Sport

Fimm fimleikakonur, þrír þjálfarar og tveir dómarar til Sviss

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kvennalandsliðið í fimleikum.
Kvennalandsliðið í fimleikum. Mynd/Fimleikasamband Íslands
Það verður flottur hópur frá Fimleikasambandi Íslands á Evrópumótinu í áhaldafimleikum kvenna sem fram fer í Bern í Sviss 29. maí til 3. júní næstkomandi.

Tíu manns frá Íslandi taka þátt í Evrópumótinu að þessu sinni, fimm fimleikakonur, þrír þjálfarar og tveir dómarar. Ármann og Björk eiga bæði tvo keppendur að þessu sinni.

Landsliðsþjálfarar hefur valið landsliðið og það skipa þær Agnes Suto (Gerplu), Dominiqua Alma Belányi (Ármanni), Irina Sazonova (Ármanni), Sigríður Hrönn Bergþórsdóttir (Björk) og Tinna Óðinsdóttir (Björk).

Íslenska kvennalandsliðið vann gull í liðakeppni á Norðurlandamótinu í dögunum en það fór fram á Íslandi að þessu sinni. Íslenski hópurinn á Norðurlandamótinu var einmitt skipaður þeim sömu og keppa á EM.

Irina Sazonova tryggði sér farseðilinn á Ólympíuleikana í Ríó á dögunum og vann auk þess gull á tvíslá og silfur í stökki. Dominiqua Alma vann silfur á tvíslá á NM og Tinna Óðinsdóttir (silfur) og Sigríður Hrönn Bergþórsdóttir (brons) unnu bæði verðlaun á gólfi.  

Agnes Suto varð efst íslensku stúlknanna á NM og náði þriðja sætinu í fjölþraut sem er frábær árangur hjá henni en hún tók bolinn úr hillunni í haust eftir að hafa hætt keppni í tvö ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×