Gagnrýni

Syngið nýjan söng á Skálholtshátíð

Jónas Sen skrifar
Hljómeyki flutti verk eftir Stefán Arason á Skálholtshátíðinni.
Hljómeyki flutti verk eftir Stefán Arason á Skálholtshátíðinni.
Tónlist

Sumartónleikar í Skálholti laugardaginn 11. júlí.

Kórinn Hljómeyki flutti tónlist eftir Stefán Arason.



Sumartónleikar í Skálholti hafa verið fastur liður í menningarlífinu í rúm fjörutíu ár. Hátíðin var lengi afar vegleg en hefur mátt þola gríðarlegan niðurskurð á síðustu misserum.

Í ár stendur hátíðin á tímamótum. Sigurður Halldórsson, sem hefur verið listrænn stjórnandi, sagði starfi sínu lausu nýverið og með honum var staðan lögð niður. Í staðinn tók við listrænt teymi sem vinnur launalaust. Það tekur virkan þátt í tónleikunum sem tónskáld, flytjendur eða leiðbeinendur á vinnustofum hátíðarinnar. Þetta eru þau Sigurður Halldórsson sem fyrr var nefndur, auk Elfu Rúnar Kristinsdóttur fiðluleikara og Huga Guðmundssonar tónskálds. Hvort peningarnir eru betur nýttir með þessu fyrirkomulagi verður að koma í ljós.

Tónleikar laugardagsins voru a.m.k. fínir. Þar voru flutt kórverk eftir Stefán Arason, en hann hefur ekki verið mjög áberandi í tónleikalífinu hérlendis undanfarið. Hann hefur líka verið búsettur í Danmörk um árabil.

Kórinn Hljómeyki söng verkin, sem voru öll án undirleiks. Tónleikarnir hófust á því að kórinn gekk inn í kirkjuna syngjandi lag sem hét viðeigandi nafni: Syngið nýjan söng! Laglínan var falleg, hún var einföld en grípandi. Smám saman varð tónlistin þó flóknari. Hluti kórsins brá sér þá gjarnan í hlutverk undirleikshljóðfæris, myndaði liggjandi hljóma sem féll einkar vel að söng hinna kórmeðlimanna. Um var að ræða ómstríða hljómaklasa sem voru fallega útfærðir af kórnum.

Í það heila var tónlistin þung, jafnvel þunglyndisleg, og sver sig þannig í ætt við gríðarlegt magn íslenskra tónverka sem hafa trúarlega skírskotun. Það er eins og að gleði og kristin trú séu algerlega ósamræmanleg hugtök í huga íslenskra tónskálda! Hér með er ég ekki að gera lítið úr Stefáni; tónlistin hans var vönduð og hugvitsamleg, tók óvæntar sveigjur sem voru samt eðlilegar; uppbyggingin var sannfærandi og full af stemningu. Alvarleg tónlist getur verið heillandi líka.

Sérstaklega verður að nefna stórt og mikið verk, Future Requiem við ljóð eftir Jens Carl Sanderhoff. Innblásturinn er fenginn frá kaþólskri sálumessu, kaflarnir eru þeir sömu og í messunni, en textarnir eru nýir. Þetta eru dapurlegar hugleiðingar um hinstu rök tilverunnar, dauðann og tilganginn með lífinu, ef hann er þá einhver. Rétt eins og hinar tónsmíðarnar var andrúmsloftið dökkt, tónmálið var margbrotið og sumpart fráhrindandi, en þar var líka frumleiki og fegurð.

Kórinn söng afar glæsilega, söngurinn var hreinn og tilfinningaþrunginn og gerði tónlistinni viðeigandi skil. Eins og fyrr segir vona ég að ég eigi eftir að heyra fleiri verk eftir Stefán, tónlist hans á greinilega fullt erindi í tónleikaflóruna hérlendis.

Niðurstaða: Mögnuð kórtónlist sem var fallega flutt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×