Fastir pennar

Kosningar strax

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Þrátt fyrir breytingar sem gerðar hafa verið á ráðherraskipan í ríkisstjórnarsamstarfi Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er uppi hávær krafa um enn frekari breytingar og kosningar jafnskjótt og hægt er að koma þeim við. Sú krafa er um margt skiljanleg.

Í því er engin mótsögn falin að aðhyllast viðskiptafrelsi á milli landa og vera um leið á móti starfsemi þeirri sem rekin er í svokölluðum aflandsfélögum. Eitt er nefnilega að hafa umsvif í útlöndum og annað að búa svo um hnúta að sem mest leynd hvíli yfir þeim. 

Í umfjöllun Kastljóss á sunnudagskvöld, sem hluti er af umfjöllun yfir hundrað fjölmiðla víða um heim á svonefndum Panama-skjölum, kom mörgum á óvart hversu langt er gengið til að leyna upplýsingum í skattaskjólum heimsins. Lögfræðingar taka að sér að vera skráðir fyrir félögum, en raunverulegt eignarhald er vandlega dulið í baksamningum sem aldrei líta dagsins ljós.

Fátt hefur orðið um svör þegar spurt er um tilgang þessarar leyndar yfir eignarhaldi félaganna og verður ekki annað ráðið af en hún sé til að fela hluti sem ekki þola dagsins ljós og komast hjá lögbundnum skattgreiðslum. Uppspretta lekans, lögfræðistofan Mossack Fonseca í Panama, hefur verið sökuð um að koma að peningaþvætti, ólöglegri vopnasölu, stórfelldum skattsvikum og skipulagðri glæpastarfsemi. Því er áfallið mikið þegar upplýsist að nöfn Íslendinga og íslenskra stjórnmálamanna tengist stofunni.

Vandséð er að dugi að bera því fyrir sig vanþekkingu um hvernig bankamenn hafi sýslað með fjármuni þá sem um ræðir, enda kostar það eitt háar fjárhæðir að láta fela peninga með þessum hætti.

Þessi skuggi hvílir enn yfir íslensku þjóðlífi og stjórnmálum. Meira þarf til að koma en að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson færi sig úr ráðherrasæti út í þingsal og handvelji nýjan utanþingsráðherra til að taka sæti í ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar, eftirmanns Sigmundar Davíðs í forsætisráðherrastól.

Forsvarsmönnum nýrrar ríkisstjórnar er tíðrætt um að hún njóti ríflegs meirihluta á þingi, en sá meirihluti er fenginn í kosningum áður en nokkurn gat grunað hvers konar uppljóstranir væru í vændum.

Fullt tilefni er til að efast um getu nýrrar ríkisstjórnar til að taka á málum sem tengjast Panama-skjölunum með trúverðugum hætti. Og raunar er skuggi ósómans sem fyrirtækinu tengist slíkur að sú staðreynd ein að stjórnmálamenn tengist þessum furðurekstri á að næga til að þeir stígi til hliðar, í það minnsta þar til þeir hafa gert hreint fyrir sínum dyrum og sótt sér endurnýjað umboð til kjósenda sinna.

Fyrir dyrum eru vissulega mikilvæg verkefni, svo sem við losun hafta, en við úrlausn þeirra er enginn ómissandi og engin ástæða til að ætla annað en um þau geti verið sátt, annað hvort í aðdraganda kosninga á næstu vikum, eða undir forræði nýrrar ríkisstjórnar að kosningum afloknum.






×