Óáhugaverðasti pistill Íslandssögunnar Sif Sigmarsdóttir skrifar 9. janúar 2016 07:00 Skiptir það þig máli hver mætti og hver skrópaði á ritstjórnarfund þessa dagblaðs í morgun? Veltir þú mikið fyrir þér um hvað rifrildi starfsmanna snerist sem ómur barst af frá lagernum í Bónus síðast þegar þú fórst að versla? Skiptir það þig máli hvort þessi pistill var skrifaður með Times New Roman letrinu eða Arial? Kæri lesandi. Ég ráðlegg þér að hætta strax að lesa. Eftirfarandi eru hugleiðingar um eitt óáhugaverðasta málefni stjórnmálanna nú um stundir – jafnvel óáhugaverðasta málefni stjórnmálasögunnar allrar.Með majónes út á kinn Ég sat uppi í sófa á gamlársdag og horfði á Kryddsíldina á Stöð tvö eins og hefðin kveður á um. Ég segi horfa en ég meina dotta, dotta yfir Kryddsíldinni. Í ár dró hins vegar til tíðinda. Venjulega hef ég náð að halda mér vakandi yfir þessari áramótasamkomu fremstu þingmanna þjóðarinnar að minnsta kosti fyrsta hálftímann. Að minnsta kosti jafnlengi og það tekur mig að skófla í mig tveimur pökkum af flatkökum og dalli af túnfisksalati. En að þessu sinni var met slegið. Eftir fjórtán mínútur, með munninn fullan af brauði, majónes út á kinn og dós af jólaöli enn í lúkunum fór ég að hrjóta.Litli, hrjótandi jafnaðarmaðurinn Strax annan dag ársins birti Gallup skoðanakönnun um fylgi stjórnmálaflokkanna sem staðfesti þá þróun sem varð á árinu 2015: Jafnaðarmannaflokkarnir – Samfylkingin og Björt framtíð – eru að þurrkast út. Yrði kosið í dag hlyti Samfylkingin 10% atkvæða. Björt framtíð næði ekki manni á þing. Það er skrýtið til þess að hugsa að ekki fleiri gangi um með lítinn jafnaðarmann í hjartanu. Þangað til í síðustu þingkosningum fékk Samfylkingin alltaf milli 25 og 30 prósent atkvæða í Alþingiskosningum. Björt framtíð kom sex mönnum á þing í síðustu kosningum. Hvað varð eiginlega um alla þessa litlu jafnaðarmenn? Svarið er einfalt. Rétt eins og ég yfir Kryddsíldinni eru þessir litlu jafnaðarmenn farnir að hrjóta af leiðindum. Þegar ég sofnaði á gamlársdag var Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, að tala um vinnubrögð á Alþingi. „Þingmál koma nú seinna inn í þingið en nokkru sinni fyrr,“ sagði hann kappsfullur. Ég heyrði þó lítið annað en „bla, bla, bla“ og hvarf inn í draumaheiminn þar sem tók á móti mér skrímsli úr majónesi í laginu eins og Jabba the Hutt sem reyndi að éta mig. Þegar ég vaknaði upp með andfælum undir lok Kryddsíldar, staðráðin í að fara í heilsuátak næsta dag, blasti við mér á skjánum sjón sem lét mér líða eins og ég væri föst í þætti af The Twilight Zone: Árni Páll var enn að tala um vinnubrögð á Alþingi.Jón sem gleymir að sturta niður Rétt eins og Árni Páll hefur Björt framtíð lagt mikla áherslu á vinnubrögð á Alþingi í málflutningi sínum. Mér þykir leiðinlegt að þurfa að segja þetta en ég bara verð: Sorrí, krakkar, en það er langflestum sama um vinnustaðapólitíkina ykkar. Við glímum öll við vinnustaðapólitík. Það þýðir þó ekki að lesendur Fréttablaðsins þurfi að lesa um stemninguna á kaffistofu 365 á síðum þessa blaðs. Það þýðir ekki að þegar maður fer í Bónus þurfi maður áður en maður fær að borga að hlusta á starfsmann á kassa eitt kvarta undan því að Jón á kassa tvö gleymi alltaf að sturta niður þegar hann er búinn á klósettinu. Kjósendum stendur á sama um hversu seint eða snemma þingmenn leggja fram frumvörp, þeim stendur á sama um frammíköll þingmanna, bjölluslátt þingforseta, fundarstjórn, málþóf, þingsköp, hálsbindi og hvað er á matseðli dagsins í mötuneytinu. Þessi þráhyggja um vinnubrögð á Alþingi höfðar til 63 einstaklinga og þeir sitja allir á þingi. Kjósendum stendur hins vegar ekki á sama um heilbrigðismálin, húsnæðismálin, málefni öryrkja og eldri borgara, gjaldeyrishöftin, menntamálin… Pistill næstu viku verður tileinkaður hinum hrjótandi jafnaðarmanni. Fjallað verður um mismunandi leturstærðir allra helstu ritvinnsluforrita. Verði ykkur að því. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Sif Sigmarsdóttir Mest lesið Bob Marley og íslenskar kosningar Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Örvæntingarfullur maður sker út grasker Þórður Snær Júlíusson Skoðun Ég var barnið sem vildi ekki taka í höndina á kennaranum sínum Fida Abu Libdeh Skoðun Sjálfstæðisflokkur hækkar kostnað heimilanna Kristrún Frostadóttir Skoðun Gerum þetta að kosningamáli Ágúst Ólafur Ágústsson Skoðun Ölmusuhagkerfið Unnur Rán Reynisdóttir Skoðun Eru vaxtarmörkin vandinn? Dóra Björt Guðjónsdóttir Skoðun Stóri grænþvotturinn Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun Fyrirmyndarstjórn Viðreisnar og Samfylkingar á Reykjavíkurborg? Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Búum til „vandamál“ – leysum það með samræmdum prófum Árelía Eydís Guðmundsdóttir Skoðun
Skiptir það þig máli hver mætti og hver skrópaði á ritstjórnarfund þessa dagblaðs í morgun? Veltir þú mikið fyrir þér um hvað rifrildi starfsmanna snerist sem ómur barst af frá lagernum í Bónus síðast þegar þú fórst að versla? Skiptir það þig máli hvort þessi pistill var skrifaður með Times New Roman letrinu eða Arial? Kæri lesandi. Ég ráðlegg þér að hætta strax að lesa. Eftirfarandi eru hugleiðingar um eitt óáhugaverðasta málefni stjórnmálanna nú um stundir – jafnvel óáhugaverðasta málefni stjórnmálasögunnar allrar.Með majónes út á kinn Ég sat uppi í sófa á gamlársdag og horfði á Kryddsíldina á Stöð tvö eins og hefðin kveður á um. Ég segi horfa en ég meina dotta, dotta yfir Kryddsíldinni. Í ár dró hins vegar til tíðinda. Venjulega hef ég náð að halda mér vakandi yfir þessari áramótasamkomu fremstu þingmanna þjóðarinnar að minnsta kosti fyrsta hálftímann. Að minnsta kosti jafnlengi og það tekur mig að skófla í mig tveimur pökkum af flatkökum og dalli af túnfisksalati. En að þessu sinni var met slegið. Eftir fjórtán mínútur, með munninn fullan af brauði, majónes út á kinn og dós af jólaöli enn í lúkunum fór ég að hrjóta.Litli, hrjótandi jafnaðarmaðurinn Strax annan dag ársins birti Gallup skoðanakönnun um fylgi stjórnmálaflokkanna sem staðfesti þá þróun sem varð á árinu 2015: Jafnaðarmannaflokkarnir – Samfylkingin og Björt framtíð – eru að þurrkast út. Yrði kosið í dag hlyti Samfylkingin 10% atkvæða. Björt framtíð næði ekki manni á þing. Það er skrýtið til þess að hugsa að ekki fleiri gangi um með lítinn jafnaðarmann í hjartanu. Þangað til í síðustu þingkosningum fékk Samfylkingin alltaf milli 25 og 30 prósent atkvæða í Alþingiskosningum. Björt framtíð kom sex mönnum á þing í síðustu kosningum. Hvað varð eiginlega um alla þessa litlu jafnaðarmenn? Svarið er einfalt. Rétt eins og ég yfir Kryddsíldinni eru þessir litlu jafnaðarmenn farnir að hrjóta af leiðindum. Þegar ég sofnaði á gamlársdag var Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, að tala um vinnubrögð á Alþingi. „Þingmál koma nú seinna inn í þingið en nokkru sinni fyrr,“ sagði hann kappsfullur. Ég heyrði þó lítið annað en „bla, bla, bla“ og hvarf inn í draumaheiminn þar sem tók á móti mér skrímsli úr majónesi í laginu eins og Jabba the Hutt sem reyndi að éta mig. Þegar ég vaknaði upp með andfælum undir lok Kryddsíldar, staðráðin í að fara í heilsuátak næsta dag, blasti við mér á skjánum sjón sem lét mér líða eins og ég væri föst í þætti af The Twilight Zone: Árni Páll var enn að tala um vinnubrögð á Alþingi.Jón sem gleymir að sturta niður Rétt eins og Árni Páll hefur Björt framtíð lagt mikla áherslu á vinnubrögð á Alþingi í málflutningi sínum. Mér þykir leiðinlegt að þurfa að segja þetta en ég bara verð: Sorrí, krakkar, en það er langflestum sama um vinnustaðapólitíkina ykkar. Við glímum öll við vinnustaðapólitík. Það þýðir þó ekki að lesendur Fréttablaðsins þurfi að lesa um stemninguna á kaffistofu 365 á síðum þessa blaðs. Það þýðir ekki að þegar maður fer í Bónus þurfi maður áður en maður fær að borga að hlusta á starfsmann á kassa eitt kvarta undan því að Jón á kassa tvö gleymi alltaf að sturta niður þegar hann er búinn á klósettinu. Kjósendum stendur á sama um hversu seint eða snemma þingmenn leggja fram frumvörp, þeim stendur á sama um frammíköll þingmanna, bjölluslátt þingforseta, fundarstjórn, málþóf, þingsköp, hálsbindi og hvað er á matseðli dagsins í mötuneytinu. Þessi þráhyggja um vinnubrögð á Alþingi höfðar til 63 einstaklinga og þeir sitja allir á þingi. Kjósendum stendur hins vegar ekki á sama um heilbrigðismálin, húsnæðismálin, málefni öryrkja og eldri borgara, gjaldeyrishöftin, menntamálin… Pistill næstu viku verður tileinkaður hinum hrjótandi jafnaðarmanni. Fjallað verður um mismunandi leturstærðir allra helstu ritvinnsluforrita. Verði ykkur að því.