Heilsa

Er maki minn kynlífsfíkill?

sigga dögg skrifar
Vísir/Getty
Lesendur Lífsins geta alltaf sent inn fyrirspurnir um kynlíf og fengið svarið birt hér í þessum dálki.

Spurning

Ég er með spurningu um meðaltal í samlífi hjóna á fertugsaldri. Er það eðlilegt að ætlast til þess að maki stundi kynlíf 3-4 sinnum í viku? Getur það verið merki um að annar aðilinn sé kynlífsfíkill eða er þetta bara það sem hjón almennt gera?

Svar

Kærar þakkir fyrir spurninguna, þetta er málefni sem brennur á mörgum pörum og er eitt algengasta deiluefni para hvað kynlíf viðkemur. Mismunandi kynlöngun getur haft virkilega slæm áhrif á sambönd þar sem endalaus togstreita í kynlífi og ólík löngun einstaklinga fer að hafa áhrif á aðra þætti sambandsins.

Það er ómögulegt fyrir mig að segja hvort maki þinn sé haldinn kynlífsfíkn og er það hugtak út af fyrir sig umdeilt.

Þegar talað er um fíkn þá lýtur það þeim lögmálum að það valdi viðkomandi mikilli truflun í lífinu og þá í raun væri kynlíf með maka aðeins skammgóður vermir.

Hitt er svo annað, fólk hefur mismikla löngun í kynlíf og geta margir þættir spilað þar inn í. Hvati fyrir að stunda kynlíf getur verið annar en kynlöngun og það getur verið að maki noti þetta sem leið til að tengjast tilfinningalega og auka nánd ykkar á milli.

Þetta er alltaf spurning um samræmingu og að finna leið sem ykkur hentar þannig að jafnvægi náist í samlífinu. Það að krefjast kynlífs frá maka er í sjálfu sér vandasamt því þetta er eitthvað sem þið þurfið bæði að koma að, annars getur viðkomandi stundað sjálfsfróun ef eina málið er útrás en í flestum tilvikum er kynlíf meira en bara það. Kynlíf er meira en bara samfarir og er gott að muna það, mörg pör finna sitt jafnvægi með því að minna á það og víkka út kynhegðunina sína með gælum.

Þið þurfið því að ræða hreinskilnislega saman um hvað hentar ykkur.

Til að aðstoða ykkur við þessar samningaviðræður þá gæti verið gott að leita til kynfræðings í ráðgjöf. Gangi ykkur vel og munið að sýna hvort öðru kurteisi, þolinmæði, skilning og virðingu í þessum samræðum.








×