Lífið

Aron um líkamsárásina: Langar að hitta manninn og spyrja "af hverju?“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Aron tekur þátt á EM síðar í mánuðnum sem hefst 15. janúar.
Aron tekur þátt á EM síðar í mánuðnum sem hefst 15. janúar.
„Það var bara einhver algjör snillingur sem ákvað að kýla mig í andlitið,“ sagði handboltamaðurinn Aron Pálmarsson, sem var til umfjöllunar í Atvinnumönnunum okkar í umsjón Auðuns Blöndal í gærkvöldi á Stöð 2.

Undir lok síðasta árs varð Aron fyrir líkamsárás í miðbæ Reykjavíkur og hafði sú árás þær afleiðingar að hann gat ekki beitt sér almennilega á heimsmeistaramótinu í Katar.

„Ég var nýkominn heim og ákvað að kíkja aðeins út á laugardegi. Kvöldið endaði bara upp á slysó með skurð og heilahristing. Ég gat síðan ekki spilað á HM útaf þessu.“

Sjá einnig: Alfreð um Aron Pálmarsson: „Ég var búinn að segja honum að hann verður buffaður í dag“

Aron leikur í dag með ungverska liðinu Veszprém en var áður hjá Kiel í þýskalandi. Það kom greinilega í ljós í þættinum að það fer heldur vel um Aron í Ungverjalandi.

Auðunn spurði Aron í þættinum í gær af hverju hann hafi verið slegin niður og svaraði handboltamaðurinn; „Ég biðla bara til þjóðarinnar, ef einhver veit eitthvað. Ég hef án djóks ekki hugmynd. Ég veit ekkert hver kýldi mig og ég veit ekki af hverju. Ég væri í raun mest til í að liggja bara í svona baði eins og við og spyrja þennan dreng, af hverju? svo ég viti kannski hvort ég hafi átt þetta skilið eða hvort þetta hafi verið algjörlega fáránlegt af honum.“

Íslenska landsliðið tekur þátt á EM í handbolta sem hefst 15. janúar og verður Aron í eldlínunni í Póllandi. 

Hér að neðan má sjá atriðið úr þættinum í gær þar sem Aron ræddi um líkamsárásina. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×