Bílar

Stolnir bílar seldir til Íslands

Finnur Thorlacius skrifar
Mercedes Benz Sprinter, svipaður þeim sem fjallað er um í fréttinni. Innfellda myndin er af Karsten Meyerdahl og konu hans, sem seldu bílinn sem þeirra eigin eign væri, til Íslands.
Mercedes Benz Sprinter, svipaður þeim sem fjallað er um í fréttinni. Innfellda myndin er af Karsten Meyerdahl og konu hans, sem seldu bílinn sem þeirra eigin eign væri, til Íslands.
Að minnsta kosti þrír bílar er á götunum hérlendis sem danskur athafnamaður að nafni Karsten Meyerdahl hefur selt íslenskum kaupendum, en þeir eru stolnir. Kemur þetta fram á heimasíðu FÍB og er starfsfólk FÍB að kanna hvort bílarnir kunni að vera fleiri.

Neytendaþátturinn Kontant í danska ríkissjónvarpinu DR1 hefur undanfarið rakið langan og fjölbreyttan svikaferil þessa danska „athafnamanns“. Karsten þessi hefur m.a. átt í viðskiptum með notaða bíla og selt nokkra þeirra til Íslands. Fréttamaður sjónvarpsstöðvarinnar hefur rakið nákvæmlega feril tveggja þessara bíla, beggja stolinna, sem seldir voru til Íslands. Annar er Mercedes Sprinter sendibíll, hinn Porsche Boxter. Báðir eru nú skráðir hér og á íslenskum skráningarnúmerum.

Meyerdahl lagði hins vegar á flótta þegar fréttamenn DR fóru að rannsaka viðskipti hans. Hann dvelur nú í Hvíta-Rússlandi ásamt konu sinni sem er ættuð þaðan og fyrirtæki hans, Eleka Group er í gjaldþrotameðferð. Sjónvarpsþáttur um málið verður sýndur í danska sjónvarpinu annað kvöld.

Fyrirtæki í Hveragerði keypti bílinn

Annar stolnu bílanna ofannefndu, Mercedes Sprinter sendibíllinn var skráður á Íslandi í september 2014. Hann var þá skráð eign danska kaupleigufyrirtækisins M&M Leasing en fyrirtæki Meyerdahls, Eleka Group með hann á kaupleigu. Engu að síður seldi athafnamaðurinn bílinn íslensku fyrirtæki skráðu í Hveragerði, sem sína eign. 

Bíllinn fékkst skráður á Íslandi að því er virðist með því að framvísa upprunalegum þýskum skráningarskjölum frá fyrsta eiganda bílsins. Sprinterinn er nú atvinnutæki sendibílstjóra sem var gersamlega ókunnugt um þessa sögu bílsins þar til alveg nýlega.

Fréttamaður DR spurðist fyrir um það hjá Samgöngustofu hvernig að skráningu þriggja bíla frá Karsten Meyerdahl hefði verið staðið, þeirra á meðal Sprinter sendibílnum fyrrnefnda. Í svari frá yfirlögfræðingi stofnunarinnar segir að hún hafi eins og skylt er, verið byggð á upprunalegum (original) skráningarskjölum, ýmist dönskum eða þýskum sem skráð væru í svokölluðum Icetra gagnabanka. Það væri hins vegar ekki á ábyrgð íslenskra yfirvalda að rekja eigendaferil bíla umfram þau gögn sem framvísað er við forskráningu.






×