Tónlist

Síðasta andvarp Risaeðlunnar?

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Hljómsveitin Risaeðlan mun syngja sitt síðasta í Gamla bíói í kvöld.
Hljómsveitin Risaeðlan mun syngja sitt síðasta í Gamla bíói í kvöld. Vísir/Ernir
„Við héldum tónleika síðast 1996, þannig að það eru 20 ár síðan. Þetta er gleðileg upprifjun og endanleg jarðarför. Þetta er síðasta andvarpið. Þetta verður ekkert rosalega andvarpslegt – risaeðlur eru svo stórar að þegar þær andvarpa springur þakið af húsinu,“ segir Margrét Kristín Blöndal, eða Magga Stína, um endurkomutónleika Risaeðlunnar sem jafnframt munu verða þeir síðustu hjá sveitinni."

Risaeðlan goðsagnakennda er hljómsveit sem var stofnuð 1984 og var eins og margar aðrar hljómsveitir menntaskólaflipp til að byrja með sem svo þróaðist út í eitthvað miklu stærra. Sveitin gaf út sína fyrstu plötu sumarið 1989 á vegum Smekkleysu. Þetta var tólf tommu smáskífa sem kom meðal annars út í Bretlandi og fékk þar góðar viðtökur. Sveitin túraði um Bandaríkin ásamt Bless og Ham sem hluti af útrás Smekkleysu, Heimsyfirráð eða dauði, gaf út breiðskífuna Fame and Fossils og hætti nokkru síðar. Sveitin gaf síðan óvænt úr plötuna Efta! eftir að hafa verið talin af.

Í sveitinni hafa orðið nokkrar mannabreytingar í gegnum árin og hún hefur lagst í dvala og vaknað aftur oftar en einu sinni. Skipan hljómsveitarinnar eins og hún mun koma fram í kvöld er sú að þarna verður Halldóra Geirharðsdóttir að blása í saxófón og þenja söngröddina, Magga Stína mundar fiðluna og syngur líka, Ívar Bongó Ragnarsson plokkar bassann, Sigurður Guðmundsson verður á gítar og Þórarinn Kristjánsson lemur á trommur. En af hverju skyldi Risaeðlan kjósa að halda jarðarför sína akkúrat núna?

„Þetta er af því að við vorum vakin upp á hátíðinni Aldrei fór ég suður á Ísafirði um páskana og við vildum þá líka, svona úr því að við vorum vöknuð, spila í Reykjavík fyrir vini og vandamenn og alla þá sem heyra vilja – það hafa margir komið að máli við okkur. Það má eiga von á því að það verði einhver tryllingur í loftinu, án þess að maður ætli að vera með einhverjar yfirlýsingar.

Við verðum þarna með tveimur öðrum hljómsveitum, ungum hljómsveitum, sem okkur finnst frábært. Þetta er Hórmónar – hljómsveit sem vann Músíktilraunir og hljómsveitin RuGL – sem er dúett skipaður tveimur stelpum úr Hagaskóla og þær tóku líka þátt í Músíktilraunum. Okkur finnst það vera í anda Risaeðlunnar, af því að það eru stelpur í báðum hljómsveitunum; án þess að það sé fréttnæmt í dag að stelpur séu í hljómsveitum þá var það sannarlega þegar við vorum að stíga okkar fyrstu skref. Við gleðjumst yfir því að stelpur séu komnar á þann stað að þær hiki ekki þegar þær vilja stofna hljómsveit. Síðan eru þetta líka krakkar sem stofnuðu hljómsveitir án þess að kunna mikið á hljóðfærin og það er líka mikið í anda Risaeðlunnar, svona spontaníet – í anda orðsnillingsins sem sagði „að gera en ekki geta“. Okkur er heiður að því að spila með þessum tveimur hljómsveitum,“ segir Magga Stína. Með hliðsjón af sögu Risaeðlunnar verður fróðlegt að sjá hvort hér sé um eiginlega jarðarför að ræða eða hvort sveitin muni vakna af dvala á ný í framtíðinni og gefa óvænt út plötu."

Tónleikarnir eru í kvöld í Gamla bíói og hefjast klukkan 21. Miðasala fer fram á tix.is og hjá Gamla bíói í síma 563-4000.

Fréttin birtist í Fréttablaðinu 19. maí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.