Gagnrýni

Átakalítil harmsaga

Sigríður Jónsdóttir skrifar
Jenný Lára Arnórsdóttir og Jóel Sæmundsson höfundar og leikendur í verkinu Djúp spor.
Jenný Lára Arnórsdóttir og Jóel Sæmundsson höfundar og leikendur í verkinu Djúp spor.
Leikhús

Djúp spor

Tjarnarbíó

Artik

Höfundar: Jenný Lára Arnórsdóttir og Jóel Sæmundsson

Leikstjóri: Bjartmar Þórðarson

Leikarar: Jenný Lára Arnórsdóttir og Jóel Sæmundsson

Ljósahönnun: Arnar Ingvarsson

Tónlist: Mark Eldred

Búningar: Sandra Hrafnhildur Harðardóttir



Alex og Selma hittast óvænt í kirkjugarði, þau hafa ekki talast við í fimm ár en nú er komið að uppgjöri milli þeirra og gömul sár gróa seint. Enn á ný er Tjarnarbíó vettvangur fyrir nýtt íslenskt leikverk þar sem Djúp spor var frumsýnt síðastliðinn fimmtudag. Jenný Lára Arnórsdóttir og Jóel Sæmundsson semja texta sýningarinnar og leika aðalhlutverkin en Bjartmar Þórðarson leikstýrir.

Sýningin á við fjölmörg vandamál að stríða sem byrja í handritinu. Samræður á sviði verða annaðhvort að fela í sér framvindu eða lita persónurnar sem þar standa nokkru lífi í stað þess að útskýra einvörðungu umhverfi og aðstæður. Þær verða einnig að vera leikbærar og sviðsvænar. Djúp spor er varla persónustúdía heldur miklu fremur sýnishorn af ástandi, sumar aðstæðurnar eru einnig í ólíklegri kantinum. Handritið er að hluta til byggt upp á viðtölum við einstaklinga sem hafa upplifað mikinn harm vegna ölvunaraksturs. Slíkt er virðingarvert en heimildaverk verða að brydda upp ánýjum útfærslum, sjónarhornum og framsetningu.

Í öðru lagi skortir allan slagkraft í leik þeirra Jennýjar Láru og Jóels, öll átök og reiði. Þó að textinn sé stirðbusalegur þá er hægt að fanga það skipbrot tilfinninganna sem liggja samræðunum til grundvallar. Jenný Lára nær ekki að fanga þetta ástand en fellur í þá gryfju að skila textanum í stað þess að leika persónuna. Jóel nær að sýna breidd, þá sérstaklega í þyngri senunum, en verður frekar tilgerðarlegur á hversdaglegri augnablikum.

Bjartmar sýndi fyrr á þessu ári að hann er spennandi handritahöfundur og ágætis leikstjóri en hér fatast honum flugið. Sviðslausnir eru sveipaðar doða og gráminn sem ríkir í stílhreinni sviðsmyndinni læðist inn í atburðarásina. Í átakamesta atriðinu eru tveimur stólum hent í jörðina. Leikararnir tala oftar út í sal frekar en við hvort annað og við það fellur öll spenna þeirra á milli til jarðar.

Tónlistin er furðulega ópersónuleg fyrir utan ágætis innslag frá Spice Girls sem sparka sýningunni á raunverulegan stað en frá fyrsta augnabliki hljóma laglínurnar eins og uppfyllingarefni í stað þess að lyfta sýningunni og styðja hana. Byrjunarstefið hæfir til dæmis alls ekki þeim aðstæðum sem kynntar eru fyrir áhorfendum. Lýsing Arnars Ingvarssonar rammaði sýninguna ágætlega inn og baklýsingin var eftirtektarverð. Sandra Hrafnhildur Harðardóttir sér um búningana sem vissulega voru fallegir en harla ópersónulegir.

Framtaki Artik-hópsins verður að fagna og spennandi er að sjá nýja þátttakendur í sviðslistaflóru landsins. Gæðin verða þó að vera til staðar, verkefnin verða að vera betri og metnaðarfyllri. Tjarnarbíó gegnir ábyrgðarmiklu hlutverki sem vettvangur sjálfstæðra sviðslistahópa og tilraunastarfsemi en þar er brýn þörf á skýrari ramma hvað varðar verkefnaval.

Einhvers staðar í handritinu leynist átakanleg saga um ábyrgð, sorg og fyrirgefningu en hún kemst ekki til skila. Nærgætnin við umfjöllunarefnið verður sýningunni að falli. Skilaboðin eru mikilvæg og þörf en týnast í máttlítilli framsetningu og leik sem skortir þor.

Niðurstaða: Sjónvarpsmynd á sviði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×