Tónlist

Koma fram á stærstu metal-hátíð í heimi

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Hjalti Sveinsson, Andri Björn Birgisson og Aðalsteinn Magnússon, liðsmenn hljómsveitarinnar Auðnar, sem kemur fram á Wacken Open Air hátíðinni í sumar.
Hjalti Sveinsson, Andri Björn Birgisson og Aðalsteinn Magnússon, liðsmenn hljómsveitarinnar Auðnar, sem kemur fram á Wacken Open Air hátíðinni í sumar. Vísir/Anton Brink
„Ég er bara hæstánægður,“ segir Aðalsteinn Magnússon, gítarleikari sveitarinnar Auðnar, um viðbrögð sín við þessum stóra sigri. Þetta var í sjöunda sinn sem keppnin Wacken Metal Battle er haldin hér á landi en hún hefur verið haldin allt frá árinu 2009. Alls tóku sex bönd þátt þetta árið auk þess sem Dimma og In the Company of Men, sem sigraði í fyrra, tróðu upp sem gestahljómsveitir.

Keppnin er haldin um nánast allan heim, eða í um 40 löndum, og í henni er barist um tækifæri til að fá að spila á Wacken Open Air hátíðinni auk stúdíótíma og peningaverðlauna. Á þessari samkomu er þungmálmi gert hátt undir höfði og eru herlegheitin haldin í smábænum Wacken í Þýskalandi í ágúst ár hvert og hefur svo verið síðan 1990. Þangað flykkjast um 80.000 gestir árlega auk þess sem þar koma fram allar helstu metalsveitir heimsins, en í ár eru t.d. staðfest böndin Iron Maiden og Twisted Sister – en líklegt er að fleiri sveitir verði tilkynntar þegar nær dregur hátíðahöldunum.

„Þetta er stærsta metalhátíðin í heiminum, þannig að þetta er svaka „exposure“ fyrir lítið band, fyrst og fremst er þetta aðgangur að erlendum blaðamönnum, prómóterum og útsendurum erlendra plötufyrirtækja,“ útskýrir Aðalsteinn. Það er ljóst að þessi samkunda er gríðarlega mikilvæg metal-senunni og gæti hæglega orðið skotpallur fyrir metnaðarfulla íslenska hljómsveit að taka þátt í svona stórum viðburði. „Við nennum ekkert að spila endalaust á Íslandi,“ segir Aðalsteinn hlæjandi og það er augljóst að Auðn ætlar sér að nýta þetta stóra tækifæri til fulls.

Auðn hefur verið starfandi síðan 2010 og spilar sveitin melódískan black metal. Hljómsveitin er skipuð þeim Aðalsteini Magnússyni og Andra Birni Birgissyni sem báðir spila á gítar, Hjalta Sveinssyni söngvara, Hjálmari Gylfasyni á bassa og Sigurði Kjartani Pálssyni sem ber trommur. Auðn gaf út plötuna Auðn árið 2014 og hægt er að kaupa og streyma henni á Bandcamp-síðu sveitarinnar. Platan hefur fengið afar góðar viðtökur.

„Við erum á fullu að semja efni fyrir næstu plötu og við stefnum á að gefa hana út á þessu ári. En annars er allt brjálað að gera hjá okkur, við verðum að spila á Eistnaflugi í sumar, komum fram í London 20. maí og verðum svo á Blastfest í Noregi í febrúar.“

Í London koma þeir fram á sérstöku kynningarkvöldi í tengslum við Eistnaflug ásamt hljómsveitunum Zhrine og Severed. Það er því ljóst að næstu misseri verða ákaflega spennandi hjá Auðn og verður fróðlegt að fylgjast með því hvað gerist í framhaldinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.