Sport

Keníumenn hóta því að mæta ekki á ÓL í Ríó

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Asbel Kiprop er þrefaldur heimsmeistari í 1500 metra hlaupi.
Asbel Kiprop er þrefaldur heimsmeistari í 1500 metra hlaupi. Vísir/Getty
Kenía verður mögulega ekki með íþróttamenn á Ólympíuleikunum í Ríó í Brasilíu vegna ótta manna þar á bæ við Zika veiruna.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur lýst yfir neyðarástandi á heimsvísu vegna Zika-veirunnar sem dreifir sér hratt og víða.

Yfirvöld í Brasilíu staðfestu í maí 2015 að veiran hefði greinst í norðausturhluta landsins og síðan þá hefur Zika veiran dreift sér víðar um heiminn, aðallega í Mið- og Suður-Ameríku. Veiran breiðist aðallega út með moskítóbiti.

Ólympíuleikarnir fara fram í Ríó í Brasilíu frá 5. til 21. ágúst en góðu fréttirnar eru að þá eru minna um moskítóflugur enda vetur á þessum slóðum.

Kenía á marga af bestu millivega- og langhlaupurum heimsins og var ennfremur sú þjóð sem vann flest verðlaun á HM í frjálsum í Peking á síðasta ári.

„Auðvitað ætlum við ekki að taka áhættu með okkar íþróttafólk en þessi Zika veira verður að miklum faraldri," sagði Kipchoge Keino, forseti Ólympíunefndar Keníu, í samtali við Reuters.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×