Með brýnt erindi við samtíð og framtíð Magnús Guðmundsson skrifar 25. febrúar 2016 11:00 Undirgefni, bókarkápa Bækur Undirgefni Michel Houellebecq Þýðing: Friðrik Rafnsson Útgefandi: Mál og menning Prentun: Oddi Síðufjöldi: 275 Kápa: Halla Sigga Rithöfundurinn Michel Houellebecq er líkast til vinsælastur allra núlifandi franskra höfunda. Bækur hans vekja ávallt mikið umtal enda hefur hann einstakt lag á að tala sterklega inn í samtímann, jafnt málefni samfélagsins sem stöðu einstaklingsins. Nýjasta skáldsaga Houellebecq, Undirgefni, er engin undantekning á þessu. Þvert á móti. Umtalið er gríðarlegt og áhuginn á verkinu jafnt sem höfundinum hreint með ólíkindum. En Houellebecq fetar líka vandfarna og varasama slóð í Undirgefni. Þar segir frá háskólakennaranum François sem er sérfræðingur í verkum 19. aldar höfundarins J.K. Huysman, sem fjallaði m.a. um hnignun Evrópu í verkum sínum, en það myndar sterka tengingu við hugmyndaheim fortíðar allt til þeirrar nálægu framtíðar þegar sagan á sér stað, ársins 2022. Aðalviðburðir sögunnar hverfast í kringum þá atburði að formaður Bræðralags múslíma er að vinna forsetakosningarnar í Frakklandi með tilheyrandi íslamsvæðingu fransks samfélags. Þessi nálgun Houellebecq, að skrifa samfélagið og þróun þess inn í nána framtíð og fjalla þannig um stöðu samtímans, hugmyndalega jafnt sem pólitískt, minnir óneitanlega á dystópískar bókmenntir á borð við 1984 eftir George Orwell og Brave New World eftir Aldous Huxley. Samanburðurinn á að minnsta kosti fullan rétt á sér en Undirgefni er þó um margt dýpra og listrænna verk en ekki einungis pólitísk framtíðarspá. Hinn samfélagslegi þráður verksins tekst á við hnignun Evrópu, menningu og samfélagsgerð álfunnar og ekki síður úrkynjun hins vestræna menntamanns og ekkert er dregið undan. Houellebecq lætur alla pólitíska rétthugsun lönd og leið og hikar ekki við að draga upp mynd af tækifærissinnaðri menntastétt Frakklands sem fagnar í raun endurkomu feðraveldisins, sérhagsmunum hinna menntuðu á kostnað velferðarþjóðfélagsins og þannig mætti áfram telja. François, hin skeytingarlausa aðalpersóna, er holdgervingur hinnar vestrænu hnignunar sem lætur þróun samfélagsins sér í léttu rúmi liggja í anda tómhyggjunnar svo lengi sem boðið er upp á gott vín með frambærilegum mat og kynlífið geti haldið áfram að vera persónuleg nautnasvölun án minnstu tilfinninga eða skuldbindinga hvort sem er með ástkonu eða vændiskonum. Allt líf François, allar athafnir hans og ákvarðanir byggjast á sérhagsmunum hans og sjálfselsku en engu að síður tekst Houellebecq að draga upp mynd af tiltakanlega viðkunnanlegum náunga. Hinn menntaði einfari er kunnugleg persóna í verkum Houellebecq enda hentar persónan sérdeilis vel til þess að skoða samfélagið, þróun þess og hnignun og setja þær vangaveltur í stærra sögulegt samhengi. Í persónunni og lífi hennar felst í senn möguleiki okkar til þess að læra af sögunni, huga að almennu skeytingarleysi um manneskjuna sem og að skoða nautnahyggju einstaklings sem er engum háður. Houellebecq er frábær stílisti sem hefur jafnframt mikið vald á frásögninni og umhverfi hennar í heild. Hann veitir lesendum djúpa innsýn í sálarlíf aðalpersónu sinnar og kryfur hana sem og samfélagið til mergjar sem bæði þróast fyrirhafnarlaust en ávallt óhjákvæmilega til undirgefninnar. Það þarf engan að undra að Undirgefni hafi ýtt hraustlega við frönsku og reyndar evrópsku samfélagi á þeim stutta tíma sem er liðinn frá útgáfu bókarinnar síðla árs 2015. Undirgefni er marglaga skáldsaga sem heimurinn er rétt að byrja að lesa og Houellebecq er ögrandi, skemmtilegur, stríðinn og spennandi höfundur. Það er því mikið fagnaðarefni að bókin skuli nú þegar vera komin út í framúrskarandi íslenskri þýðingu Friðriks Rafnssonar. Friðrik er á meðal afkastamestu þýðenda á góðum bókmenntum og það er ómetanlegt fyrir íslenska menningu að eiga þessa gátt út í hinn stóra heim bókmenntanna sem góðar þýðingar eru. Undirgefni er bók sem skiptir máli og á erindi við vestrænt samfélag samtímans og framtíðarinnar og mikilvægi þess að bjóða íslenskum lesendum upp á gæðaþýðingar á slíkum verkum verður seint tíundað um of.Niðurstaða: Algjörlega mögnuð bók sem tekur á viðkvæmustu málefnum líðandi stundar sem og stöðu og þróun samfélagsins. Menning Mest lesið Óhugnanlegt neyðarlínusímtal: „Hann var bara dáinn“ Lífið Datt í miðri sýningu á Ellý: „Eitt lélegasta fall leikhússögunnar“ Lífið „Þú varst að tala um Klausturmálið!“ Lífið Jay Leno illa leikinn og með lepp Lífið Frumsýning á Vísi: Villi Vill fer á kostum í tónlistarmyndbandi Luigi Tónlist „Þetta var það erfitt, að við vorum öll dofin“ Lífið Vilt þú taka þátt í nýjum þætti á Stöð 2? Lífið Stjörnufans þegar hundruð kíktu á forsýningu Iceguys 2 Bíó og sjónvarp Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Gagnrýni Hrund Gunnsteins kaupir íbúð Viktors Bjarka og Álfrúnar Lífið Fleiri fréttir Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Kælt niður í byrjun og svo búmm! DIMMA var flott en einhæf Sjá meira
Bækur Undirgefni Michel Houellebecq Þýðing: Friðrik Rafnsson Útgefandi: Mál og menning Prentun: Oddi Síðufjöldi: 275 Kápa: Halla Sigga Rithöfundurinn Michel Houellebecq er líkast til vinsælastur allra núlifandi franskra höfunda. Bækur hans vekja ávallt mikið umtal enda hefur hann einstakt lag á að tala sterklega inn í samtímann, jafnt málefni samfélagsins sem stöðu einstaklingsins. Nýjasta skáldsaga Houellebecq, Undirgefni, er engin undantekning á þessu. Þvert á móti. Umtalið er gríðarlegt og áhuginn á verkinu jafnt sem höfundinum hreint með ólíkindum. En Houellebecq fetar líka vandfarna og varasama slóð í Undirgefni. Þar segir frá háskólakennaranum François sem er sérfræðingur í verkum 19. aldar höfundarins J.K. Huysman, sem fjallaði m.a. um hnignun Evrópu í verkum sínum, en það myndar sterka tengingu við hugmyndaheim fortíðar allt til þeirrar nálægu framtíðar þegar sagan á sér stað, ársins 2022. Aðalviðburðir sögunnar hverfast í kringum þá atburði að formaður Bræðralags múslíma er að vinna forsetakosningarnar í Frakklandi með tilheyrandi íslamsvæðingu fransks samfélags. Þessi nálgun Houellebecq, að skrifa samfélagið og þróun þess inn í nána framtíð og fjalla þannig um stöðu samtímans, hugmyndalega jafnt sem pólitískt, minnir óneitanlega á dystópískar bókmenntir á borð við 1984 eftir George Orwell og Brave New World eftir Aldous Huxley. Samanburðurinn á að minnsta kosti fullan rétt á sér en Undirgefni er þó um margt dýpra og listrænna verk en ekki einungis pólitísk framtíðarspá. Hinn samfélagslegi þráður verksins tekst á við hnignun Evrópu, menningu og samfélagsgerð álfunnar og ekki síður úrkynjun hins vestræna menntamanns og ekkert er dregið undan. Houellebecq lætur alla pólitíska rétthugsun lönd og leið og hikar ekki við að draga upp mynd af tækifærissinnaðri menntastétt Frakklands sem fagnar í raun endurkomu feðraveldisins, sérhagsmunum hinna menntuðu á kostnað velferðarþjóðfélagsins og þannig mætti áfram telja. François, hin skeytingarlausa aðalpersóna, er holdgervingur hinnar vestrænu hnignunar sem lætur þróun samfélagsins sér í léttu rúmi liggja í anda tómhyggjunnar svo lengi sem boðið er upp á gott vín með frambærilegum mat og kynlífið geti haldið áfram að vera persónuleg nautnasvölun án minnstu tilfinninga eða skuldbindinga hvort sem er með ástkonu eða vændiskonum. Allt líf François, allar athafnir hans og ákvarðanir byggjast á sérhagsmunum hans og sjálfselsku en engu að síður tekst Houellebecq að draga upp mynd af tiltakanlega viðkunnanlegum náunga. Hinn menntaði einfari er kunnugleg persóna í verkum Houellebecq enda hentar persónan sérdeilis vel til þess að skoða samfélagið, þróun þess og hnignun og setja þær vangaveltur í stærra sögulegt samhengi. Í persónunni og lífi hennar felst í senn möguleiki okkar til þess að læra af sögunni, huga að almennu skeytingarleysi um manneskjuna sem og að skoða nautnahyggju einstaklings sem er engum háður. Houellebecq er frábær stílisti sem hefur jafnframt mikið vald á frásögninni og umhverfi hennar í heild. Hann veitir lesendum djúpa innsýn í sálarlíf aðalpersónu sinnar og kryfur hana sem og samfélagið til mergjar sem bæði þróast fyrirhafnarlaust en ávallt óhjákvæmilega til undirgefninnar. Það þarf engan að undra að Undirgefni hafi ýtt hraustlega við frönsku og reyndar evrópsku samfélagi á þeim stutta tíma sem er liðinn frá útgáfu bókarinnar síðla árs 2015. Undirgefni er marglaga skáldsaga sem heimurinn er rétt að byrja að lesa og Houellebecq er ögrandi, skemmtilegur, stríðinn og spennandi höfundur. Það er því mikið fagnaðarefni að bókin skuli nú þegar vera komin út í framúrskarandi íslenskri þýðingu Friðriks Rafnssonar. Friðrik er á meðal afkastamestu þýðenda á góðum bókmenntum og það er ómetanlegt fyrir íslenska menningu að eiga þessa gátt út í hinn stóra heim bókmenntanna sem góðar þýðingar eru. Undirgefni er bók sem skiptir máli og á erindi við vestrænt samfélag samtímans og framtíðarinnar og mikilvægi þess að bjóða íslenskum lesendum upp á gæðaþýðingar á slíkum verkum verður seint tíundað um of.Niðurstaða: Algjörlega mögnuð bók sem tekur á viðkvæmustu málefnum líðandi stundar sem og stöðu og þróun samfélagsins.
Menning Mest lesið Óhugnanlegt neyðarlínusímtal: „Hann var bara dáinn“ Lífið Datt í miðri sýningu á Ellý: „Eitt lélegasta fall leikhússögunnar“ Lífið „Þú varst að tala um Klausturmálið!“ Lífið Jay Leno illa leikinn og með lepp Lífið Frumsýning á Vísi: Villi Vill fer á kostum í tónlistarmyndbandi Luigi Tónlist „Þetta var það erfitt, að við vorum öll dofin“ Lífið Vilt þú taka þátt í nýjum þætti á Stöð 2? Lífið Stjörnufans þegar hundruð kíktu á forsýningu Iceguys 2 Bíó og sjónvarp Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Gagnrýni Hrund Gunnsteins kaupir íbúð Viktors Bjarka og Álfrúnar Lífið Fleiri fréttir Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Kælt niður í byrjun og svo búmm! DIMMA var flott en einhæf Sjá meira