Íslenski boltinn

Erum ekki að veðja á einhverja peninga sem við eigum að fá á næsta ári

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Archange Nkumu er einn af nýju mönnunum í liði KA. Hann var eitt sinn á mála hjá Chelsea.
Archange Nkumu er einn af nýju mönnunum í liði KA. Hann var eitt sinn á mála hjá Chelsea.
„Við stefnum á efstu deild. Það er ekkert launungarmál,“ sagði Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar KA, í samtali við Fréttablaðið í gær aðspurður um markmið Norðlendinga í 1. deildinni í sumar.

Fleiri lið sem vilja fara upp

„Við þorum alveg að segja að þetta er markmiðið hjá okkur. En þótt menn segi það ekki hljóta 5-6 önnur lið að stefna á það sama. Það eru mörg sterk lið í deildinni og þetta verður spennandi sumar,“ bætti Sævar við. Fyrsta deildin hefst í kvöld þegar HK sækir nýliða Gróttu heim á Vivaldi-völlinn á Seltjarnarnesi.

KA-menn setja markið hátt í ár en liðið hefur ekki leikið í efstu deild síðan 2004 og stuðningsmenn þess vilja sjá sína menn spila í deild þeirra bestu.

KA hefur verið duglegt á leikmannamarkaðinum í vetur og bætt við sig sterkum og reyndum leikmönnum. Meðal þeirra eru Halldór Hermann Jónsson og Elfar Árni Aðalsteinsson sem hafa verið fastamenn í liðum í Pepsi-deildinni undanfarin ár, en félagaskipti þess síðarnefnda komu talsvert á óvart. Elfar skoraði 12 mörk í 47 leikjum fyrir Breiðablik síðustu þrjú ár í Pepsi-deildinni en ákvað að söðla um í vetur og skrifaði undir þriggja ára samning við KA.

KA-menn sóttu Juraj Grizelj til Grindavíkur, en hann hefur verið einn besti leikmaður 1. deildar undanfarin tvö ár. Hilmar Trausti Arnarsson, fyrrverandi fyrirliði Hauka, bættist einnig í hópinn sem og Ben Everson, sem lék áður með Tindastóli, Breiðabliki og BÍ/Bolungarvík. Þá fékk liðið tvo erlenda leikmenn til viðbótar, Archange Nkumu og Amos Kabeya, en sá fyrrnefndi var á sínum tíma á mála hjá stórliði Chelsea. Bjarni Jóhannsson þjálfar KA-liðið áfram en hann er á sínu þriðja ári með liðið.

Dýrara lið fyrir tveimur árum

Þrátt fyrir þessi leikmannakaup segir Sævar að KA sé ekki að spenna bogann of hátt:

„Dýrt og ekki dýrt. Liðið sem við vorum með fyrir tveimur árum var dýrara og liðið í ár er dýrara en það sem við vorum með í fyrra, þegar margir ungir strákar fengu tækifæri,“ sagði Sævar, en að hans sögn er þegar búið að fjármagna sumarið hjá KA.

„Þótt við förum ekki upp í Pepsi-deildina gerum við þetta sumar upp og ekkert vandamál. Við erum ekki að veðja á einhverja peninga sem við eigum að fá á næsta ári,“ bætti Sævar við en KA-menn komust alla leið í úrslitaleik Lengjubikarsins þar sem þeir töpuðu 1-0 fyrir Breiðabliki.

Slæm byrjun hefur orðið KA að falli undanfarin ár en liðið tapaði t.a.m. þremur fyrstu leikjunum í 1. deildinni í fyrra. Fyrir vikið var róðurinn erfiður en KA endaði í 8. sæti með 31 stig, tólf stigum frá ÍA sem var í 2. sæti.

Hópurinn tilbúinn fyrir viku

Sævar segir að leikmannahópur KA sé tilbúinn mun fyrr en síðustu ár: „Hópurinn er klár og var það fyrir viku síðan. Við erum heppnir að því leyti að íslensku strákarnir eru fluttir norður og verða hjá okkur næstu 2-3 árin. Síðustu ár höfum við fengið menn um vorið og misst þá síðan um haustið,“ sagði Sævar en KA mun ekki bæta við sig fleiri leikmönnum að hans sögn.

Stuðningsmenn KA eru sem áður sagði orðnir langeygir eftir árangri. Þrátt fyrir það segist Sævar ekki finna fyrir pressu frá samfélaginu á Akureyri.

„Við setjum pressuna á okkur sjálfir. Við viljum fara upp og höfum unnið að því frá síðasta tímabili að búa til hóp sem getur náð því markmiði,“ sagði Sævar og benti réttilega á að KA eigi unga og spennandi leikmenn sem hafa leikið með yngri landsliðum Íslands. Þeirra á meðal eru Ævar Ingi Jóhannesson, Ólafur Hrafn Kjartansson, Fannar Hafsteinsson og Gauti Gautason.

KA hefur leik í 1. deildinni á morgun þegar Norðanmenn taka á móti Fram sem féll úr Pepsi-deildinni í fyrra. Leikurinn fer fram á gervigrasvelli þeirra KA-manna en aðalvöllurinn er þakinn snjó.

„Við þurfum að bíða eftir að geta losað snjóinn og svo þurfum við 10-14 daga til að vinna í vellinum áður en hann verður klár,“ sagði Sævar að lokum.

Uppfært 11:25: Amos Kabeya mun ekki spila með KA-liðinu í sumar. KA hefur hins vegar samið við annan erlendan leikmann, Callum Williams.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×