Rangfærslur Óli Kristján Ármannsson skrifar 22. janúar 2016 07:00 Yfirlýsing Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í gær um að engin áform væru uppi í utanríkisráðuneytinu um að hverfa frá stuðningi Íslands við viðskiptaþvinganir á hendur Rússlandi er ánægjuleg. Enda væri vegið að hagsmunum landsins ef látið yrði undan þeim vælukór sem kvartað hefur undan áhrifum innflutningsbanns Rússa á íslenskar afurðir, sem sett var á í fyrrasumar vegna stuðnings Íslands við þvinganirnar. Í fyrradag kvaddi Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sér hljóðs á Alþingi og hélt því fram að með stuðningi við þvingunaraðgerðir vestrænna þjóða væri hér verið að kasta fyrir róða Rússlandsmarkaði, sem um áratugaskeið hafi verið mikilvægasti markaður landsins fyrir fiskafurðir og matvælaframleiðslu. „Þær staðföstu þjóðir sem við fylgjum eins og skugginn hafa ekki lagt mikið undir í viðskiptaþvingunum sínum á Rússlandi og heildaráhrif aðgerðanna varla mælanlegar í þeirra efnahag,“ sagði hann. Málflutningurinn kallast að hluta á við yfirlýsingar útgerðarmanna um að þvinganirnar komi jafnvel hvergi jafn hart niður og einmitt hér. Áhrifin eru vissulega allnokkur og óþarfi að gera lítið úr þeim, en þau eru langt því frá með því mesta sem gerist á byggðu bóli og raunar helberar rangfærslur að halda slíku fram. Í skýrslu Evrópusambandsins um áhrifin sem út kom á haustdögum 2014 kemur til dæmis fram að mun meiri áhrif eru á landsframleiðslu í Eystrasaltslöndunum, sér í lagi Litháen, 2,6 prósent af vergri landsframleiðslu. Þá má velta fyrir sér hvort fullyrðingar í þá átt að viðskiptabannið eitt komi niður á viðskiptum Íslendinga við Rússa standist skoðun. Árið 2014 lentu útflytjendur hér í stórfelldum vandræðum vegna gjaldþrota fyrirtækja í Rússlandi. Í nýjasta hefti efnahagsritsins Vísbendingar er vitnað til skýrslu Reykjavík Economics, um þær áskoranir sem hagkerfi Rússlands stendur frammi fyrir. Verg landsframleiðsla Rússa hafi á síðasta árið dregist saman um 3,6 prósent og enn stæði landið frammi fyrir mótvindi vegna lækkandi olíuverðs. „Þess vegna er ljóst að kaupmáttur hefur minnkað í Rússlandi og það hefur áhrif á eftirspurn eftir vörum. Ósljóst er hvaða áhrif þetta myndi hafa á innflutning á uppsjávarfiskum frá Íslandi,“ segir í þýðingu Vísbendingar á skýrslunni. Þar segir líka að ekki dugi að láta eins og allt myndi falla í ljúfa löð varðandi viðskipti við Rússland bara ef Íslendingar skærust úr leik og ryfu samstöðu vestrænna þjóða gegn yfirgangi Rússa á Krímskaga. Ljóst er að menn fara offari í sérhagsmunagæslunni þegar áhrif af samstöðu Íslands með vestrænum þjóðum eru bæði ýkt og skrumskæld. Smáþjóðir eiga allt undir því að alþjóðalög séu virt, eða svo vitnað sé í orð Elínar Hirst, þingkonu Sjálfstæðisflokks, á Alþingi í gær: „Við getum að sjálfsögðu ekki talað tveimur tungum hvað varðar virðingu okkar fyrir alþjóðalögum sem smáríki þar sem við byggjum afkomu okkar að miklum hluta á fiskveiðum og eigum því allt undir því að alþjóðalög og -sáttmálar séu virtir.“ Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Óli Kr. Ármannsson Mest lesið Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Þegar Samtök verslunar og þjónustu vita betur Erna Bjarnadóttir Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun
Yfirlýsing Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í gær um að engin áform væru uppi í utanríkisráðuneytinu um að hverfa frá stuðningi Íslands við viðskiptaþvinganir á hendur Rússlandi er ánægjuleg. Enda væri vegið að hagsmunum landsins ef látið yrði undan þeim vælukór sem kvartað hefur undan áhrifum innflutningsbanns Rússa á íslenskar afurðir, sem sett var á í fyrrasumar vegna stuðnings Íslands við þvinganirnar. Í fyrradag kvaddi Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sér hljóðs á Alþingi og hélt því fram að með stuðningi við þvingunaraðgerðir vestrænna þjóða væri hér verið að kasta fyrir róða Rússlandsmarkaði, sem um áratugaskeið hafi verið mikilvægasti markaður landsins fyrir fiskafurðir og matvælaframleiðslu. „Þær staðföstu þjóðir sem við fylgjum eins og skugginn hafa ekki lagt mikið undir í viðskiptaþvingunum sínum á Rússlandi og heildaráhrif aðgerðanna varla mælanlegar í þeirra efnahag,“ sagði hann. Málflutningurinn kallast að hluta á við yfirlýsingar útgerðarmanna um að þvinganirnar komi jafnvel hvergi jafn hart niður og einmitt hér. Áhrifin eru vissulega allnokkur og óþarfi að gera lítið úr þeim, en þau eru langt því frá með því mesta sem gerist á byggðu bóli og raunar helberar rangfærslur að halda slíku fram. Í skýrslu Evrópusambandsins um áhrifin sem út kom á haustdögum 2014 kemur til dæmis fram að mun meiri áhrif eru á landsframleiðslu í Eystrasaltslöndunum, sér í lagi Litháen, 2,6 prósent af vergri landsframleiðslu. Þá má velta fyrir sér hvort fullyrðingar í þá átt að viðskiptabannið eitt komi niður á viðskiptum Íslendinga við Rússa standist skoðun. Árið 2014 lentu útflytjendur hér í stórfelldum vandræðum vegna gjaldþrota fyrirtækja í Rússlandi. Í nýjasta hefti efnahagsritsins Vísbendingar er vitnað til skýrslu Reykjavík Economics, um þær áskoranir sem hagkerfi Rússlands stendur frammi fyrir. Verg landsframleiðsla Rússa hafi á síðasta árið dregist saman um 3,6 prósent og enn stæði landið frammi fyrir mótvindi vegna lækkandi olíuverðs. „Þess vegna er ljóst að kaupmáttur hefur minnkað í Rússlandi og það hefur áhrif á eftirspurn eftir vörum. Ósljóst er hvaða áhrif þetta myndi hafa á innflutning á uppsjávarfiskum frá Íslandi,“ segir í þýðingu Vísbendingar á skýrslunni. Þar segir líka að ekki dugi að láta eins og allt myndi falla í ljúfa löð varðandi viðskipti við Rússland bara ef Íslendingar skærust úr leik og ryfu samstöðu vestrænna þjóða gegn yfirgangi Rússa á Krímskaga. Ljóst er að menn fara offari í sérhagsmunagæslunni þegar áhrif af samstöðu Íslands með vestrænum þjóðum eru bæði ýkt og skrumskæld. Smáþjóðir eiga allt undir því að alþjóðalög séu virt, eða svo vitnað sé í orð Elínar Hirst, þingkonu Sjálfstæðisflokks, á Alþingi í gær: „Við getum að sjálfsögðu ekki talað tveimur tungum hvað varðar virðingu okkar fyrir alþjóðalögum sem smáríki þar sem við byggjum afkomu okkar að miklum hluta á fiskveiðum og eigum því allt undir því að alþjóðalög og -sáttmálar séu virtir.“