Facebook-firring Þórlindur Kjartansson skrifar 6. maí 2016 07:00 Hvað var eiginlega í gangi hjá Guðmundi Runólfssyni frá Hlíðarhúsum þann 19. apríl 1894? Þótt ótrúlegt megi virðast þá má slá því föstu að hann hafi verið í ruglinu. Fyrir rúmum 120 árum, þann 1. maí 1894, birtist nefnilega í fjölmiðli á Íslandi eftirfarandi tilkynning frá honum: „Jeg undirskrifaður lýsi því hjer með yfir, að öll þau ósæmilegu orð, sem jeg kann í ölæði að hafa talað við herra Jónas Gottsveinsson, á heimili hans Görðunum, 19. f. m. þ. á., skulu hjer með apturkölluð og sem dauð og ómerk álítast.“ Hinn stórgóði vefur Lemúrinn (lemurinn.is) birti þessa og nokkrar aðrar sambærilegar tilkynningar í grein á síðasta ári og vöktu þær mikla lukku víða í netheimum.Fyllerísröfl Margir geta sett sig í spor þeirra Guðmundar og Jónasar. Þeir hafa setið að sumbli frameftir kvöldi og nóttu. Samræðurnar urðu stöðugt gáfulegri. Sannfæringin styrktist með hverjum sopa og fyrr en varði er meira og minna öll heimsbyggðin, fyrir utan þá tvo, algjörir bjánar. Að lokum er bara einn maður eftir með viti. Daginn eftir þarf svo að raða saman brotunum. Það gengur erfiðlega. Jónas virðist reka minni til þess að Guðmundur hafi sagt eitthvað um einhvern og nú er Guðmundur í vandræðum af því Jónas gat ekki haldið sér saman um trúnaðartal þeirra. Vandræðin eru slík að Guðmundur neyðist til þess að taka út auglýsingu með hálfgildingsafsökunarbeiðni – því sjálfan brestur hann minni til þess að vita nákvæmlega á hverju hann er að biðjast afsökunar. Til að koma í veg fyrir allan vafa afturkallar hann allt það sem hann „kann í ölæði að hafa talað“. Málið afgreitt. Mörg okkar hafa vafalítið umtalsverða samúð með þeim sem neyðst hafa út í slíkar afsökunarbeiðnir. Allir hafa sagt og gert hluti sem þeir sjá eftir. Það vill ekki síst brenna við ef Bakkus er með í för, því þá losnar um ýmsar af þeim hömlum sem að jafnaði eru nauðsynlegar í sæmilega siðuðu samfélagi. Og þótt það sé almennt ekki viðurkennt að ölvun firri menn ábyrgð á gjörðum sínum þá höfum við tilhneigingu til þess að sýna mistökum og dómgreindarbresti meiri skilning ef um ölvun var að ræða. Annars hefði Guðmundur Runólfsson alveg eins getað sleppt því að greina frá því að hin ósæmilegu orð hafi verið látin falla „í ölæði“.Annar eða innri maður Þegar fólk hegðar sér ósæmilega undir áhrifum áfengis vaknar gjarnan spurningin um hvor staðhæfingin sé sönn: „öl er annar maður“ eða „öl er innri maður“. Fyrir þann sem skandalíserar er auðvitað þægilegra að skrifa óskundann alfarið á brennivínið en sá grunur læðist líklega að flestum að eitthvað sé líka til í hinni staðhæfingunni. Sennilegast er þó að hvort tveggja sé satt. Öl er bæði innri og annar maður. Fullþroskað fólk heldur dýpstu hvötum sínum stöðugt í skefjum til þess að geta tekið þátt í samfélaginu. Það er einmitt einn helsti tilgangurinn með hinum ofurþróaða mannsheila, að gera okkur kleift að hegða okkur ekki bara í samræmi við frumþarfir okkar og hvatir, heldur að beita dómgreind og aga til þess að taka betri og skynsamlegri ákvarðanir heldur en gerist og gengur í dýraríkinu. En stundum afhjúpum við okkur eins og hann Guðmundur blessaður í partíinu þann 19. apríl 1894. Í hans tilviki gat hann kennt áfengisneyslunni um að hafa hent dómgreind sinni, sómakennd og sjálfsvirðingu út um gluggann. En það þarf ekki alltaf áfengi til. Nú til dags má segja að það sé stöðugt í gangi stjórnlaust fyllerí á Facebook, þar sem bláedrú fólk lætur gamminn geisa um menn og málefni án þess að hirða nokkurn skapaðan hlut um sjálfsvirðingu eða sómakennd. Facebook – eins og brennivínið – togar jafnvel hina mestu andans jöfra ofaní dýpstu forarpytti. Rétt eins og í súru eftirpartíi þá hljómar allt sem maður sjálfur segir svo gáfulega að fljótlega hættir maður að nenna að hlusta á það sem hinir eru að segja. Algjörlega án aðstoðar áfengis er maður kominn í nákvæmlega sama ástand og Guðmundur Runólfsson og hvert „like“ er eins og hressandi sopi af sterku.Facebook-fyllerí Rétt eins og samfélagið hefur almennt umtalsverða þolinmæði gagnvart þrugli sem fólk lætur út úr sér á fylleríi, þá er kannski kominn tími til þess að það sé almennt viðurkennt að notkun samfélagsmiðla hafi sambærileg áhrif og brennivínið. Oftast má láta það kyrrt liggja þótt menn fari yfir sitt venjulega strik, en það gætu þó farið að koma upp tilvik þar sem rétt væri að setja í statusinn sinn á Facebook: „Þau orð sem ég viðhafði um hina ýmsu menn í Facebook-firringu, aðfaranótt 5. maí sl. skulu hér með afturkölluð og sem dauð og ómerk álítast.“ Og fyrir þá sem fara einum of oft yfir strikið gæti tilkynning Jóns Þorlákssonar frá Melgerði í Eyjafirði frá 1866 orðið innblástur: „Jeg hefi hingað til verið nokkuð hneigður fyrir ölföng eins og þeim er kunnugt sem þekkja mig, en nú lýsi ég því yfir fyrir öllum að ég geng í bindindi upp frá þessu og afneita öllum áfengum drykk hverju nafni sem nefnist?…“ Líklega hefðu ýmsir, sem fara yfir strikið á Facebook, gott af því að senda frá sér eitthvað sambærilegt. „Ég hef hingað til átt örðugt með að hemja skap mitt, dómhörku og ofsa á samfélagsmiðlum, eins og þeir sem mig þekkja vita. Mun ég því frá deginum í dag afneita mér um öll skrif á Facebook, og hlýða frekar á lækjarniðinn heldur en á like-kliðinn.“ Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Birtist í Fréttablaðinu Þórlindur Kjartansson Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Svartir föstudagar í boði íslenskra stjórnvalda Haukur Guðmundsson Skoðun
Hvað var eiginlega í gangi hjá Guðmundi Runólfssyni frá Hlíðarhúsum þann 19. apríl 1894? Þótt ótrúlegt megi virðast þá má slá því föstu að hann hafi verið í ruglinu. Fyrir rúmum 120 árum, þann 1. maí 1894, birtist nefnilega í fjölmiðli á Íslandi eftirfarandi tilkynning frá honum: „Jeg undirskrifaður lýsi því hjer með yfir, að öll þau ósæmilegu orð, sem jeg kann í ölæði að hafa talað við herra Jónas Gottsveinsson, á heimili hans Görðunum, 19. f. m. þ. á., skulu hjer með apturkölluð og sem dauð og ómerk álítast.“ Hinn stórgóði vefur Lemúrinn (lemurinn.is) birti þessa og nokkrar aðrar sambærilegar tilkynningar í grein á síðasta ári og vöktu þær mikla lukku víða í netheimum.Fyllerísröfl Margir geta sett sig í spor þeirra Guðmundar og Jónasar. Þeir hafa setið að sumbli frameftir kvöldi og nóttu. Samræðurnar urðu stöðugt gáfulegri. Sannfæringin styrktist með hverjum sopa og fyrr en varði er meira og minna öll heimsbyggðin, fyrir utan þá tvo, algjörir bjánar. Að lokum er bara einn maður eftir með viti. Daginn eftir þarf svo að raða saman brotunum. Það gengur erfiðlega. Jónas virðist reka minni til þess að Guðmundur hafi sagt eitthvað um einhvern og nú er Guðmundur í vandræðum af því Jónas gat ekki haldið sér saman um trúnaðartal þeirra. Vandræðin eru slík að Guðmundur neyðist til þess að taka út auglýsingu með hálfgildingsafsökunarbeiðni – því sjálfan brestur hann minni til þess að vita nákvæmlega á hverju hann er að biðjast afsökunar. Til að koma í veg fyrir allan vafa afturkallar hann allt það sem hann „kann í ölæði að hafa talað“. Málið afgreitt. Mörg okkar hafa vafalítið umtalsverða samúð með þeim sem neyðst hafa út í slíkar afsökunarbeiðnir. Allir hafa sagt og gert hluti sem þeir sjá eftir. Það vill ekki síst brenna við ef Bakkus er með í för, því þá losnar um ýmsar af þeim hömlum sem að jafnaði eru nauðsynlegar í sæmilega siðuðu samfélagi. Og þótt það sé almennt ekki viðurkennt að ölvun firri menn ábyrgð á gjörðum sínum þá höfum við tilhneigingu til þess að sýna mistökum og dómgreindarbresti meiri skilning ef um ölvun var að ræða. Annars hefði Guðmundur Runólfsson alveg eins getað sleppt því að greina frá því að hin ósæmilegu orð hafi verið látin falla „í ölæði“.Annar eða innri maður Þegar fólk hegðar sér ósæmilega undir áhrifum áfengis vaknar gjarnan spurningin um hvor staðhæfingin sé sönn: „öl er annar maður“ eða „öl er innri maður“. Fyrir þann sem skandalíserar er auðvitað þægilegra að skrifa óskundann alfarið á brennivínið en sá grunur læðist líklega að flestum að eitthvað sé líka til í hinni staðhæfingunni. Sennilegast er þó að hvort tveggja sé satt. Öl er bæði innri og annar maður. Fullþroskað fólk heldur dýpstu hvötum sínum stöðugt í skefjum til þess að geta tekið þátt í samfélaginu. Það er einmitt einn helsti tilgangurinn með hinum ofurþróaða mannsheila, að gera okkur kleift að hegða okkur ekki bara í samræmi við frumþarfir okkar og hvatir, heldur að beita dómgreind og aga til þess að taka betri og skynsamlegri ákvarðanir heldur en gerist og gengur í dýraríkinu. En stundum afhjúpum við okkur eins og hann Guðmundur blessaður í partíinu þann 19. apríl 1894. Í hans tilviki gat hann kennt áfengisneyslunni um að hafa hent dómgreind sinni, sómakennd og sjálfsvirðingu út um gluggann. En það þarf ekki alltaf áfengi til. Nú til dags má segja að það sé stöðugt í gangi stjórnlaust fyllerí á Facebook, þar sem bláedrú fólk lætur gamminn geisa um menn og málefni án þess að hirða nokkurn skapaðan hlut um sjálfsvirðingu eða sómakennd. Facebook – eins og brennivínið – togar jafnvel hina mestu andans jöfra ofaní dýpstu forarpytti. Rétt eins og í súru eftirpartíi þá hljómar allt sem maður sjálfur segir svo gáfulega að fljótlega hættir maður að nenna að hlusta á það sem hinir eru að segja. Algjörlega án aðstoðar áfengis er maður kominn í nákvæmlega sama ástand og Guðmundur Runólfsson og hvert „like“ er eins og hressandi sopi af sterku.Facebook-fyllerí Rétt eins og samfélagið hefur almennt umtalsverða þolinmæði gagnvart þrugli sem fólk lætur út úr sér á fylleríi, þá er kannski kominn tími til þess að það sé almennt viðurkennt að notkun samfélagsmiðla hafi sambærileg áhrif og brennivínið. Oftast má láta það kyrrt liggja þótt menn fari yfir sitt venjulega strik, en það gætu þó farið að koma upp tilvik þar sem rétt væri að setja í statusinn sinn á Facebook: „Þau orð sem ég viðhafði um hina ýmsu menn í Facebook-firringu, aðfaranótt 5. maí sl. skulu hér með afturkölluð og sem dauð og ómerk álítast.“ Og fyrir þá sem fara einum of oft yfir strikið gæti tilkynning Jóns Þorlákssonar frá Melgerði í Eyjafirði frá 1866 orðið innblástur: „Jeg hefi hingað til verið nokkuð hneigður fyrir ölföng eins og þeim er kunnugt sem þekkja mig, en nú lýsi ég því yfir fyrir öllum að ég geng í bindindi upp frá þessu og afneita öllum áfengum drykk hverju nafni sem nefnist?…“ Líklega hefðu ýmsir, sem fara yfir strikið á Facebook, gott af því að senda frá sér eitthvað sambærilegt. „Ég hef hingað til átt örðugt með að hemja skap mitt, dómhörku og ofsa á samfélagsmiðlum, eins og þeir sem mig þekkja vita. Mun ég því frá deginum í dag afneita mér um öll skrif á Facebook, og hlýða frekar á lækjarniðinn heldur en á like-kliðinn.“