Tónlist

Milkywhale og Reykjavíkurdætur spila á Hróarskeldu

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Milkywhale og Reykjavíkurdætur spila á Hróarskeldu.
Milkywhale og Reykjavíkurdætur spila á Hróarskeldu. Vísir/Anton Brink og Ernir
Tvær íslenskar hljómsveitir koma fram á Hróarskeldu-hátíðinni í sumar, annars vegar raftónlistar­dúettinn Milkywhale og hins vegar stúlknarappsveitin Reykjavíkurdætur. Hátíðin fer fram dagana 25. júní til 2. júlí og hefur í gegnum tíðina verið vinsæl hjá Íslendingum.

„Ég er bara fáránlega spennt. Ég er menntuð sem dansari og danshöfundur, þannig að þetta eru alveg nýjar víddir fyrir mig. Sérstaklega í ljósi þess að Milkywhale er bara verkefni sem byrjaði í maí á síðasta ári, þannig að við erum komin tiltölulega langt á tiltölulega stuttum tíma,“ segir Melkorka Sigríður Magnúsdóttir, söngkona Milkywhale. Hún skipar sveitina ásamt Árna Rúnari Hlöðverssyni.

Melkorka Sigríður Magnúsdóttir og Árni Rúnar Hlöðversson mynda hljómsveitina Milkywhale.vísir/anton brink
Hún hefur sjálf aldrei farið á Hróarskeldu en hefur þó heyrt margt gott af hátíðinni. „Ég er rosalega lítið fyrir svona tjaldútilegur þannig að ég hef ekki látið af því verða. Ég hef samt heyrt marga góða hluti af henni, þetta er náttúrulega ein af stærstu tónlistarhátíðunum í Evrópu þannig að þetta verður ótrúlega skemmtilegt,“ segir Melkorka Sigríður.

Þó svo að sveitin sé tiltölulega ný hefur hún komið víða við og spilaði til dæmis á Airwaves og Sónar. „Við ætlum að reyna að gefa út plötu á þessu ári og erum að leggja lokahönd á lögin,“ bætir Melkorka Sigríður við.

Fyrsta rappsveitin frá Íslandi


Á bilinu sextán til tuttugu Reykjavíkurdætur koma fram á Hróarskeldu-hátíðinni. „Þetta er fyrsta skiptið hjá mörgum okkar. Það er mikil spenna í loftinu og okkur þykir þessi hátíð æðisleg, þetta er svona pönk/hippahátíð og var uppsett þannig. Svo er eitthvert nektarhlaup þarna og svona,“ segir Vigdís Ósk Howser Harðardóttir, ein af Reykjavíkurdætrum, full tilhlökkunar. „Við erum líka fyrsta rappsveitin frá Íslandi sem spilar á Hróarskeldu,“ bætir Vigdís Ósk við.

Á bilinu sextán til tuttugu Reykjavíkurdætur eru að fara spila á Hróarskeldu í sumar.vísir/ernir
Margt er fram undan hjá rappstúlknasveitinni sem stefnir á að gefa út plötu í vor og þá er til dæmis tónleikaferðalag fyrirhugað í sumar. Vigdís Ósk er hvergi bangin við tónleikaferðina í sumar og segir að mórallinn sé ávallt góður í herbúðum sveitarinnar. „Við erum meðvitaðar um mörk hver annarrar og það er svo gott. Ef maður ber alltaf virðingu fyrir mörkum annarra þá gengur allt miklu betur, þannig að við þekkjum á hver inn á aðra.“

Fjórar íslenskar hljómsveitir komu fram á Hróarskeldu-hátíðinni í fyrra en þær voru, Vök, Young Karin, Kippi Kanínus og The Vintage Caravan.

Nú þegar hafa stærðarinnar nöfn á borð við LCD Soundsystem, MØ, New Order, PJ Harvey, Red Hot Chili Peppers, Tame Impala og Tenacious D staðfest komu sína á hátíðina. Fleiri hjómsveitir og listamenn verða tilkynntir síðar í dag á Vísi. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×