Raunveruleikinn er ekki raunverulegur Sif Sigmarsdóttir skrifar 27. febrúar 2016 07:00 Hvers vegna fórstu í sokka í morgun? Hvers vegna settir þú mjólk út í kaffið þitt? Hvers vegna fórstu í vinnuna? – Til að verða ekki kalt á tánum? Til að hemja beiskt bragðið? Til að hafa efni á að vera til? Rangt. Stundum líður mér eins og raunveruleikinn sé ekki raunverulegur. Eins og hlutirnir séu ekki eins og þeir virðast heldur einhvern veginn allt öðruvísi. Fréttir vikunnar staðfesta að sú er og raunin.Ein stór lygi Við erum föst í sýndarveröld. Við fæðingu er okkur stungið í samband við tálmynd og eftir það fljótum við sofandi að feigðarósi um ylvolga sjálfsblekkingu í anda kvikmyndarinnar Matrix. Kæri lesandi. Ég býð þér tvo kosti; bláa pillu og rauða pillu – að hætta lestrinum hér og nú eða að lesa lengra. Ef þú velur bláu pilluna muntu einfaldlega halda áfram að trúa því sem þú vilt trúa. En ef þú gleypir rauðu pilluna heldur för þín um Undraland áfram þar sem ég leiði þig í sannleikann um hversu ægidjúp kanínuholan er. Í myndinni Matrix segir frá tölvuþrjótinum Neo sem kemst á snoðir um að veröldin eins og við þekkjum hana, eins og við skynjum hana, er ein stór lygi. Neo stendur frammi fyrir vali. Hann getur gleypt bláa pillu og haldið áfram makindalegri tilveru sem byggð er blekkingu. Eða hann getur tekið rauðu pilluna og komist að óþægilegum sannleikanum. Neo velur þá rauðu og kemst að því að mannskepnan hefur verið hneppt í ánauð. Vélar hafa tekið yfir heiminn og stunda manneldi. Maðurinn er ræktaður til að framleiða rafmagn fyrir vélarnar. Hver líkami flýtur í fósturstellingunni inni í einhvers konar líknarbelg þar sem hann hírist nakinn, hárlaus og umlukinn vökva alla ævi í ræktunarstöðvum sem líkjast helst kjúklingabúum. Heilinn er hins vegar tengdur með snúru inn í hinn svokallaða Matrix-heim, Draumaheiminn, einhvers konar sýndarveröld sem er ekkert annað en tölvuforrit. Manneskjurnar eru lífræn batterí sem eru aðeins til til að viðhalda vélunum. Söguþráður Matrix kann að hljóma ótrúlegur. Hann er þó furðu nálægt því að fanga hinn raunverulega raunveruleika.Tilgangurinn með tilvist okkar Fréttir vikunnar sýna að við erum ekkert annað en valdalaus tannhjól í mismunandi kerfum: Nýir búvörusamningar sem kosta munu skattgreiðendur tugi ef ekki hundruð milljarða næstu tíu árin staðfesta að tilgangur landbúnaðarkerfisins er ekki að þjónusta neytendur heldur öfugt. Við borðum til að viðhalda landbúnaðarkerfinu. Hótanir forsætisráðherra í garð Háskóla Íslands í kjölfar þess að Háskólaráð ákvað að flytja íþróttakennaraskólann frá Laugarvatni til Reykjavíkur staðfestir að háskóli landsmanna er ekki rekinn til að mennta fólk sem best og með sem hagkvæmustum hætti heldur til að viðhalda mannlífi á afskekktum stöðum. Við hugsum til að tryggja byggð á Laugarvatni. Hörð andstaða Samtaka atvinnulífsins við frumvarp sem nú liggur fyrir Alþingi um styttingu vinnuvikunnar úr 40 klukkustundum í 35 staðfestir að okkur er ekki ætlað að vinna til að lifa, við lifum til að vinna. Þrjár fyrirsagnir á forsíðu Vísis í einni og sömu klósettferðinni segja allt sem segja þarf: „HB Grandi hagnaðist um 6,5 milljarða“ – „Hagnaður Arion 49 milljarðar í fyrra“ – „Stjórn VÍS vill greiða eigendum 5 milljarða í arð“. Landbúnaðarkerfið, byggðakerfið, fiskveiðistjórnunarkerfið, bankakerfið, tryggingakerfið, hið kapítalíska kerfi … Við lifum í þeirri trú að þessi kerfi séu til fyrir okkur. Því er hins vegar öfugt farið. Okkur er ekki ætlað að klæðast sokkum til að halda á okkur hita heldur til að viðhalda markaðskerfinu. Við setjum ekki mjólk út í kaffi af því að án hennar er það biturt heldur til að tryggja að í afdal geti bóndi mjólkað belju með eins óhagkvæmum hætti og mögulegt er. Við vinnum ekki til að auka eigin hag og hamingju heldur til að auka hagvöxt. Kæri lesandi, þú hefðir átt að velja bláu pilluna. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Sif Sigmarsdóttir Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun
Hvers vegna fórstu í sokka í morgun? Hvers vegna settir þú mjólk út í kaffið þitt? Hvers vegna fórstu í vinnuna? – Til að verða ekki kalt á tánum? Til að hemja beiskt bragðið? Til að hafa efni á að vera til? Rangt. Stundum líður mér eins og raunveruleikinn sé ekki raunverulegur. Eins og hlutirnir séu ekki eins og þeir virðast heldur einhvern veginn allt öðruvísi. Fréttir vikunnar staðfesta að sú er og raunin.Ein stór lygi Við erum föst í sýndarveröld. Við fæðingu er okkur stungið í samband við tálmynd og eftir það fljótum við sofandi að feigðarósi um ylvolga sjálfsblekkingu í anda kvikmyndarinnar Matrix. Kæri lesandi. Ég býð þér tvo kosti; bláa pillu og rauða pillu – að hætta lestrinum hér og nú eða að lesa lengra. Ef þú velur bláu pilluna muntu einfaldlega halda áfram að trúa því sem þú vilt trúa. En ef þú gleypir rauðu pilluna heldur för þín um Undraland áfram þar sem ég leiði þig í sannleikann um hversu ægidjúp kanínuholan er. Í myndinni Matrix segir frá tölvuþrjótinum Neo sem kemst á snoðir um að veröldin eins og við þekkjum hana, eins og við skynjum hana, er ein stór lygi. Neo stendur frammi fyrir vali. Hann getur gleypt bláa pillu og haldið áfram makindalegri tilveru sem byggð er blekkingu. Eða hann getur tekið rauðu pilluna og komist að óþægilegum sannleikanum. Neo velur þá rauðu og kemst að því að mannskepnan hefur verið hneppt í ánauð. Vélar hafa tekið yfir heiminn og stunda manneldi. Maðurinn er ræktaður til að framleiða rafmagn fyrir vélarnar. Hver líkami flýtur í fósturstellingunni inni í einhvers konar líknarbelg þar sem hann hírist nakinn, hárlaus og umlukinn vökva alla ævi í ræktunarstöðvum sem líkjast helst kjúklingabúum. Heilinn er hins vegar tengdur með snúru inn í hinn svokallaða Matrix-heim, Draumaheiminn, einhvers konar sýndarveröld sem er ekkert annað en tölvuforrit. Manneskjurnar eru lífræn batterí sem eru aðeins til til að viðhalda vélunum. Söguþráður Matrix kann að hljóma ótrúlegur. Hann er þó furðu nálægt því að fanga hinn raunverulega raunveruleika.Tilgangurinn með tilvist okkar Fréttir vikunnar sýna að við erum ekkert annað en valdalaus tannhjól í mismunandi kerfum: Nýir búvörusamningar sem kosta munu skattgreiðendur tugi ef ekki hundruð milljarða næstu tíu árin staðfesta að tilgangur landbúnaðarkerfisins er ekki að þjónusta neytendur heldur öfugt. Við borðum til að viðhalda landbúnaðarkerfinu. Hótanir forsætisráðherra í garð Háskóla Íslands í kjölfar þess að Háskólaráð ákvað að flytja íþróttakennaraskólann frá Laugarvatni til Reykjavíkur staðfestir að háskóli landsmanna er ekki rekinn til að mennta fólk sem best og með sem hagkvæmustum hætti heldur til að viðhalda mannlífi á afskekktum stöðum. Við hugsum til að tryggja byggð á Laugarvatni. Hörð andstaða Samtaka atvinnulífsins við frumvarp sem nú liggur fyrir Alþingi um styttingu vinnuvikunnar úr 40 klukkustundum í 35 staðfestir að okkur er ekki ætlað að vinna til að lifa, við lifum til að vinna. Þrjár fyrirsagnir á forsíðu Vísis í einni og sömu klósettferðinni segja allt sem segja þarf: „HB Grandi hagnaðist um 6,5 milljarða“ – „Hagnaður Arion 49 milljarðar í fyrra“ – „Stjórn VÍS vill greiða eigendum 5 milljarða í arð“. Landbúnaðarkerfið, byggðakerfið, fiskveiðistjórnunarkerfið, bankakerfið, tryggingakerfið, hið kapítalíska kerfi … Við lifum í þeirri trú að þessi kerfi séu til fyrir okkur. Því er hins vegar öfugt farið. Okkur er ekki ætlað að klæðast sokkum til að halda á okkur hita heldur til að viðhalda markaðskerfinu. Við setjum ekki mjólk út í kaffi af því að án hennar er það biturt heldur til að tryggja að í afdal geti bóndi mjólkað belju með eins óhagkvæmum hætti og mögulegt er. Við vinnum ekki til að auka eigin hag og hamingju heldur til að auka hagvöxt. Kæri lesandi, þú hefðir átt að velja bláu pilluna.