram eins hæfan til utanvegaaksturs sem fyrr, en bara aðeins betri nú. Hann getur nú að auki togað allt að 3,5 tonna aftanívagn.

Harðdugleg en eyðslugrönn dísilvél

Hilux er með 2,4 lítra dísilvél með forþjöppu, 150 hestöfl og tengd við 6 gíra beinskiptingu eða 6 gíra sjálfskiptingu. Þar fer harðdugleg vél sem togar 4.000 Nm en eyðir aðeins 6,4 lítrum í blönduðum akstri, en í líflegum reynsluakstrinum var bíllinn oftast með ríflega 7 lítra eyðslu. Eyðsla bílsins hefur lækkað um 9% á milli kynslóða. Hilux er nú 20% stífari og með 20% meiri hreyfigetu hjóla og þess hæfari til utanvegaaksturs.

Toyota hefur lagt mikið uppúr hljóðeinangrun hans og mikil bragabót þar á. Þessi áttunda kynslóð hins ódrepandi bíls Hilux skilur alla ökumenn eftir með frosið bros á vörunum, hann einfaldlega getur allt og mikil leit er að annarri eins upplifun við akstur. Undirritaður hefur aldrei verið mikill aðdáandi pallbíla, en verður nú að endurskoða afstöðu sína.

Kostir: Akstursgeta og styrkur, eyðsla, útlit

Ókostir: Engin lúxusbílainnrétting en ekki þannig hugsaður

2,4 l. dísilvél með forþjöppu, 150 hestöfl

Fjórhjóladrif

Eyðsla: 6,4 l./100 km í bl. akstri

Mengun: 185 g/km CO2

Hröðun: 13,2 sek.

Hámarkshraði: 170 km/klst

Verð frá: 5.870.000 kr.

Umboð: Toyota á Íslandi

Bílarnir tandurhreinir að morgni dags og tilbúnir í átökin við erfiða vegi Namibíu.
Drullugir upp fyrir topp eftir akstur dagsins.
Á leið niður eina snarbratta sandölduna. Þarna fengu sumir í magann.
Stund á milli stríða á langri leið reynsluakstursmanna.
Morgunn í Namibíu og ævintýrin bíða.





×