Menning

Vildi ögra mér, leiða verkin áfram og taka áhættu

Magnús Guðmundsson skrifar
Hulda Stefánsdóttir myndlistarkona á sýningu sinni Færslu í BERG Contemporary við Klapparstíg.
Hulda Stefánsdóttir myndlistarkona á sýningu sinni Færslu í BERG Contemporary við Klapparstíg. Visir/Anton Brink
Ferðalagi um myndheim Huldu Stefánsdóttur verður kannski helst lýst sem varfærnislegum rannsóknarleiðangri. En síðastliðinn laugardag var opnuð sýning á verkum Huldu í BERG Contemporary við Klapparstíg sem er ekki laust við að boði ákveðin tímamót í verkum og á ferli Huldu. Sýning Huldu er hluti af Listahátíðinni í Reykjavík.

Sterkar raddir

Þegar náðist í Huldu var hún í óðaönn að undirbúa næstu opnun sem er samsýning í Hafnarborg og það sætir nú óneitanlega tíðindum að myndlistarmaður taki þátt í tveimur opnunum á innan við viku.

„Það er ýmist í ökkla eða eyra en þetta bara raðaðist svona. Það getur sitthvað gerst í þessum bransa,“ segir Hulda og hlær bara að þessu. „En í BERG er ég að sýna verk þar sem þessi tvö elstu eru frá 2013 og 2014. Sýningin kallast Færsla sem felur kannski í sér að maður er alltaf að reyna að leiða verkin sín áfram, brjóta upp og bregðast við einhverju sem maður hefur áður gert. En þetta er frekar afgerandi tilraun þar sem ég hef áður verið að vinna með verk í klösum sem mynda eina heild sem innsetning í sýningarrými en nú er ég að láta reyna á stök verk og stærri. Það verður óneitanlega öðruvísi samtal sem myndast í rýminu við þessa breytingu og það gerist í þessu ferli. Smám saman áttar maður sig á því að þessi breyting er að eiga sér stað. Ég var til að mynda með önnur minni verk sem ég ætlaði að hafa á sýningunni en svo er það bara í ferlinu þegar ég er að hengja upp að ég átta mig á því að það þurfti ekkert meira. Þarna var ég kominn með sterkar raddir og þær þurftu að fá að njóta sín.“

Málverk og sagan

Það er óneitanlega ákveðin breyting á verkum Huldu sem þarna hefur átt sér stað og hún telur að skýringin sé í raun einföld. „Ég er bara alltaf að sökkva mér dýpra og dýpra í málverkið. Ég kem úr málverki, lærði í málaradeild Mynd- og hand og fer svo út til New York í School of Visual Arts og lauk meistaragráðu þar í myndlist. Í NY fór ég að gera tilraunir með önnur form, ljósmyndir og vídeó, en einhvern veginn alltaf með tilvísun í möguleika málverksins. En ég finn það núna að ég vil halda áfram inn í málverkið sjálft.

Áður má segja að ég hafi oft leitast við að leysa upp myndfletina og fá þá til að renna saman við sýningarrýmið en hér á sér stað ákveðin hleðsla. Verkin eru unnin í hægu ferli og myndflöturinn byggður upp í hálfgegnsæjum lögum. Ég velti fyrir mér þessu samtali sem við eigum stöðugt í við söguna, hvernig upplifun okkar hér og nú getur ekki verið annað en viðbragð við fyrri upplifunum, minningum og reynslu. Líka það hvernig við erum alltaf að horfa á málverkasöguna þegar við horfum á tiltekið málverk. Það á sér m.ö.o. stað ákveðin yfirfærsla. Vinnutitill sýningarinnar var sem sagt: Sagan í núinu, svo ég ljóstri upp um það. En þetta voru rosalega þung og hlaðin orð sem fóru hálfpartinn að þvælast fyrir mér í vinnsluferlinu. Færsla felur í sér meiri léttleika og leik sem lýsir betur því sem ég var leita eftir.“

Tímamót

Hulda segir að hún líti á þessa sýningu sem tímamót á ferli sínum. „Þegar mér bauðst þetta tækifæri til að ganga til liðs við BERG Contemporary fyrir um einu og hálfu ári var það tækifæri sem ég vildi fylgja eftir með afgerandi hætti. Það hafði eflaust líka áhrif að þessi sýning var búin að gerjast með mér lengi og ég fann að það var kominn tími til þess að ögra sjálfri mér á nýjan hátt, leiða verkin áfram og taka áhættu. Ég er búin að vera prófessor í Listaháskólanum undanfarin átta ár og því er tímabili ráðningarfestu minnar að ljúka þannig að þetta eru tímamót. Það er frábærlega spennandi að fá tækifæri til þess að einbeita sér af fullum krafti að heimi myndsköpunar.“

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 24. maí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.