Gleðisprengja! Sigríður Jónsdóttir skrifar 15. mars 2016 10:30 Jóhanna Vigdís Arnardóttir sýnir í Mamma Mia! að hún er ósvikin stjarna í sérklassa. Leikhús Mamma Mia! Borgarleikhúsið Tónlist og söngtextar: Benny Andersson og Björn Ulvaeus Leiktexti: Catherine Johnson Íslenskun í lausu máli og bundnu: Þórarinn Eldjárn Leikstjórn: Unnur Ösp Stefánsdóttir Leikarar: Jóhanna Vigdís Arnardóttir, Þórunn Arna Kristjánsdóttir, Brynhildur Guðjónsdóttir, Maríanna Clara Lúthersdóttir, Helgi Björnsson, Halldór Gylfason, Valur Freyr Einarsson, Eysteinn Sigurðarson, Vala Kristín Eiríksdóttir, Þuríður Blær Jóhannsdóttir, Arnar Dan Kristjánsson, Ernesto Camilo Aldazabal Valdes, Esther Talía Casey, Orri Huginn Ágústsson Dansarar (Eyjarskeggjar og brúðkaupsgestir): Anais Barthe, Arna Sif Gunnarsdóttir, Berglind Rafnsdóttir, Björn Dagur Bjarnason, Einar Karl Jónsson, Höskuldur Þór Jónsson, Margrét Hrönn Jóhannsdóttir, Saadia Auður Dhour, Unnur Elísabet Gunnarsdóttir Danshöfundur: Lee Proud Tónlistarstjórn: Jón Ólafsson Leikmynd: Ilmur Stefánsdóttir Búningar: Filippía I. Elísdóttir Lýsing: Þórður Orri Pétursson Eftirvæntingin í Borgarleikhúsinu var við suðumark á föstudaginn þegar glymskrattasöngleikurinn Mamma Mia! var frumsýndur. Allir þekkja ABBA, margur hefur séð uppfærslur af Mamma Mia! á erlendri grundu og kvikmyndin sló í gegn á heimsvísu. En nú er komin íslensk þýðing á leikritinu og partíþjóðlögunum, og glæný sviðsetning. Höfundarverk Catherine Johnson um leit ungrar konu að föður sínum er kannski ekki góður pappír en skemmtanagildið er ótvírætt. ABBA-lögin er nefnilega ekki hægt að skemma, þau eru samansett úr diskókjarnorku og töfrum Benny Andersson og Björn Ulvaeus. Íslendingar eru með ABBA-stefin og -textana í genunum, fiðringurinn er nánast innbyggður í okkur. En þvílík endemis lukka að fá Þórarin Eldjárn til að þýða söngtextana. Betri mann í verkið er varla hægt að hugsa sér. Línur á borð við „Svo gjarnt er guðunum / að grýta teningum“ og „Þú vilt dans, þú vilt puð / endalaust allsherjarstuð“ eru hárnákvæmar sem þjóna bæði laglínunum og sögunni en eru líka trú upprunalegu söngtextunum. Jóhanna Vigdís Arnardóttir er ekkert annað en ósvikin stjarna í sérklassa. Hún glansar í hlutverki Donnu sem er skapað fyrir hennar mögnuðu hæfileika. Rödd hennar hefur bæði breidd og dýpt en tilfinningalega nálgunin er líka nánast óaðfinnanleg. Alla rak í rogastans þegar hún flutti Allt fær sá sem vann. Svona leikkonur fylla hús, örfáar slíkar eru til á landinu, en hún er svo sannarlega ein af þeim. Helgi Björnsson snýr aftur á leiksviðið eftir langa fjarveru. Það tók hann örlitla stund að finna gamla takta en hann umbreyttist við fyrsta lag, þar finnur hann lykilinn sem opnar hlutverkið. Þakið ætlaði af húsinu þegar Jóhanna og Helgi sungu dúettinn S.O.S., slíkur var neistinn. Valur Freyr Einarsson og Halldór Gylfason leika hina mögulegu feðurna, hinn pena Harry og ólíkindatólið Bill. Valur Freyr fer algjörlega á kostum og greinilegt að hann hefur gaman af. Það gustar aðeins minna af Halldóri en hann sinnir sínu hlutverki ágætlega. Dóttur Donnu, Sofie, leikur Þórunn Arna Kristjánsdóttir af einlægni og hlýju, sakleysið uppmálað. Hún syngur líka eins og engill en þarf að sýna örlítið meiri raddstyrk. Eysteinn Sigurðarson mætti vera afslappaðri í mótleiknum en hann springur út í söngatriðunum. Vala Kristín Eiríksdóttir og Þuríður Blær Jóhannsdóttir kitla hláturtaugarnar í hlutverkum vinkvenna Sofie en fjörið nær hámarki þegar eldri vinkonurnar þrjár hittast. Brynhildur Guðjónsdóttir og Maríanna Clara Lúthersdóttir tjútta sig í gegnum sýninguna af mikilli innlifun og skrúfa upp í stuðinu þegar þær mæta á svið.Uppfærsla Borgarleikhússins á Mamma Mia! er sannkölluð gleðibomba.Nokkur augnablik tekur að gangsetja Mamma Mia! og finna réttu stemninguna en Unnur Ösp Stefánsdóttir heldur fast um taumana. Sýningin er mikið afrek fyrir tiltölulega óreyndan leikstjóra. Stöðuga hreyfingin á sviðinu, tilfærslurnar á milli atriða og háa orkustigið keyra sýninguna áfram og áhorfendur geta varla annað en hrifist með. Danssenurnar, fáar framan af en fjölgar þegar líða tekur á, hverfast um unga fólkið sem stendur sig með miklum sóma. Danshöfundurinn Lee Proud keyrir diskótaktana áfram af krafti og hópsenurnar eru þrumandi hressar. Þó er hægt að setja spurningarmerki við birtingarmynd vinnukonunnar á gistiheimilinu og prestsins, einnig við framsetninguna á Harry. Þetta eru óþægilegar klisjur sem má hvíla. Árið er 2016, sviðsetningar á minnihlutahópum þurfa að vera betur ígrundaðar. Tónlistarstjórnun Jóns Ólafssonar er til fyrirmyndar en hljómsveitin leynist laglega á sviðinu. Leikmynd Ilmar Stefánsdóttur er rjómatertan ein en sviðsmyndin er afskaplega vel úthugsuð, litrík og heillandi, sem og ljósahönnun Þórðar Orra Péturssonar. Hringsviðið er notað til hins ýtrasta sem gefur leiksviðinu fjölbreyttar víddir. Litagleðin er líka ríkjandi í búningahönnun Filippíu I. Elísdóttur og er hún óspör á glimmerið, pallíetturnar og skúfana. Sparsöm er hún þó á föt yngra fólksins, sniðug í vali á þau eldri og sleppir algjörlega fram af sér beislinu í lokaatriðinu. Leikhús er ekki einungis um það sem gerist á sviði heldur einnig stemninguna sem skapast í salnum. Mamma Mia! færir vorið, birtuna og gleðina til áhorfendanna sem tóku svo sannarlega við gjöfinni með opnum örmum. Hörkusmellur fyrir alla aldurshópa. Sýningin er frábær en útgeislun og frammistaða Jóhönnu Vigdísar færir sýninguna á annað svið.Niðurstaða: Pallíettuparadís þar sem gleðin ríkir.Kvöldfréttir Stöðvar 2 fóru í Borgarleikhúsið og tóku Unni Ösp og Þórarinn Eldjárn tali fyrir frumsýningu. Fréttina má sjá hér fyrir neðan. Menning Mest lesið Datt í miðri sýningu á Ellý: „Eitt lélegasta fall leikhússögunnar“ Lífið Óhugnanlegt neyðarlínusímtal: „Hann var bara dáinn“ Lífið Eitt fallegasta hús landsins tilbúið Lífið „Þú varst að tala um Klausturmálið!“ Lífið Dularfull tíst Dylans vekja furðu Lífið Jay Leno illa leikinn og með lepp Lífið Flytja frá Bandaríkjunum eftir sigur Trump Lífið Frumsýning á Vísi: Villi Vill fer á kostum í tónlistarmyndbandi Luigi Tónlist Ógleymanlegt að vinna fyrir Rihönnu Tíska og hönnun „Þetta var það erfitt, að við vorum öll dofin“ Lífið Fleiri fréttir Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Kælt niður í byrjun og svo búmm! DIMMA var flott en einhæf Sjá meira
Leikhús Mamma Mia! Borgarleikhúsið Tónlist og söngtextar: Benny Andersson og Björn Ulvaeus Leiktexti: Catherine Johnson Íslenskun í lausu máli og bundnu: Þórarinn Eldjárn Leikstjórn: Unnur Ösp Stefánsdóttir Leikarar: Jóhanna Vigdís Arnardóttir, Þórunn Arna Kristjánsdóttir, Brynhildur Guðjónsdóttir, Maríanna Clara Lúthersdóttir, Helgi Björnsson, Halldór Gylfason, Valur Freyr Einarsson, Eysteinn Sigurðarson, Vala Kristín Eiríksdóttir, Þuríður Blær Jóhannsdóttir, Arnar Dan Kristjánsson, Ernesto Camilo Aldazabal Valdes, Esther Talía Casey, Orri Huginn Ágústsson Dansarar (Eyjarskeggjar og brúðkaupsgestir): Anais Barthe, Arna Sif Gunnarsdóttir, Berglind Rafnsdóttir, Björn Dagur Bjarnason, Einar Karl Jónsson, Höskuldur Þór Jónsson, Margrét Hrönn Jóhannsdóttir, Saadia Auður Dhour, Unnur Elísabet Gunnarsdóttir Danshöfundur: Lee Proud Tónlistarstjórn: Jón Ólafsson Leikmynd: Ilmur Stefánsdóttir Búningar: Filippía I. Elísdóttir Lýsing: Þórður Orri Pétursson Eftirvæntingin í Borgarleikhúsinu var við suðumark á föstudaginn þegar glymskrattasöngleikurinn Mamma Mia! var frumsýndur. Allir þekkja ABBA, margur hefur séð uppfærslur af Mamma Mia! á erlendri grundu og kvikmyndin sló í gegn á heimsvísu. En nú er komin íslensk þýðing á leikritinu og partíþjóðlögunum, og glæný sviðsetning. Höfundarverk Catherine Johnson um leit ungrar konu að föður sínum er kannski ekki góður pappír en skemmtanagildið er ótvírætt. ABBA-lögin er nefnilega ekki hægt að skemma, þau eru samansett úr diskókjarnorku og töfrum Benny Andersson og Björn Ulvaeus. Íslendingar eru með ABBA-stefin og -textana í genunum, fiðringurinn er nánast innbyggður í okkur. En þvílík endemis lukka að fá Þórarin Eldjárn til að þýða söngtextana. Betri mann í verkið er varla hægt að hugsa sér. Línur á borð við „Svo gjarnt er guðunum / að grýta teningum“ og „Þú vilt dans, þú vilt puð / endalaust allsherjarstuð“ eru hárnákvæmar sem þjóna bæði laglínunum og sögunni en eru líka trú upprunalegu söngtextunum. Jóhanna Vigdís Arnardóttir er ekkert annað en ósvikin stjarna í sérklassa. Hún glansar í hlutverki Donnu sem er skapað fyrir hennar mögnuðu hæfileika. Rödd hennar hefur bæði breidd og dýpt en tilfinningalega nálgunin er líka nánast óaðfinnanleg. Alla rak í rogastans þegar hún flutti Allt fær sá sem vann. Svona leikkonur fylla hús, örfáar slíkar eru til á landinu, en hún er svo sannarlega ein af þeim. Helgi Björnsson snýr aftur á leiksviðið eftir langa fjarveru. Það tók hann örlitla stund að finna gamla takta en hann umbreyttist við fyrsta lag, þar finnur hann lykilinn sem opnar hlutverkið. Þakið ætlaði af húsinu þegar Jóhanna og Helgi sungu dúettinn S.O.S., slíkur var neistinn. Valur Freyr Einarsson og Halldór Gylfason leika hina mögulegu feðurna, hinn pena Harry og ólíkindatólið Bill. Valur Freyr fer algjörlega á kostum og greinilegt að hann hefur gaman af. Það gustar aðeins minna af Halldóri en hann sinnir sínu hlutverki ágætlega. Dóttur Donnu, Sofie, leikur Þórunn Arna Kristjánsdóttir af einlægni og hlýju, sakleysið uppmálað. Hún syngur líka eins og engill en þarf að sýna örlítið meiri raddstyrk. Eysteinn Sigurðarson mætti vera afslappaðri í mótleiknum en hann springur út í söngatriðunum. Vala Kristín Eiríksdóttir og Þuríður Blær Jóhannsdóttir kitla hláturtaugarnar í hlutverkum vinkvenna Sofie en fjörið nær hámarki þegar eldri vinkonurnar þrjár hittast. Brynhildur Guðjónsdóttir og Maríanna Clara Lúthersdóttir tjútta sig í gegnum sýninguna af mikilli innlifun og skrúfa upp í stuðinu þegar þær mæta á svið.Uppfærsla Borgarleikhússins á Mamma Mia! er sannkölluð gleðibomba.Nokkur augnablik tekur að gangsetja Mamma Mia! og finna réttu stemninguna en Unnur Ösp Stefánsdóttir heldur fast um taumana. Sýningin er mikið afrek fyrir tiltölulega óreyndan leikstjóra. Stöðuga hreyfingin á sviðinu, tilfærslurnar á milli atriða og háa orkustigið keyra sýninguna áfram og áhorfendur geta varla annað en hrifist með. Danssenurnar, fáar framan af en fjölgar þegar líða tekur á, hverfast um unga fólkið sem stendur sig með miklum sóma. Danshöfundurinn Lee Proud keyrir diskótaktana áfram af krafti og hópsenurnar eru þrumandi hressar. Þó er hægt að setja spurningarmerki við birtingarmynd vinnukonunnar á gistiheimilinu og prestsins, einnig við framsetninguna á Harry. Þetta eru óþægilegar klisjur sem má hvíla. Árið er 2016, sviðsetningar á minnihlutahópum þurfa að vera betur ígrundaðar. Tónlistarstjórnun Jóns Ólafssonar er til fyrirmyndar en hljómsveitin leynist laglega á sviðinu. Leikmynd Ilmar Stefánsdóttur er rjómatertan ein en sviðsmyndin er afskaplega vel úthugsuð, litrík og heillandi, sem og ljósahönnun Þórðar Orra Péturssonar. Hringsviðið er notað til hins ýtrasta sem gefur leiksviðinu fjölbreyttar víddir. Litagleðin er líka ríkjandi í búningahönnun Filippíu I. Elísdóttur og er hún óspör á glimmerið, pallíetturnar og skúfana. Sparsöm er hún þó á föt yngra fólksins, sniðug í vali á þau eldri og sleppir algjörlega fram af sér beislinu í lokaatriðinu. Leikhús er ekki einungis um það sem gerist á sviði heldur einnig stemninguna sem skapast í salnum. Mamma Mia! færir vorið, birtuna og gleðina til áhorfendanna sem tóku svo sannarlega við gjöfinni með opnum örmum. Hörkusmellur fyrir alla aldurshópa. Sýningin er frábær en útgeislun og frammistaða Jóhönnu Vigdísar færir sýninguna á annað svið.Niðurstaða: Pallíettuparadís þar sem gleðin ríkir.Kvöldfréttir Stöðvar 2 fóru í Borgarleikhúsið og tóku Unni Ösp og Þórarinn Eldjárn tali fyrir frumsýningu. Fréttina má sjá hér fyrir neðan.
Menning Mest lesið Datt í miðri sýningu á Ellý: „Eitt lélegasta fall leikhússögunnar“ Lífið Óhugnanlegt neyðarlínusímtal: „Hann var bara dáinn“ Lífið Eitt fallegasta hús landsins tilbúið Lífið „Þú varst að tala um Klausturmálið!“ Lífið Dularfull tíst Dylans vekja furðu Lífið Jay Leno illa leikinn og með lepp Lífið Flytja frá Bandaríkjunum eftir sigur Trump Lífið Frumsýning á Vísi: Villi Vill fer á kostum í tónlistarmyndbandi Luigi Tónlist Ógleymanlegt að vinna fyrir Rihönnu Tíska og hönnun „Þetta var það erfitt, að við vorum öll dofin“ Lífið Fleiri fréttir Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Kælt niður í byrjun og svo búmm! DIMMA var flott en einhæf Sjá meira