Hentistefna Þorbjörn Þórðarson skrifar 11. febrúar 2016 07:00 Þótt Bandaríkjamenn bæti aðstöðu sína á Keflavíkurflugvelli í gegnum samstarf við Íslendinga í Atlantshafsbandalaginu þýðir það ekki að þeir geti gengið að því sem vísu að vera hér með fasta viðveru. Frétt vefsins Stars and Stripes á þriðjudag um að Bandaríkjaher ætli að snúa aftur til Íslands og hafa tímabundna aðstöðu á Keflavíkurflugvelli og að bandaríski sjóherinn gæti síðar meir farið fram á aðstöðu til langframa vakti ugg í brjósti sumra enda var hún túlkuð þannig að hér væri kominn fyrsti vísirinn að endurkomu hersins. Hið rétta er að bandaríski sjóherinn hefur óskað eftir fjárheimild frá Bandaríkjaþingi til að breyta flugskýli Atlantshafsbandalagsins (NATO) á Keflavíkurflugvelli til þess að það geti hýst P-8 Poseidon vélar. Einhliða ákvörðun Bandaríkjamanna um að loka herstöðinni í Keflavík árið 2006 hefur verið túlkuð sem afleikur af sérfræðingum í varnar- og öryggismálum. Frá því hefur verið greint að í bandaríska varnarmálaráðuneytinu sjái menn eftir henni og í fyllingu tímans hafi mönnum orðið ljóst að hún hafi verið mistök. Í grein Vals Ingimundarsonar, prófessors í sagnfræði, um samskipti Íslands við Bandaríkin í ritsafninu Uppbrot hugmyndakerfis: Endurmótun utanríkisstefnu 1991-2007 kemur fram að lokun herstöðvarinnar hafi verið liður í endurmati á varnar- og öryggishagsmunum Bandaríkjanna í ljósi atburðanna 11. september 2001. Það endurspeglaði hagsmunamat nýrra áhrifamanna í bandarísku þjóðfélagi sem töldu mikilvægt að tryggja yfirráð yfir olíuauðlindum og spyrna við uppgangi hryðjuverkahópa. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan herstöðinni var lokað. Það er augljóst að það eru brýnir hagsmunir Bandaríkjamanna að styrkja viðveru sína á Norður-Atlantshafi vegna vaxandi hernaðarumsvifa Rússa á þessum slóðum sem birtist í aukinni umferð rússneskra sprengjuflugvéla og kafbáta. Aukin viðvera Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli rúmast innan gildandi varnarsamnings milli Bandaríkjanna og Íslands með þeim breytingum sem gerðar voru á honum í kjölfar brottfarar varnarliðsins árið 2006. Starfsmenn utanríkisráðuneytisins voru jafnframt snöggir til að árétta, þegar frétt um skýlið birtist, að engar viðræður ættu sér stað milli Íslands og Bandaríkjanna um varanlega staðsetningu bandarísks liðsafla á Íslandi. Þótt Bandaríkjamenn endurbæti skýli fyrir flugvélar til að sinna eftirliti á Norður-Atlantshafi er mikilvægt að ráðamenn í Washington velkist ekki í neinum vafa um að umsvif þeirra á Íslandi verða ekki aukin nema með samþykki íslenska löggjafans. Bandaríkjamenn geta ekki gengið að því sem vísu að þeir geti snúið hingað aftur þótt þeir hafi átt gott samstarf við Íslendinga á vettvangi NATO. Bandaríkjamenn tóku einhliða ákvörðun um lokun herstöðvarinnar í Keflavík. Það var smánarleg framkoma gagnvart lítilli vinaþjóð, sameiginlegum stofnaðila í Atlantshafsbandalaginu. Í þessu sambandi skipta fjárhagslegar hagsbætur sem Íslendingar nutu af veru hersins gegnum áratugina ekki máli. Að þessu sögðu er mikilvægt að ríkisstjórnin hafi sterkt taumhald á embættismönnum utanríkisráðuneytisins og dragi línu í sandinn til að árétta að Bandaríkjamenn geti ekki leitað í öryggisfaðm Íslendinga þegar þeim hentar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorbjörn Þórðarson Mest lesið Bob Marley og íslenskar kosningar Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Örvæntingarfullur maður sker út grasker Þórður Snær Júlíusson Skoðun Ég var barnið sem vildi ekki taka í höndina á kennaranum sínum Fida Abu Libdeh Skoðun Sjálfstæðisflokkur hækkar kostnað heimilanna Kristrún Frostadóttir Skoðun Gerum þetta að kosningamáli Ágúst Ólafur Ágústsson Skoðun Ölmusuhagkerfið Unnur Rán Reynisdóttir Skoðun Eru vaxtarmörkin vandinn? Dóra Björt Guðjónsdóttir Skoðun Stóri grænþvotturinn Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun Fyrirmyndarstjórn Viðreisnar og Samfylkingar á Reykjavíkurborg? Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Búum til „vandamál“ – leysum það með samræmdum prófum Árelía Eydís Guðmundsdóttir Skoðun
Þótt Bandaríkjamenn bæti aðstöðu sína á Keflavíkurflugvelli í gegnum samstarf við Íslendinga í Atlantshafsbandalaginu þýðir það ekki að þeir geti gengið að því sem vísu að vera hér með fasta viðveru. Frétt vefsins Stars and Stripes á þriðjudag um að Bandaríkjaher ætli að snúa aftur til Íslands og hafa tímabundna aðstöðu á Keflavíkurflugvelli og að bandaríski sjóherinn gæti síðar meir farið fram á aðstöðu til langframa vakti ugg í brjósti sumra enda var hún túlkuð þannig að hér væri kominn fyrsti vísirinn að endurkomu hersins. Hið rétta er að bandaríski sjóherinn hefur óskað eftir fjárheimild frá Bandaríkjaþingi til að breyta flugskýli Atlantshafsbandalagsins (NATO) á Keflavíkurflugvelli til þess að það geti hýst P-8 Poseidon vélar. Einhliða ákvörðun Bandaríkjamanna um að loka herstöðinni í Keflavík árið 2006 hefur verið túlkuð sem afleikur af sérfræðingum í varnar- og öryggismálum. Frá því hefur verið greint að í bandaríska varnarmálaráðuneytinu sjái menn eftir henni og í fyllingu tímans hafi mönnum orðið ljóst að hún hafi verið mistök. Í grein Vals Ingimundarsonar, prófessors í sagnfræði, um samskipti Íslands við Bandaríkin í ritsafninu Uppbrot hugmyndakerfis: Endurmótun utanríkisstefnu 1991-2007 kemur fram að lokun herstöðvarinnar hafi verið liður í endurmati á varnar- og öryggishagsmunum Bandaríkjanna í ljósi atburðanna 11. september 2001. Það endurspeglaði hagsmunamat nýrra áhrifamanna í bandarísku þjóðfélagi sem töldu mikilvægt að tryggja yfirráð yfir olíuauðlindum og spyrna við uppgangi hryðjuverkahópa. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan herstöðinni var lokað. Það er augljóst að það eru brýnir hagsmunir Bandaríkjamanna að styrkja viðveru sína á Norður-Atlantshafi vegna vaxandi hernaðarumsvifa Rússa á þessum slóðum sem birtist í aukinni umferð rússneskra sprengjuflugvéla og kafbáta. Aukin viðvera Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli rúmast innan gildandi varnarsamnings milli Bandaríkjanna og Íslands með þeim breytingum sem gerðar voru á honum í kjölfar brottfarar varnarliðsins árið 2006. Starfsmenn utanríkisráðuneytisins voru jafnframt snöggir til að árétta, þegar frétt um skýlið birtist, að engar viðræður ættu sér stað milli Íslands og Bandaríkjanna um varanlega staðsetningu bandarísks liðsafla á Íslandi. Þótt Bandaríkjamenn endurbæti skýli fyrir flugvélar til að sinna eftirliti á Norður-Atlantshafi er mikilvægt að ráðamenn í Washington velkist ekki í neinum vafa um að umsvif þeirra á Íslandi verða ekki aukin nema með samþykki íslenska löggjafans. Bandaríkjamenn geta ekki gengið að því sem vísu að þeir geti snúið hingað aftur þótt þeir hafi átt gott samstarf við Íslendinga á vettvangi NATO. Bandaríkjamenn tóku einhliða ákvörðun um lokun herstöðvarinnar í Keflavík. Það var smánarleg framkoma gagnvart lítilli vinaþjóð, sameiginlegum stofnaðila í Atlantshafsbandalaginu. Í þessu sambandi skipta fjárhagslegar hagsbætur sem Íslendingar nutu af veru hersins gegnum áratugina ekki máli. Að þessu sögðu er mikilvægt að ríkisstjórnin hafi sterkt taumhald á embættismönnum utanríkisráðuneytisins og dragi línu í sandinn til að árétta að Bandaríkjamenn geti ekki leitað í öryggisfaðm Íslendinga þegar þeim hentar.